14.02.1984
Sameinað þing: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2832 í B-deild Alþingistíðinda. (2462)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hef óskað eftir að fá að taka til máls hér utan dagskrár til að beina nokkrum spurningum til hæstv. fjmrh., m.a. vegna þeirra blaðaskrifa sem orðið hafa undanfarna daga um sölu á hlutabréfum ríkisins í Eimskipafélagi Íslands.

Fyrst er þar til að taka að núv. ríkisstj. hefur ákveðið að selja ýmsar af eigum ríkisins, fyrirtæki, hlutabréf og sitthvað fleira. Við þessu er auðvitað ekkert að segja ef þetta er gert með réttum og lögformlegum hætti og allir þegnar ríkisins hafa jafna aðstöðu til að gerast kaupendur þessara ríkiseigna eftir efnum og ástæðum.

En við þessu er hins vegar eitt og annað að segja eins og að þessu hefur verið staðið. Ákveðnum hópi einstaklinga er t.d. gefinn kostur á að kaupa eitt ríkisfyrirtæki, Siglósíld. Það geri ég ekki að umræðuefni sérstaklega hér. Þess gefst væntanlega kostur í Ed. á morgun, þar sem það mál verður á dagskrá. En eins og ég sagði er tilefni þess að ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár fyrirhuguð sala á hlutabréfum ríkissjóðs í Eimskipafélagi Ístands.

Hér er um að ræða ráðstöfun á almannafé og eftir blaðaskrifum undanfarna daga hefur verið staðið afar einkennilega að þessu máli öllu. Satt best að segja sýnist mér að þarna hafi verið brotin öll meginlögmál þess sem kalla mætti viðskiptasiðferði eða góða viðskiptahætti. Það er ríkið sem þetta gerir með sjálfan fjmrh. í broddi fylkingar. Hvað er hér eiginlega á seyði? Fyrst vildi ég spyrja hæstv. fjmrh. að því: Hvernig víkur því við að hann greinir fjölmiðlum frá því 1. febrúar s.l. að borist hafi tvö tilboð í hlutabréf ríkissjóðs í Eimskipafélagi Íslands fyrir lok hins tilskilda frests, þ.e. 1. febrúar? Hinn 3. febr. eru tilboðin orðin þrjú eða fjögur og þar af, eftir því sem blöð greina frá, eitt tilboð sem hæstv. fjmrh. hefur sérstaklega kallað eftir.

Í öðru lagi. Í viðtali við Dagblaðið og Vísi hinn 3. febr. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Þessi tilboð eru öll í athugun,“ sagði Albert Guðmundsson fjmrh. í morgun, „m.a. hver raunverulega býður gegnum fasteignasölurnar. Bréfin verða ekki seld nafnlausum kaupanda.“

Nú spyr ég: Hvaðan kemur hæstv. fjmrh. heimild til slíkra ummæla? Í auglýsingu rn. frá 7. des. s.l., þar sem þessi hlutabréf eru boðin til sölu, er engin slík skilyrði að finna. Og hvernig er hæstv. fjmrh. þess umkominn að banna einum aðila að kaupa einhvern hlut, sem boðinn er til sölu, í umboði annars? Ég hélt að það væri viðskiptafrelsi á Íslandi og ég hélt raunar að hæstv. fjmrh. væri sérstakur talsmaður viðskiptafrelsis.

Í þriðja lagi spyr ég vegna þess að fram kemur í grein í Morgunblaðinu s.l. föstudag að fjmrh., skv. upplýsingum lögmanns fjmrn., opni tilboðin jafnóðum og þau berast í rn. Sé þetta rétt er þetta auðvitað brot á öllum venjulegum reglum. Venjan er sú, að þegar leitað er tilboða eru tilboð opnuð í einu, samtímis, að viðstöddum þeim sem sent hafa tilboðin. Það eru m.a. um það ákvæði í reglugerð frá árinu 1959, um Innkaupastofnun ríkisins, að bjóðendur skulu hafa rétt til að vera viðstaddir þegar tilboð eru opnuð. Um þetta eru ákvæði í 5. gr. reglugerðar frá árinu 1959, um starfshætti Innkaupastofnunar ríkisins. Þessi venja mun líka vera viðhöfð þegar selt er húsnæði í eigu ríkisins eða bílar. Þá eru tilboðin opnuð öll í einu. Þau eru ekki opnuð eitt og eitt eftir því sem þau berast.

Það verður að segjast alveg eins og er, herra forseti, að þegar verið er að selja eignir ríkisins er það auðvitað höfuðatriði, og kannske meira atriði en að fá sem allra hæst verð, að almenningur geti treyst því að rétt og heiðarlega sé að málum staðið og að hvergi séu brögð í tafli. Nú er ég ekki að væna hæstv. fjmrh. um óheiðarleika, fjarri því, en hér hefur afskaplega óheppilega verið að málum staðið, óheppilega og einkennilega.

Það sér auðvitað hver maður í hendi sér hvaða afleiðingar það hefur þegar tilboð eru opnuð jafnóðum og þau berast: efni þeirra berst út og þá hafa bjóðendur auðvitað alls ekki jafna aðstöðu. Ég endurtek það og ítreka að þegar ríkið stendur að svona viðskiptum verður allur almenningur að geta treyst því að heiðarlega sé að málum staðið, rétt og eðlilega.

Ég hef borið hér fram þrjár spurningar til hæstv. fjmrh. Ég vona að hann geti svarað þeim. Ég hygg að það sé mál þeirra sem til þekkja að hér hafi afar einkennilega verið að málum staðið. Ég er ekki að segja óheiðarlega, en kannske fyrst og fremst óheppilega og klaufalega.