06.03.1984
Sameinað þing: 62. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3418 í B-deild Alþingistíðinda. (2953)

111. mál, áfengt öl

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég er flm. að þeirri till. sem hér um ræðir og tel mér því skylt að taka til máls og gera grein fyrir ástæðum þess.

Þar er fyrst til að taka að hér er verið að tala um áfengismál og þarf varla að segja nokkrum að áfengi er hluti af okkar lífi. Áfengi er reyndar óæskilegur hluti af lífi minni hluta fólks en nokkuð eftirsóttur hluti af lífi meiri hluta fólks. Ofneysla áfengis er að nokkru leyti skilgreiningaratriði eftir því frá hvaða sjónarhóli það mál er skoðað. En nokkur almennur skilningur skilgreinir þetta vandamál þannig að u. þ. b. 10% fólks sé sú hætta búin af neyslu áfengis að til ofneyslu leiði.

Á s. l. tveimur öldum hefur sú þróun orðið í mannréttindum að fólk hefur öðlast aukinn rétt til að ráða sér sjálft og þar með öðlast aukna ábyrgð á sínum gerðum. Almenn skilgreining lýðræðis er sú orðin að meiri hlutinn ákveði fyrir heildina hvað verða skuli. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að bjórdrykkja dragi úr áfengisneyslu hér á landi, þvert á móti. Ég get þó fullyrt af fenginni reynslu að meiri hluti þjóðarinnar mun ekki leggjast í fyllirí. Ástæða þess að ég styð þetta mál er sú, að ég tel almenning í landinu þess fullbúinn að ráða því sjálfur hvað hann gerir í þessu máli og að meiri hlutinn eigi að ákveða í þessu máli sem öðrum hvað gera skuli.

Herra forseti. Ég get ekki leitt hjá mér þann málflutning sem átt hefur sér stað hér á þingi og verð að játa að það er alveg rétt til getið hjá andmælendum að hér sé reynt að fara með vissum hætti fram hjá þingi. Ástæðan er einfaldlega sú, að fáránleg kosningalög í landinu gera það að verkum að engin trygging er fyrir því að niðurstaða Alþingis sýni meirihlutavilja þjóðarinnar. Við vorum minnt á það hér áðan við umræðu um tilraunastöðina á Reykhólum. Þá tók til máls 1/15 þingheims, allir þm. Vestf., og þögðu þó tveir til viðbótar, því að hér sitja núna einn af hverjum tíu þm. sem Vestfirðingar. Þessi staðreynd leiðir það af sér að ekki er hægt að treysta því að það sé regla að Alþingi taki ákvörðun í samræmi við vilja meiri hluta þjóðarinnar. Ég ætla mér ekki að ræða vantrú vissra einstaklinga og vissra stjórnmálahreyfinga á beinu lýðræði. Opinberun þessa skorts á trausti á beinu lýðræði dæmir sig alveg sjálfkrafa. En það má benda á beint samhengi milli þess málflutnings og þess misvægis í mannréttindum sem kolrugluð kosningalöggjöf leiðir af sér.