12.03.1984
Neðri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3655 í B-deild Alþingistíðinda. (3055)

155. mál, kosningar til Alþingis

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst við þm. eiga kröfu til þess á hendur flm. þessa frv. að fá um það vitneskju, í ljósi gefinna yfirlýsinga með hinu fyrra, hvort og þá með hvaða hætti hefur verið áformað að standa við þá yfirlýsingu. Ég uni því ekki að enginn þeirra flm. skuli verða við þeim tilmælum að veita hv. þingdeild vitneskju um hvort farið er að vinna að tillögugerð um það með hvaða hætti eigi að leiðrétta á fleiri sviðum, eða hvort meiningin sé í raun og veru sú, sem ég er farinn að óttast, að hér eigi að svíkja það sem lofað var. Ég vil fara þess á leit, herra forseti, að umr. verði a. m. k. ekki slitið fyrr en einhver flm. sér sér fært að gefa um það vitneskju hvort og þá með hvaða hætti er farið að vinna að því að standa við þá yfirlýsingu sem fylgdi í grg hinu fyrra frv. og hér hefur verið margoft vitnað til. Ég uni því ekki að þm. almennt fái ekki einu sinni vitneskju um það hvort á að standa við þá yfirlýsingu og þá í hvaða formi það kann að verða gert.

Mér finnst það ekki sæmandi, allra síst formönnum stjórnmálaflokkanna, að þeir fái komið málinu hér í gegnum umr. og í gegnum þingið án þess að standa skil loforða sinna. Og það skiptir mig engu máli hver þessara fjórmenninga það verður, ef það verður einn, sem gerir hv. þingdeild grein fyrir því hvað búið er að vinna í þessu máli. Vissulega væri ánægjulegt að þeir fengjust allir til að tjá sig um hvort á að standa við hin gefnu fyrirheit. Ef ekki fást um það upplýsingar frá flm. sjálfum við þessa umr. hvort við þetta á að standa og með hvaða hætti þá fer ég að hallast að því að menn ætli að svíkja í þessu máli. Það er óhugur í mér við þögn þeirra fjórmenninganna þegar spurt er hvernig þessu máli sé komið sem lofað var. Svo langur tími er liðinn síðan yfirlýsingin var gefin að það er ekki til mikils ætlast þó að við fáum um það vitneskju hvort farið er að vinna að því að standa við þá yfirlýsingu.

Ég ítreka, herra forseti, að mér finnst það lágmarkskrafa að þm. fái að vita það strax við þessa umr. hvað líður efndum á gefnum fyrirheitum um að leiðrétta óréttlætið á fleiri sviðum en þessu. Sú yfirlýsing verður að koma frá foringjum stjórnmálaflokkanna sem lofuðu þessu fyrir síðustu kosningar. Frá öðrum getur hún ekki komið. Þaðan verður hún að fást.