14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2806 í B-deild Alþingistíðinda. (2424)

417. mál, skýrsla Stefáns Jónssonar til utanrríkisráðherra

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að fram komi í sambandi við þessar umr. að ég óskaði eftir því á fundi utanrmn. hinn 30. jan. s.l. að utanrrh. hlutaðist til um að trúnaði yrði aflétt af þessari skýrslu og hún birt í heild þannig að hún lægi fyrir öllum sem opinbert gagn, þar sem eitt af dagblöðum landsins hefur komist yfir þetta trúnaðarplagg utanrrn. og birt úr því oftar en einu sinni glefsur, teknar að sjálfsögðu úr samhengi í þessari skýrslu.

Ég þekki ekki innihald þessa plaggs og veit að sjálfsögðu ekkert um það með hvaða hætti það hefur borist til fjölmiðla og vil ekki leggja neitt mat á innihald skýrslunnar sem slíkrar. En ég tel það eðlilega málsmeðferð að utanrrn. kanni a.m.k. hvort ekki sé ástæða til þess og hvort aðstandendur máls séu ekki reiðubúnir til þess að aflétta trúnaði á þessu gagni sem ritað er í árslok 1971 og það verði birt almenningi til aflestrar.

Fram kom hér áðan í máli hæstv. utanrrh. að hann teldi öruggt að þetta skjai væri ekki frá utanrrn. komið og það hefði verið fjölfaldað. Ég vil inna hæstv. utanrrh. eftir því með hvaða rökum hann styður það að þessi skýrsla sé ekki frá hans rn. komin og hvort könnun hafi farið fram á vegum rn. þar að lútandi til að undirbyggja þá fullyrðingu hæstv. ráðh.