14.02.1984
Sameinað þing: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2844 í B-deild Alþingistíðinda. (2468)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég er furðu lostinn yfir því að jafnágætur maður og hæstv. fyrrv. fjmrh., sem ég er margbúinn að segja að ég líti á sem góðan fjmrh. þrátt fyrir erfiðleika sem steðjuðu að og urðu til þess að ríkissjóðsdæmið varð kolvitlaust og öfugt þegar hann fór frá því, hafi ekki meiri vitneskju um þau mál sem heyra þó beint undir fjmrh. En ég skil þó að hann skuli ekki vita að túlkun embættismanna í fjmrn. er sú, að fjmrh. hafi fulla heimild til að selja hlutabréf án þess að fá samþykki Alþingis eða ríkisstj. En fjmrh. hefur ekki heimild til að selja fasteignir án heimildar á fjárlögum. Þetta er sú túlkun sem ég hef fengið hjá fjmrn. En á móti hef ég marglýst því yfir að þrátt fyrir þessa túlkun muni ég ekki ganga frá sölu á neinu án samstarfs og samvinnu við fyrst og fremst ríkisstj. og báða þá þingflokka sem að henni standa. Og ég hef gengið svo langt að segja að hver og einn þm. í þeim flokkum hafi neitunarvald gagnvart mér. Og við það stend ég.

Ráðh. skortir heimild til sölu, tóm della frá upphafi til enda, menn hafa látið hafa sig að fíflum. — Þetta er orðrétt það sem kom frá fyrrv. hæstv. fjmrh., 3. þm. Norðurl. v. Ég vona, þó nú fari að nálgast það, að ég þurfi ekki að tína til það sem ég er með í fórum mínum af afgreiðslum í heimildarleysi til fyrirtækja og stofnana, sérstaklega frá síðustu dögum fyrrv. hæstv. fjmrh. í starfi, til þess að undirstrika að hann er ekki þess umkominn að tala um að menn geri þetta og hitt í heimildarleysi. Hitt er svo annað mál, og það skil ég afskaplega vel, að lífsskoðanir mínar og hans stangast á og þar af leiðandi sér hann ekki neina skynsemi í né nauðsyn til að selja hlutabréf eða aðrar eignir ríkisins, þar sem mín lífsskoðun er sú að afsólíalísera þjóðfélagið, eins og ég sagði þegar ég kom í ráðherrastól, en hans lífsskoðun er að sósíalísera og sentralísera. Að það sé bara til að friða og róa þá sem ekki vilja að ríkið eigi hlut í fyrirtækjum, að nú skal selja hlutabréf og fyrirtæki, það getur vel verið að sé alveg rétt, því að hvergi í nokkrum stjórnmálaflokki eru framsæknari og framsýnni ungir menn en einmitt í Sjálfstfl. Og þeir vilja starfa sem slíkir en ekki undir oki eða fyrirskipunum miðstjórnar ríkisins, hvorki í sinni daglegu vinnu né heldur inni á heimilum sínum, eins og stóri bróðir virðist jafnvel gera þar sem hugsjónirnar fæðast fyrir Alþb.-menn, sérstaklega kommúnistadeildina. Ég hef nú ekki hingað til talið fyrrv. hæstv. fjmrh. í þeirri deild, því eins og menn muna, þeir sem vilja rifja það upp, þá er Alþb. bandalag flokka þó kommúnistar séu þar áhrifamestir.

Mér þykir leitt ef hv. fyrirspyrjandi, 5. landsk. þm., telur að ég hafi ekki svarað spurningunni nægilega. Ég skal endurtaka það. Fjórða tilboðið, ég gat um það, það kom nokkru seinna en þau þrjú tilboð sem ég gat um að hefðu borist fyrir 1. febrúar. Það er eitt sem ég hef ekki getið um, að tilboð það sem var talið koma of seint frá Sjóvátryggingafélaginu var komið fram fyrst í formi bréfs, sem var skrifað 27., en það bréf staðfesti ósk kaupendanna, væntanlegra kaupenda Sjóvátryggingafélagsins um viðræður. Og svar mitt við því bréfi var að þeir gæfu tilboð. Það hafði því heyrst frá þessum aðilum löngu fyrir 1. febr. Um það spurði blaðamaður ekki. Og ég tel alveg fráleitt ef þm. hafa ekki þann skilning á og virðingu fyrir því starfi sem blaðamenn vinna, að þeir gefi þeim eins miklar upplýsingar og séu eins opnir í viðtölum og mögulegt er.

Ég er alinn upp í þeirri grein sem er ein stærsta og fjölsóttasta listgrein eins og það heitir annars staðar. Það eru íþróttir, það er atvinnuknattspyrnan sem iðkuð er í veröldinni. Þar sem hún er iðkuð eru stærstu leikhús veraldarinnar, og ekki skrifað um annað meira í nokkur blöð neins staðar en einmitt það sem þar fer fram. Blaðamenn, sérmenntaðir og sérhæfðir blaðamenn í þeirri grein verða, það er þeirra lifibrauð, að ná góðu sambandi við þá sem stunda þá atvinnugrein. Það er frumskilyrði þeirra stóru félaga sem ég hef unnið fyrir að leikmenn séu aðgengilegir fyrir blaðamenn, vegna þess að saman og í samstarfi getur bæði blaðamaðurinn og félagið lifað, en án hvors annars er það ekki nokkur leið. Það er kominn tími til að senn hvað líður deyi út sá útkjálkahugsunarháttur að það beri að forðast blaðamenn, en við taki aftur á móti gott samstarf við blaðamenn. Hver og einn verður auðvitað að vega það og meta hvað hann vill segja. Ég hef svo langa lífsreynslu, ég hef talað við blaðamenn um víða veröld, að það segir mér enginn hvað ég ræði þegar ég tala við þá. Ég er opinn við þá, hreinskilinn, ég hef þeirra trúnað og þeir hafa minn trúnað, og þeir hafa aldrei brugðist mér, aldrei, og ég held áfram að vera það.

Þau fjárlög sem nú voru gerð síðast voru gerð meira fyrir opnum tjöldum en nokkurn tíma áður, enda veit þjóðin nákvæmlega frá upphafi til enda hvernig ástandið er með þjóðinni og ekkert þar falið. Ég verð ekki á neinum flótta undan blaðamönnum hér eftir frekar en hingað til, ég lít á þá sem nauðsynlega samstarfsmenn okkar alþm. Við erum ekki neinir prívataðilar sem eigum bara leyndarmál út af fyrir okkur. Allt sem við gerum, allt sem við vinnum að er þjóðarinnar. Blaðamenn hafa fullan rétt til að hafa aðgang að því.

Ég vil nú ekki svara hv. 5. landsk. þm. mikið, ég held ég hafi gert það. Ég trúi ekki öðru en ég hefi svarað þeim spurningum sem hann beindi til mín, ég trúi ekki öðru. Annars verður bara að hafa það, ég treysti mér ekki til að svara því betur, sérstaklega þá ekki með jafn litlum fyrirvara og gefst í þessu máli. Sem sagt, endanlega voru tilboðin fjögur, ég vona að það fari ekki á milli mála, og tvö eða þrjú komu fyrir 1. febrúar. En ég skal viðurkenna að eftir að ég óskaði eftir tölum frá Sjóvátryggingafélaginu kom umrætt bréf og það opnaði ég eftir 1. febrúar. Ef virðulegur þm. vill koma með mér upp í rn. núna þá getur hann fengið að sjá að þar liggja mörg bréf óopnuð, hafa legið þar tvo daga eða jafnvel lengur á skrifborðinu vegna þess að ég hef hreinlega ekki haft tíma til að opna þau — kannske af ótta við að flest þeirra séu hundabréf héðan og þaðan úr heiminum sem er aðeins tímaeyðsla að opna. En nóg um það.

En ég hef ekki ætlað mér, eins og fyrirspyrjandi gat um, að ganga frá sölu á næstu dögum. Það var víst vitnað í blaðagrein og þar hef ég líklega ekki verið nógu nákvæmur, því að ég trúi því að blaðamaðurinn hafi haft rétt eftir mér að tilboðin hafi verið aðgengileg. Þau hafa aldrei verið það í mínum huga, en það getur vel verið að ég hafi klúðrað svari mínu til blaðamannsins. Ég hef aldrei staðið þann blaðamann að því að hafa rangt eftir mér, aldrei, þannig að ég verð að standa við þessi orð eins og þau eru þar.

Bandaríkjamarkaðurinn er náttúrlega ekki til samanburðar hér, þar sem bréf ganga óskráð frá einum til annars. Það er allt annað mál og við getum ekki borið okkar markað saman við það. (Gripið fram í: Óskráð?) Óskráð, ekki á nafni, þau eru ekki skráð. Þú kaupir bréf, þú ert handhafi bréfanna, en það fyrirtæki sem þú átt hlut í ef þú kaupir bréf veit ekkert að þú átt í því og fær kannske aldrei að vita það. Og þegar þér eða hverjum öðrum eiganda fyrir sig dettur í hug að selja þau bréf, þá selur hann þau án þess að skrá neinn sérstakan nýjan eiganda. En hér hjá okkur er tilkynningarskylda við eigendaskipti þannig að ég eða hver sem selur bréf verður að fá að vita hverjum hann er að selja, vegna þess að á honum, seljandanum, hvílir tilkynningarskylda til fyrirtækisins um hver sé hinn raunverulegi eigandi bréfanna. En ef staðið er klaufalega að í embætti ráðh. og almenningur getur ekki treyst því að heiðarlega sé staðið, þá ber ákveðnum aðila, sem kemur með mál inn á Alþingi á þeim forsendum, að bera fram vantraustið. Það fer ekkert á milli mála. Það væri til of mikils mælst að ég tæki það ómak af viðkomandi og bæri fram vantraustið á sjálfan mig. Mér finnst það vera til of mikils ætlast, en vona að hv. 5. landsk. þm. bakki nú ekki eða guggni á verkefnum, sem hann hefur hafið, og sýni fram á þetta vald, annars verð ég sem einstaklingur að dæma í mínum huga öll hans stóru orð dauð og ómerk.

Hv. 5. þm. Reykv. skilur hvað hér er til umr. Hann skilur gang málanna. Ég er honum alveg sammála, að engin aðferð er hafin yfir gagnrýni, það er alveg rétt, hvorki sú aðferð sem ég nota né aðrar, enda þótt hún sé best að áliti eins eða annars. Þessi aðferð er góð að mínu áliti og þess vegna fer ég þessa leið, en hún er ekki hafin yfir gagnrýni, mikil ósköp.

En svo má ég til með að leiðrétta það, að það er ekki sitt hvað fasteignasala og fjmrn. Ef menn líta á 6. gr. sést þar að fasteignasala er eiginlega aðalverkefni fjmrn. Það er að setja fasteignir og hitt og þetta. Það er líklega ein stærsta fasteignasala landsins eða svo met ég það a.m.k. Hv. þm. segir: Hvað gerist næst? Auðvitað er það skylda okkar, þó ekki væri nema vegna þess að við erum með 5–6% af hlutafé Eimskipafélagsins og það er verulega áhrifamikið á aðalfundi félagsins og þetta er milljóna ef ekki milljarða fyrirtæki, okkur ber skylda til þess okkar vegna að vita hvers virði, raunvirði, þessi eign okkar í fyrirtækinu er. Og á sama tíma ber okkur skylda til að gæta hagsmuna þeirra einstaklinga sem eru hluthafar í Eimskipafélagi Íslands vegna þess hvernig Eimskipafélagið er tilkomið. Það á að vera enn þann dag í dag og er óskabarn þjóðarinnar. Þetta fyrirtæki var stofnað sem ákveðinn þáttur af sjálfstæðisbaráttu okkar og er það enn í dag. Og þess vegna ber okkur skylda til að fá rétt mat á bréfunum svo að það fátæka fólk sem önglaði saman til þess að geta verið þátttakendur í þessari frelsisbaráttu þjóðarinnar á sínum tíma og afkomendur þeirra viti nákvæmlega hvað þau hafa á milli handanna þegar þau eiga bréf Eimskipafélagsins, en séu ekki að losa sig við þau á þeim forsendum að þau séu einskis virði og varta þess virði að geyma þau, gott að losna við þau til þess eins að tapa þeim ekki.

Ein aðferðin og sú sem ég minntist á er náttúrlega sú kapítalíska aðferð að stofna hér til kaupþings. Það eru ungir og framsýnir sjálfstæðismenn sem eru náttúrlega þar í broddi fylkingar. Ég finn það, eins og ég hef oft sagt áður, að menn í öðrum flokkum eru svona í endurhæfingu þar frekar en hitt og eru á leiðinni inn í Sjálfstfl., svo að ég veit að ég hef stuðning úr Alþfl. frá góðum mönnum í sambandi við það að stofna hér kaupþing og gera alvöru úr því að fólk geti öðlast rétt mat á sínum verðmætum. (Gripið fram í: Framfylgja gömlum lögum.) Framfylgja gömlum lögum, það er þá kominn tími til að framfylgja einhverjum þeirra a.m.k. Nóg er af þeim sem ekki er framfylgt. Það er alveg rétt, næsta skrefið hjá mér er nákvæmlega sú leið sem virðulegur 5. þm. Reykv. gat um, að fá rétt mat á bréfin, hvort sem við verðum að gera það með því að láta fagmenn meta félagið, meta stöðuna og meta þá raunveruleg verðmæti bréfanna, ef það er fljótvirkara en að bíða eftir að hér komi á laggirnar kaupþing.

Ég held að ég hafi þessi orð ekki fleiri, en ég er fullkomlega reiðubúinn til þess, og fer nú senn hvað líður að gera það ef fleiri aths. koma, að taka saman hverju hefur verið ráðstafað án heimildar af peningum í fjmrn. áður en ég kom þangað, ef talið er óleyfilegt að fjmrh. hefur boðið út þau hlutabréf sem fyrir hendi eru. Mun ég þá á næsta fundi, ef með þarf, koma með þá skrá. (JBH: Heyrir það ekki undir upplýsingaskyldu stjórnvalda?) Að? (JBH: Að upplýsa það sem hæstv. ráðh. er að boða að nauðsynlegt sé að upplýsa hvað úr hverju.) Ef farið er fram á það, þá skal ég gera það. En það heyrir kannske ekki beint undir upplýsingaskyldu stjórnvalda, ég veit það ekki, og þá svara ég án þess að vita það nákvæmlega. Það getur vel verið að það sé rétt hjá hv. þm.