06.02.1984
Neðri deild: 43. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (2270)

Umræður utan dagskrár

Heilbr.. og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr.

Ég hefði nú talið að það hefði þá verið nær að taka kosningalagafrv. til umr. og ræða það svo efnislega en að vera að þessu karpi utan dagskrár. — En erindi mitt hingað í ræðustól var það, að ég vil árétta að stjskrn. samþykkti að hafa þann hátt á að senda þingflokkunum skýrslur stjskrn. og óska svara írá þeim og jafnframt að vinna að undirbúningi að tillögum eða ábendingum um persónukjör. Það var jafnframt sagt á þessum fundi og allir nm. viðurkenndu að ekki væri reiknað með að stjskrn. kæmi saman fyrr en eftir nokkuð langan tíma því hún vildi gefa þingflokkunum þetta tækifæri. Það hefur verið margrætt í stjskrn. af fulltrúum hinna einstöku flokka að þeir vildu fá umboð hver frá sínum flokki áður en þeir tækju afstöðu í fjölmörgum málum. Það er óbreytt. Það er því ákaflega undarleg aðferð að vera nm. í nefnd og taka þátt í afgreiðslu þar, en koma svo fram í utandagskrárumr. á Alþingi og óska eftir því að nefnd sé kölluð saman. Hv. 5. þm. Reykv. hefði getað óskað eftir að nefndin kæmi saman án þess að koma fram í utandagskrárumr. á Alþingi. Það hefði verið vel hægt að ná í formann stjskrn. án þess.

Páll Pétursson: Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að segja hér nokkur orð vegna þess að vinnubrögð í þingflokkum hefur aðeins borið á góma. Ég get fullvissað formann stjskrn. um að þingflokkur Framsfl. mun gera sínar athugasemdir við það frv. sem honum hefur verið sent og ég tel að það séu eðlileg vinnubrögð einmitt á þessu stigi að þingflokkunum gefist kostur á að fjalla um þetta mál og gera sínar aths. áður en það er lengra komið — og við þau frumvarpsdrög sem fyrir liggja er nauðsynlegt að gera aths.

Hins vegar er það svo, að hæstv. ráðh. okkar sjá okkur fyrir ærnum viðfangsefnum og okkur hefur því miður ekki unnist tími til í mínum þingflokki að taka þetta mál til meðferðar enn þá, en ég vænti þess að það geti orðið mjög bráðlega. Á hinn bóginn er þetta verk ekki hrist fram úr erminni á nokkrum mínútum.

Ég vona að hæstv. forsrh. eða ríkisstj. reyni ekki að nota þá töf sem orðið hefur á því að við svörum stjskrn. sem eitthvert skálkaskjól til að láta misrétti þrífast í landinu og sitja með hendur í skauti.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér um kosningalög utan dagskrár. Þau eru á dagskrá nú þegar á þessum fundi og það gefst tækifæri til að ræða um þau þá og það er þinglegra og eðlilegra en gera það í umr. utan dagskrár. En óskemmtilegt þótti mér að hlusta á jafnágætan þm. og hv. þm. Gunnar G. Schram vera að fjasa hér um fjórfaldan atkvæðisrétt milli kjördæma í þessum ræðustól. Hann virðist gleyma og ekkert reikna með uppbótarþm., hvar þeir eru valdir, né heldur búsetu þm., þar sem 2/3 alþm. hafa á undanförnum þingum verið búsettir í þessum hlunnförnu kjördæmum, Reykjavík og Reykjanesi.