26.10.1983
Efri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

8. mál, ráðstafanir í sjávarútvegsmálum

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Hér skipta menn grimmt um skoðanir. Hv. 9. þm. Reykv. lýsir því yfir, að gengisfellingar séu misheppnuð vinnubrögð stjórnvalda. Hv. 3. þm. Norðurt. v. lýsir því yfir, að djarfar hugmyndir fjmrh. séu misskilningur. En ég minnist þess, að ekki eru mjög mörg ár liðin síðan hv. 3. þm. Norðurl. v. lýsti því yfir, að vandi sjávarútvegsins væri bókhaldsatriði. Ekki var það nú stórt og miðaði við að hægt væri að strika út með pennastriki.

Ég vil taka undir þau orð, sem hér hafa komið fram hjá 5. þm. Vesturl., að taka beri tillit til þeirra þjónustugreina í sjávarútvegi sem í landi eru. Er þar sérstaklega átt við netagerðirnar. Þær hafa tekið á sig ákveðinn vanda, ákveðna skuldbindingu með þjónustu, og þegar aflabrestur verður og breytingar í veiðimennsku, þá bitnar það á þessum þjónustustofnunum. Þess vegna er ástæða til að yfirvöld taki á þeirra mátum af fullum skilningi.

Ég gat um skoðanabreytingu hjá hv. 9. þm. Reykv. varðandi gengisfellingar. Það segi ég vegna þess, að frá því að hans ríkisstj. hóf skriðu gengisfellinga árið 1972 hafa 15 gengisfellingar orðið hér á landi, 15 gengisfellingar, formlegar breytingar á gengi íslensku krónunnar. Það er liðlega ein gengisbreyting á ári og er þó hægt að bæta því við, að um var að ræða allt að því óteljandi gengisbreytingar í formi gengissigs, sem hv. þm. var höfundur að. Þó verður það að teljast umræddri ríkisstj. til ágætis að hún hækkaði gengið tvívegis 1973. En það reyndist skammgóður vermir.

Ég tek undir orð hv. 9. þm. Reykv., að gengisfellingar séu úrelt og óalandi aðferð við stjórn efnahagsmála landsins. Í kjötfar gengisfellinga hefur sjávarútveginum sífellt verið hrint fastar út í horn í atvinnulegu og rekstrarlegu sjónarmiði. Má þar líkja við hvernig bændum hefur sífellt verið hrint út í horn í því milliliðakerfi sem landbúnaðurinn býr við í þjóðfélaginu í dag.

Það er rétt hjá hv. 9. þm. Reykv. að ég fagnaði yfirlýsingu hæstv. fjmrh., þeirri yfirlýsingu að komið væri að tímamótum í afgreiðslu og þjónustu við sjávarútveg landsins, þeirri yfirlýsingu að æðstu ráðamenn þjóðarinnar vilji fast og ákveðið vinna að því að tekið verði til hendinni í málefnum sjávarútvegsins og spúlað út.