05.03.1984
Neðri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3361 í B-deild Alþingistíðinda. (2883)

Umræður utan dagskrár

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna þeim umr. sem hafa orðið um þetta mál og þær góðu undirtektir sem það hefur fengið, að nauðsynlegt sé að jafna þarna á milli í kjörum kvenna og karla. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör. Varðandi upplýsingaskyldu stofnana fagna ég því auðvitað að þessi mál eru í athugun og að ríkisreikningsnefnd hafi verið falið það verkefni að samræma reikningsskil stofnana, þó að ég hefði nú vænst þess að afdráttarlausari svör kæmu fram hjá hæstv. fjmrh. um það, að þessum stofnunum bæri skylda til að veita Alþingi hinar umbeðnu upplýsingar. Það er auðvitað óeðlilegt og alvarlegt mál að stofnanir eins og t. d. Landsvirkjun, sem ríkið er stór eignaraðili að, gefi ekki upplýsingar sem lög um ríkisbókhald kveða á um. En eins og ég segi, þessi mál eru í athugun og vonandi stendur það til bóta að þessar stofnanir gefi þær upplýsingar sem ég tel að lögin kveði mjög afdráttarlaust og skýrt á um að þeim beri skylda til að gefa Alþingi.

Varðandi hina liðina, sem ég beindi til ráðh., þá fagna ég því sem fram kom hjá hæstv. ráðh. að hann ætli að láta kanna þessi mál til hlítar. Og ég fagna að sjálfsögðu þeim ummætum hans að hann telji það langt gengið ef ríkið sé að brjóta lög í þessu efni. Það kom mjög afdráttarlaust fram hjá hæstv. ráðh. að hann telji sjálfsagt að jafna þarna á milti ef í ljós komi að um mismun er að ræða. Ég tel að í þessum orðum hafi komið fram ótvíræður vilji hæstv. ráðh. og skilningur á því að jafna þennan mun, ef í ljós kemur að um launamisrétti kynjanna sé að ræða. Hæstv. ráðh. upplýsti að hann mundi þegar í stað láta hefja þessa könnun og athugun og leggja sína niðurstöðu fyrir Alþingi og ég vænti þess, eins og ég sagði í mínum upphafsorðum hér áðan, að komi í ljós misrétti þá muni hæstv. fjmrh. telja fullt eins mikla nauðsyn á að leiðrétta þarna á milli, ef um er að ræða sömu eða sambærileg störf hjá konum og körlum, sem vinna hjá ríkinu, ef þau njóta ekki sömu kjara, eins og hann telur sjálfsagt og eðlilegt, og ég tek undir það, að leiðrétta misræmi sem er í kjörum verkamanna hjá ríkinu. Ég ítreka þakklæti mitt til hæstv. fjmrh. og tel að þær upplýsingar sem fram hafa komið gefi e. t. v. og vonandi vísbendingu um það að einhver skriður komist á þessi mál hjá framkvæmdavaldinu, að stjórnvöld ætli nú að gera eitthvað í þessu máli, að taka á því, svo að ekki ríki hér í landinu launamisrétti kynjanna eins og allar kannanir sem hafa komið fram á undanförnum mánuðum gefa ótvírætt í skyn. Það gengur auðvitað ekki lengur, og ég heyri að hæstv. ráðh. tekur undir það með mér, að ríkið skuli mismuna körlum og konum í sínu starfi. Þess vegna fagna ég svörum ráðh.