08.02.1984
Efri deild: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2706 í B-deild Alþingistíðinda. (2332)

150. mál, fæðingarorlof

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég hafði nú ekki ætlað að blanda mér í þessar umr. þó að hér sé vissulega á ferðinni hið mikilvægasta mál sem þm. ber að gefa gaum. Tilefnið var það að hæstv. menntmrh. flutti hér ræðu og fjallaði nokkuð um lögin frá 1975. Við vorum þá á öndverðum meiði um eitt atriði og erum sýnilega enn, þó að við séum oftast sammála. Síðan gat hv. 6. landsk. þm. Karl Steinar Guðnason um þetta sama atriði.

Mér er alveg fullkunnugt um það, og ég held að öllum hér sé kunnugt um það, að meðal þess fólks sem á erfiðast uppdráttar er barnmarga fjölskyldan þar sem konan hefur aldrei getað unnið úti vegna ómegðarinnar. Jafnvel þegar launakjör voru best hér á landi og afkoman best, áður en þessi ósköp dundu yfir nú á síðustu árum og misserum, þá var alltaf til ein og ein fjölskylda í hverju þorpi þar sem var bláfátækt af þeirri ástæðu að konan gat ekki unnið úti. Hún átti kannske að sjá um 2, 3, 4 eða 5 ung börn. (EgJ: En í sveitum?) Og sveitum vafalaust líka, já, ábyggilega í hverri sveit, ég tek þetta dæmi t.d. í fjölmennari sveitum, auðvitað bæði til sjávar og sveita.

Það var mikilvægt framfaraskref sem stigið var með lögunum 1975, en þetta óréttlæti var vaxandi, það óx við þá löggjöf og það er ekki við þetta unandi. Það verður að finna einhverja lausn í þessu efni, hvað svo sem það er kallað, hvort sem það er kallað greiðsla með einhverju öðrum hætti til þessarar konu, en mér finnst alveg mega kalla það fæðingarorlof. Það er að vísu ekkert orlof og minna en hin konan fær sem á annað barn kannske löngu eftir að fyrra barnið fæddist. Ég þekki dæmi um það. Það er mjög vel efnað fólk á okkar mælikvarða, t.d. skipstjórafrú, sem var búin að koma upp sínum börnum, og það eru fleiri en eitt dæmi um það að sjálfsögðu. Maður hennar hafði verið hátekjumaður alla tíð þegar vel fiskaðist og vel gekk. Yngsta barnið var u.þ.b. 14 ára þegar hún fer út á vinnumarkað, bæði vegna þess að hana langar til að vinna og vera á meðal fólks og svo getur fólk auðvitað alltaf notað peninga, því að það er líka dýrt að eiga unglinga á framfæri og þurfa kannske að kosta þá í skóla fjarri heimilinu. Þessi konar vinnur svo úti. En síðan vilja þessi hjón gjarnan eignast eitt barn til viðbótar. Þá fær hún fæðingarorlof. En konan við hliðina á henni, sem á fimm ung börn fær það ekki og maðurinn hennar kannske með mjög lág laun.

Þessi umræða hefur verið athyglisverð. Ég tek undir það sem hv. þm. Árni Johnsen sagði um þetta mál, þó að mál hans hafi kannske verið óþarflega ítarlegt og kannske að sumu leyti hefði hann viljað leggja meiri áherslu á það með löngu máli þar sem það er eðli málsins samkvæmt. Þetta sakar ekkert einstaka sinnum og þó að menn hafi kannske eitthvað brosað, bæði hann og við hin, þá er það alveg meinalaust af minni hálfu. (Gripið fram í: Hann brosti ekkert.)

En það er annað sem mér finnst líka dálítið kynlegt þegar ég hlusta á þessar umr. nú og áður. Það er þetta, þegar kvenfólkið fer að tala um að sum mál séu sérstök kvennamál. Ég get játað það að konur hafi kannske meiri áhuga á einu máli en öðru, en þetta mál er málefni okkar allra. Og það er ekki bara það að þetta sé ósmekklegt af blessuðum konunum, að vilja tileinka sér ákveðið málefni, heldur fer hitt enn þá meira í taugarnar á mér, þegar merkingu orðsins kvennamál er snúið gersamlega við. Í öllum orðabókunum mínum, og að ég held öllum íslenskum orðabókum þýðir þetta orð aðeins eitt. Mér er þó sagt að í nýjustu orðabók Menningarsjóðs sé farið að tala um kvennamál sem einhver sérstök málefni kvenna. Ég held að þetta málefni hljóti karlmenn einir að eiga. Þeir hafa átt það um allar aldir og þess vegna eru það vinsamleg tilmæli til kvenna að tala þá um málefni kvenna. Og ég segi þetta ekki bara í hálfkæringi, vegna þess að það er verið að brengla orðum í tungu okkar svo voðalega. T.d. gerðist það, ég hygg að það hafi verið 1972, að orðsending kom frá utanrrn. um það að þáv. utanrrh. Einar Ágústsson og Gromyko utanrrh. Sovétríkjanna hefðu átt skoðanaskipti. Ég vona, forseti, að mér fyrirgefist að koma með svona innskot, því að það gefst hérna tilefni að koma því á framfæri. Ég man eftir að ég var þá ritstjóri Morgunblaðsins og skrifaði dálítinn stubb í Staksteinum og sagði að menn gætu kannske skilið það að Einar Ágústsson hefði skipt um skoðun, en hvernig hann fór að því að fá Gromyko til að skipta um skoðun, það væri mér alveg óskiljanlegt, það væri í hálfkæringi. Engu að síður hefur þessi ranga túlkun á orðinu skoðanaskipti fest í málinu. Nú eru allir farnir að tala um skoðanaskipti þegar fólk er að skipta um skoðun. Skoðanaskipti þýðir auðvitað ekkert annað en eitt og það er að skiptast á skoðunum. En það eru nú vinsamleg tilmæli til kvennanna að láta af þessu, af því að málefni kvenna er nákvæmlega jafngott orð eins og kvennamál.