23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3131 í B-deild Alþingistíðinda. (2716)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Lengi hefur verið ljóst að ekki fara saman í þessu landi lægstu launin og verstu kjörin. Það eru mörg misseri síðan farið var að hafa orð á því að takast þyrfti á við þann vanda. Mismunur á lífskjaragrunni fjölskyldna í þessu landi vegna barnafjölda, vegna fyrirvinna, vegna húsnæðis­mála er viðfangsefni almannatryggingakerfis. Öllum er ljóst að okkar kerfi hefur lengi þarfnast almennilegrar hækkunar bóta og endurskipulagningar til að takast á við nýjar aðstæður. Eins og er tekur það ekki mið af þeim. Ríkið er nýlega hætt að styrkja húsnæðiskaup í formi niðurgreiddra lána. Það hefur heldur ekki tekið mið af þeim breyttu aðstæðum að nú er mikill fjöldi fjölskyldna í landinu í umsjá einstæðra foreldra. Þetta eru einungis dæmi um aðstæður sem ganga þvert á launastiga og verða ekki lagfærðar nema að takmörk­uðu leyti í samningum. Þess vegna er augljóst að það er hlutverk Alþingis, hvort sem tillögur hafa komið frá ASÍ og VSÍ eða ekki, að jafna lífskjaragrundvöll þjóðarinnar þannig að vettvangur gefist fyrir frjálsa launasamninga. Ég tel að miklu lengra þyrfti að ganga í þá átt og það hefur raunar komið fram í þessum umr. Ganga þarf miklu lengra og allt öðruvísi í þá átt en tillögur ASÍ og VSÍ gera ráð fyrir.

Mikilvægt er að takast á við húsnæðismálin. Því verður ekki öllu lengur frestað að líta á húsnæðismálin út frá þeim sjónarhóli að í raun hafi verið ríkisstyrkir á undanförnum árum en þeim nýlega hætt og þar með hafi raskast lífskjaragrundvöllur þjóðarinnar á þann hátt að næstum má segja að launasamningar um 1–3% verði fáránlegir þegar menn eru að tala um húsnæðis­kostnað eða mun á húsnæðiskostnaði sem getur numið þúsundum króna. Þetta er verkefni sem menn verða að takast á við.

Það hefur verið ljóst á undanförnum misserum að sækja þyrfti á báðum vígstöðvum, það þyrfti að sækja á um umbætur í almannatryggingakerfi og í launasamn­ingum. Það vita forustumenn ASÍ og VSÍ eins og aðrir. Þeir gera sína samninga um launaliði og svo hafa þeir lagt fram hugmyndir um úrbætur í almannatryggingum. Það er gott ef það verður til þess að þessi mál komist á hreyfingu, almannatryggingamálin komist í umr. inn á Alþingi, en þar með er upp talið það sem verulega er gott um þetta samningamál.

Eins og þetta heildardæmi og hugmyndir um félags­legar úrbætur lítur út þá er ljóst t.d. að hugmyndin er að nota úrbætur í tryggingakerfi til að finna ódýrustu leiðina fyrir fyrirtækin í landinu til að komast hreinlega hjá því að starfsmenn falli úr hungri. Tryggingakerfið, sem var og á að vera til að tryggja velsæld fólks, er nú notað til að tryggja auðsöfnun fyrirtækja, eins og hæstv. fjmrh. sagði áðan, og til að halda fólki við hungurmörk. Þannig hefur það orðið hlutskipti tryggingakerfisins eða úrbóta á þeim vettvangi að verða nokkurs konar skiptimynt í samningum sem vilja kalla sig frjálsa.

Ekki hafa að vísu fengist um það almennileg svör hvaðan peningar verði teknir í þær úrbætur sem hug­myndir hafa verið á sveimi um en svo virðist sem að færa eigi peninga úr vösum fólks sem hefur lítið, barnafólks og fjölskyldufólks, í vasa fólks sem hreinlega er á sultarkjörum. Það eru lítilsigldar aðgerðir og leysa ekki vandann. Þetta eru tilfærslur milli launafólks innbyrðis en ekki þær tilfærslur milli launafólks og atvinnufyrirtækja sem hlutu að koma og verða að koma í kjölfar þeirrar lífskjaraskerðingar sem orðið hefur. Nú er það Alþingis að reyna að nota hugmyndaflug sitt til að útfæra skilvirkar aðferðir í almannatryggingakerfinu og þar mega húsnæðismálin ekki vera útundan. Látum þetta nægja um almannatryggingakerfið. Snúum okkur aftur að launasamningum.

Þessi stjórn hefur sagst fylgja frjálsum samningum. Henni hefur raunar gengið illa á köflum að halda puttanum frá þeim, sbr. afskipti hæstv. fjmrh. og iðnrh. og síðustu ummæli á þeim vettvangi. Þeir hafa átt þar við heldur ramman reip að draga en nú hafa rammarnir margumtöluðu og rammasmiðirnir haft þau áhrif að samningar, sem í orði kveðnu eiga að vera frjálsir samningar milli aðila vinnumarkaðarins um skiptingu þjóðarauðsins, um skiptingu þess sem er til skiptanna, eru orðnir lífvana reikningskúnstir um prósentur frá Þjóðhagsstofnun. Þannig hafa þessi mál snúist. Og hverjar eru þá forsendur þessara samningskúnsta um launaliðina? Þær eru meðaltöl.

Um mörg ár hefur efnahagsmálum á Íslandi verið stýrt, að því leyti sem þeim hefur verið stýrt, út frá meðaltalskompás. Stjórnmálamenn hafa tekið meðaltöl yfir alla mögulega hluti, yfir afkomu þjóðarbús, afkomu atvinnugreina, afkomu einstaklinga og búið til nokkurs konar meðaltalshundalíf fyrir fólk, fyrirtæki og ferfætl­inga í þessu landi. Nýjustu dæmin eru frá síðustu viku þegar meðaltalsáætlunartölur frá reiknistofnunum ríkisstj. hafa orðið ráðherrunum smíðaefni í ramma. Þessir rammar hafa síðan verið notaðir, eins og ég sagði áðan, til að breyta frjálsum samningum aðila vinnu­markaðarins um skiptingu þjóðarauðs í reikningskúnst­ir um skiptingu á einhvers konar þjóðarframleiðslu­meðaltalsaukningu.

Meðaltölin yfir rekstrarafkomu fengu á vissan hátt nýja merkingu um daginn þegar Þjóðhagsstofnun greindi frá meðaltalsskuldastöðu útgerðarinnar. Þar voru greindar í sundur skuldir á einstök skip. Þá kom í ljós að þar var ekki nema innan við einn tugur skipa, ef ég man rétt, sem bar tiltölulega langstærstan hluta skulda og vanskila og mismunur á skuldastöðu ein­stakra skipa var gífurlegur. Þá spyrja menn: Hvaða raunverulegar upplýsingar halda menn þá að meðaltal af skuldastöðu þessara skipa gefi til þess að reyna að reikna út hvaða afkomu fólk getur haft af því að vinna hjá þessum skipum?

Við getum tekið dæmi af svolítið öðrum vettvangi. Hugsum okkur að maður hafi 5 manns á framfæri og meðalaldur þeirra sé 40 ár. Svo fer hann fyrir jólin í Hagkaup og kaupir buxur á þessa 5 heimilismenn sína. Þá er spurningin hvort hann kaupir 5 buxur á 40 ára meðaltalsaldur. Nei, hann hlýtur að verða að taka með í reikninginn raunverulegan aldur heimilisfólksins. Setj­um svo að það hafi verið 92 ára gamall tengdafaðir, 88 ára gömul tengdamóðir og börnin þrjú, 10, 7 og 3 ára. Þá er meðalaldur þeirra svo sannarlega 40 ára. En ólíklegt er að komið hefðu að gagni buxur sem voru keyptar á þau fyrir meðalaldurinn 40 ára.

Ein aðalástæðan fyrir rekstrarerfiðleikum íslenskra atvinnuvega, ekki síst í sjávarútvegi og landbúnaði, er sú einmitt að stjórnvöld eru sífellt að búa til meðal­talsrekstrarforsendur fyrir fyrirtæki sem eru jafn ólík að afkomu og aðstæðum og tengdaforeldrarnir og börnin í dæminu áðan. Það er nefnilega svo að þar sem menn vilja láta taka sig alvarlega fylgir meðaltölum mat á óvissu þannig að menn geti gert sér grein fyrir hvort meðaltalið hafi eitthvert raunverulegt upplýsingagildi, þ.e. fyrir hversu ólíkan hóp af einstaklingum það stendur. Augljóst er að meðaltal gefur einungis upplýs­ingar ef hópurinn sem það stendur fyrir er sæmilega einsleitur. Þá erum við komin að spurningunni: Hversu einsleitur hópur er hópur þeirra íslensku fyrirtækja sem eiga að greiða launafólkinu laun í dag?

Sjávarútvegur stendur að meðaltali nokkuð illa. Líklegt er að þar eigi flest fyrirtæki við erfiðleika að stríða. En hvernig stendur verslun, iðnaður og þjón­usta? Þar er ástandið alls ekki eins slæmt og í sjávarút­vegi. Á nýjustu forsíðu VR-blaðsins stendur stórum stöfum: Verslunin getur greitt hærri laun. Þar stendur í leiðara, með leyfi forseta:

„Það liggur þó í augum uppi að miðað við umsvif í versluninni hér í Reykjavík, bæði hvað lengd, vinnutíma og fjárfestingu snertir þá hefur verslunin bolmagn til að greiða verulega hærri laun en samningar kveða á um fyrir dagvinnu. Engu að síður er viðkvæðið ætíð það sama, að verslunin hafi ekki getu til að hækka dag­vinnulaunin. Þetta segja þeir sömu og láta sér ekki muna um að auka launakostnað fyrirtækisins um 60% með aukinni yfirvinnu án þess þó að auka tekjur fyrirtækisins á móti. Það er ekki furða þótt launþegar eigi erfitt með að skilja samhengið í slíku.“

Á þetta er bent út af þeim vangaveltum um hvernig fyrirtæki standi. Ekki er nefnilega til neitt eitt meðaltal yfir land og yfir fyrirtæki og fólk, það er ekki til neitt eitt meðaltal sem getur gefið viðmiðun um hvað einstök fyrirtæki geti greitt sínu fólki. Þær upplýsingar eru í fyrirtækjunum sjálfum og þar á fólk að semja. Fólk á að semja í sjálfum fyrirtækjunum þar sem framleiðslan fer fram, þar sem upplýsingar liggja fyrir um afkomu þeirra, en ekki meðaltalshundalíf fyrirtækja á landsmælikvarða.

Við getum tekið dæmi um ÍSAL, það dæmi er oft tekið. Þar hafa ýmsir sagt að það liggi í raun og veru á borðinu 10–20% kauphækkun ef samningsaðilar fengju að semja, ef ÍSAL fengi að semja fyrir VSÍ og ef þeir launamenn í ÍSAL fengju að taka við þeim peningum fyrir ASÍ. Ég tel að hin stóru samflot í samningum skaði í raun og veru hagsmuni launþeganna og komi í veg fyrir samninga og komi í veg fyrir að launþegar geti notið þeirra kjara sem þeim bjóðast.

Fyrir liggur frá okkur Bandalagsmönnum í þinginu frv. um að launþegum verði leyft að semja inni á vinnustöðum við sína eigin vinnuveitendur. Þegar við sýnum verkalýðsforingjum þetta frv. segja þeir: Þetta gengur ekki. Þetta gengur ekki vegna þess að ef við brjótum þetta svona upp rofnar samstaðan, segja þeir. Nú spyr ég: Hvaða samstaða rofnar? Hvar er samstaða launafólksins í dag? Hvar er samstaðan sem hefði átt að ná fram betri kjörum en náðst hafa núna? Hvenær var síðast reynt að kalla fram samstöðu launafólks í þessu landi? Var það ekki 10. okt. þegar þing var sett og blásið var í lúðra úti á Austurvelli? Síðan hefur ekki verið höfðað til samstöðu íslenskra launþega og síðan hafa íslenskir launþegar ekki fengið færi á að sýna samstöðu sína. En það eru verkalýðsforingjarnir sem hafa sýnt samstöðu. Þeir hafa sýnt samstöðu um það að játa því og staðfesta að ríkisstj. hafi haft rétt fyrir sér með brbl.-setningu í vor. Þeir segja: Það er rétt að kaupmátturinn er 25% of hár og það er rétt að það þurfti að lækka launin. Og þeir segja: Tak skal du have.

Ég vil ekki láta þessu lokið án þess að koma aðeins inn í mál sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon minntist á áðan. Það er um námsmenn og námslán þeirra. Við skulum minnast þess, Íslendingar, að í dag er árið 1984 og það hefur lengi verið í máli manna að tala um hluti sem gerast árið 2000 og hluti sem mundu gerast á næstu öld, eða eins og sagt er, í framtíðinni. Málið er það að árið 2000 er eftir 15 ár og í dag eru að fæðast og byrja að ganga í skóla á Íslandi athafnamenn 21. aldarinnar. Hvernig eigum við að búa þetta fólk undir 21. öldina? Hvað vitum við hvað hún ber í skauti sér? Við vitum ekkert um það. Það eina sem við getum gefið þessu fólki er góð menntun. Við getum reynt að búa þetta fólk undir umhverfi sem við vitum ekki um. Það eina sem við getum gert er að þjálfa það og þroska það þannig að það geti nýtt sér þá möguleika sem 21. öldin ber í skauti sér. Og það er ekki lánleg byrjun að skera niður námslánin og framlög til skólamála eins og gerst hefur á þessu þingi.

Nú voru til umr. á þingi fyrir stuttu hugmyndir manna um það hvernig eigi að efla trú á landið og flutt var um það till. að kennsla í Íslandssögu yrði aukin til að efla trú á landið. Ég sagði í þeirri umr. að ég teldi ekki að Íslandssögukennsla mundi efla trú á þetta land. Við höfum nefnilega hérna fyrir okkur í dag það sem skiptir máli fyrir trú á landið. Hvað ætli unglingunum, 16–20 ára, sem voru spurðir í Íslandssögukönnuninni um daginn, þyki nú? Ætli þeir eflist í trú á landið, landið sem ætlar að fara að skera niður við þá launin sem eru á aldrinum 16–18 ára, sem eru líklega harðduglegasti vinnukraftur sem við nokkurs staðar eigum völ á? Við skulum spyrja þessa krakka um trú á landið. Við skulum spyrja þá hvort svona aðgerðir hafa ekki meiri áhrif á trú á landið en Íslandssögukennsla. Ætli foreldr­um þessara barna, sem líka verða að hafa trú á landið til þess að geta kennt hana börnum sínum, eflist trú á landið, sem er skv. OECD-skýrslum í 6. eða 7. sæti ríkustu þjóða heims en er nú í þann veginn að staðfesta sultarkjör til 15 mánaða?