14.02.1984
Sameinað þing: 48. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2808 í B-deild Alþingistíðinda. (2430)

417. mál, skýrsla Stefáns Jónssonar til utanrríkisráðherra

Einar Kr. Guðfinnsson:

Herra forseti. Ég er sammála þeim hv. þm. sem hér hafa talað um það, að þetta mál er ákaflega alvarlegt. Það er ákaflega alvarlegt þegar það gerist að skjal, sem merkt er trúnaðarmál og geymt er í einu rn. landsins, hverfur með þessum hætti og birtist síðan í einum af fjölmiðlum landsins.

Hins vegar get ég ekki á nokkurn hátt tekið undir þau sjónarmið sem hér hafa verið reifuð m.a. af hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni og Steingrími Sigfússyni, þess efnis að ástæða sé til að leggja hömlur á frelsi fjölmiðla til að birta skýrslur af þessu tagi, eða birta yfir höfuð hvert það efni sem fjölmiðillinn kýs að birta. Kjarni málsins er sá, að við höfum litið svo á í þessu þjóðfélagi að fjölmiðlar hefðu ákveðið pólitískt hlutverk, gegndu ákveðnu hlutverki í þessu þjóðfélagi til að halda uppi viti borinni umræðu um þjóðfélagsmál, hefðu ákveðnu, sjálfstæðu hlutverki að gegna. Ég heyri ekki betur en að þessir hv. þm. vilji afnema þetta sjálfstæða hlutverk fjölmiðlanna og leggja í hendur rn. alræðisvald um það hvort birta megi þau skjöl sem fjölmiðillinn kýs.

Ég vil vekja athygli á því að mál eins og þetta, sem vissulega er alvarlegs eðlis, hafa komið upp víða í kringum okkur. Svipað mál kom upp á síðasta ári eða árinu þar á undan í Bretlandi og tengdist uppsetningu bandarísku varnarflauganna í Bretlandi. Vinstrimenn ýmsir í Verkamannaflokknum spurðu að því hvort fjölmiðlar þar í landi hefðu rétt til að birta þessi plögg. Þeir fögnuðu birtingu þessara plagga. sama gerðist fyrir síðustu kosningar í Bretlandi þegar fjölmiðlar birtu þar trúnaðarskjöl sem undirnefndir ríkisstjórnarinnar höfðu samið. Þar var nákvæmlega sama uppi á teningnum. Þar datt þm. ekki í hug að afnema rétt fjölmiðla til að birta þessi skjöl. Þess vegna verð ég að segja eins og er að það kemur eins og köld vatnsgusa að heyra hér á hv. Alþingi raddir þess efnis að taka beri þennan rétt af íslenskum fjölmiðlum, enda þótt vitað sé að engum detti þetta í hug í þjóðþingum í kringum okkur.