06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (2269)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég þakka þá yfirlýsingu hæstv. forsrh. að ekki eigi að svíkja í þessu máli, þó að ekki fáist staðfest hvenær sé að vænta frv. frá stjórnmálaforingjunum. Ég vil undirstrika eitt atriði. Ég lít svo á að þar sem kosningalögin eru komin á dagskrá í þinginu sé óeðlilegt að ræða þau undir þessum lið, umræðum utan dagskrár. Það hefur aftur á móti verið gert og ég neyðist til að mótmæla því að í þeim kosningalögum sé gert ráð fyrir misjöfnum atkvæðisrétti á Íslandi. Í þeim kosningalögum er gert ráð fyrir hnífjöfnum atkvæðisrétti á Íslandi, dulbúnum að vísu, en framkvæmdum með því að rugla öllum atkvæðum í einn kassa til að meta hvað hver flokkur eigi að fá marga þm. Það er hnífjafn atkvæðisréttur. Því verða menn að gera sér grein fyrir. Stærðfræðilega er það hnífjafn atkvæðisréttur. (Gripið fram í: Ekki eftir kjördæmum.)