09.02.1984
Sameinað þing: 46. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2765 í B-deild Alþingistíðinda. (2382)

68. mál, niðurgreiðsla á raforku

Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Hvaða upphæð hefur verið varið til niðurgreiðslu raforku til almennra neytenda á landinu öllu s.l. fimm ár, miðað við núgildandi verðlag? Hvert er heildarsöluverð raforku til almennra neytenda á sama tíma við sama verðlag?

2. Hver er heildarfjöldi almennra raforkukaupenda á landinu öllu? Hversu margir þeirra njóta niðurgreiðslna og hversu stóran hluta nota þeir af raforku seldri til almenningsnota?

3. Hvað mun raforkuverð til almennra notenda hækka mikið við yfirtöku Landsvirkjunar á skuldum og rekstri byggðalína og Kröflu? Hvenær kemur sú hækkun inn í orkuverðið?

4. Hvert er kostnaðarverð mínútulítra hjá Hitaveitu Akureyrar? Hvert er söluverð? Hver er niðurgreiðsluhluti í kr/mínl? Hvert væri kostnaðarverð mínútulítra ef hitað væri a) með raforku; b) með olíu?

Skriflegt svar óskast.

Upplýsinga varðandi fyrirspurnina hefur verið aflað m.a. hjá Orkustofnun, Landsvirkjun og Hitaveitu Akureyrar.

Svar við 1. lið:

Þegar talað er um „almenna raforkunotendur“ er vanalega átt við alla notendur raforku aðra en stóriðjunotendur og Keflavíkurflugvöll. Gert er ráð fyrir að fyrirspyrjandi eigi við þessa notendur þegar hann talar um „almenna neytendur“.

Niðurgreiðslur á raforku til húshitunar hófust 1. október 1982.

Á síðasta ári (frá 1. okt. til áramóta) námu niðurgreiðslur 2 746 Mkr.

Niðurgreiðslur á þessu ári (til októberloka) nema 49 324 Mkr.

Heildarsöluverð raforku til almennra notenda er jafnt og heildartekjur almennra rafveitna að frádreginni sölu Rafmagnsveitna ríkisins til Keflavíkurflugvallar. Þessi sala hefur verið sem hér segir undanfarin ár. Við umreikning frá einu verðlagi til annars er stuðst við byggingarvísitölu í júlí hvers árs.

Á verðlagi

Á verðlagi

ársins

1982

Ár

Mkr.

Mkr.

1982

1 129

1 129

1981

597

921

1980

384

893

1979

244

901

1978

148

776

Svar við 2. lið:

Fjöldi almennra raforkunotenda er óljóst hugtak. Fjöldi rafmagnsmæla er skilgreindur, en það kostar fyrirspurn til allra rafveitna landsins að fá vitneskju um hann. Sá fjöldi er ekki hinn sami og notenda, því oft eru margir notendur á sama mæli, t.d. í fjölbýlishúsum, og sumir notendur hafa fleiri en einn mæli. Hins vegar lætur mjög nærri að allir landsmenn fái rafmagn frá rafveitum. Einungis rafmagn til húshitunar er niðurgreitt. Árið 1982 var um 13% af húsnæði landsmanna hitað með raforku, og lætur nærri að sama hlutfall íbúa landsins hafi búið við rafhitun. Nálægt 13% landsmanna hafa því notið niðurgreiðslu á rafmagni það ár.

Bein sala raforku til húshitunar 1982 var 292 GWh og að auki keyptu rafkyntar hitaveitur um 50 GWh, þannig að til hitunar húsa fóru beint og óbeint 342 GWh. Heildarsala raforku til almennra nota var á sama ári 1375 GWh. Um 25% raforkunnar til almenningsnota voru þannig niðurgreidd 1982.

Niðurgreiðsla á raforku náði þannig til um 13% landsmanna og 25% almennrar raforkunotkunar á árinu 1982.

Svar við 3. lið:

Yfirtaka byggðalína.

Eins og kunnugt er yfirtók Landsvirkjun 132 kV byggðalínukerfið af Rafmagnsveitum ríkisins, hinn 1. janúar 1983, og var það gert samkvæmt samningi milli ríkisstjórnarinnar og Landsvirkjunar um virkjanamál, yfirtöku byggðalína o. fl. frá 11. ágúst 1982. Í þeim hækkunum, er síðan hafa orðið á gjaldskrá Landsvirkjunar, hefur þegar verið tekið fullt tillit til aukningar á rekstrarkostnaði fyrirtækisins vegna yfirtöku byggðalínukerfisins og hefur meðalverð ársins 1983 hækkað vegna þessa viðbótarkostnaðar um 7,5%.

Krafla.

Upplýsinga hefur verið aflað um skuldir og rekstrarkostnað Kröfluvirkjunar og á grundvelli þeirra gerðar áætlanir fram í tímann um rekstrar- og viðhaldskostnað virkjunarinnar miðað við núverandi orkuvinnslugetu hennar. Eru niðurstöður þessara áætlana þær, að til þess að Landsvirkjun geti staðið undir aukinni greiðslubyrði vegna yfirtöku Kröfluvirkjunar, þyrfti samansöfnuð hækkun gjaldskrár Landsvirkjunar til og með 1. janúar 1986 að nema 27% og þá miðað við yfirtöku 1. janúar 1984 og fast verðlag á grundvelli byggingarvísitölu 159 og USD 1 = kr. 30,00. Jafnframt er þá ekki gert ráð fyrir að til breytinga komi á skilmálum núverandi lána vegna Kröflu.

Rétt er að vekja athygli á, að í fyrirspurn þessari er blandað saman byggðalínum og Kröfluvirkjun. Byggðalínur hafa þegar verið yfirteknar af Landsvirkjun eins og að ofan greinir, en engin ákvörðun hefur verið tekin um yfirtöku Kröfluvirkjunar. Ef til þess kemur, að Kröfluvirkjun verði yfirtekin, er, eins og fram kemur hér að framan, óraunhæft að gera ráð fyrir að Landsvirkjun yfirtaki virkjunina með þeim fjármagnskostnaði, sem á henni hvílir.

Svar við 4. lið:

1. Samkv. bráðabirgðatölum úr rekstrarreikningi Hitaveitu Akureyrar fyrir árið 1983 eru niðurstöðutölur gjalda 171 Mkr. Seldir mínlítr. á mánuði voru 117 800, þannig að meðalkostnaðarverð er 1454 kr/ mínlítr./mán.

2. Meðalsöluverð var um 826 kr/mínltr./mán., árið 1983. Núgildandi gjaldskrárverð (frá 1.8.83) er 1000 kr/mínltr./mán., sem jafngildir u.þ.b. 106 aurum/ kWh.

3. Hitaveita Akureyrar nýtur engrar niðurgreiðslu.

4. Orkuverð Rafveitu Akureyrar til húshitunar með 3 stunda rofi er í dag 94 aurar/kWh.

Ef gasolía yrði notuð til upphitunar í heimahúsum yrði orkuverðið 145 aurar/kWh.

Sameinað þing, 47. fundur. Mánudaginn 13. febr., kl. 2 miðdegis. Varamenn taka þingsæti — rannsókn kjörbréfa.