13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3700 í B-deild Alþingistíðinda. (3124)

Umræður utan dagskrár

Árni Johnsen:

Herra forseti. Enn einu sinni hafa ungir menn farist í sjóslysi, fjórir ungir menn, þegar vélbáturinn Hellisey frá Vestmannaeyjum fórst í fyrrinótt um 3 sjómílur austur af Eyjum í blíðskaparveðri. Einn skipverja, Guðlaugur Friðþórsson stýrimaður, vann það ótrúlega afrek að synda til Heimaeyjar um 6 km í köldum sjónum.

Svo snarlega hvolfdi skipinu að skipverjar náðu ekki að komast í gúmbjörgunarbát, en Hellisey var einn af örfáum Eyjabátum sem ekki var búið að setja upp í Sigmundsbúnaðinn sem var fullbúinn fyrir þremur árum og leysir m. a. það vandamál þegar mannshöndin kemst ekki að björgunarbátnum. Ef ekki hefur náðst að sjósetja gúmbjörgunarbát áður en skip fyllir af sjó eða sekkur losar sjálfvirkur búnaður Sigmundsgálgans björgunarbátinn og opnar um leið fyrir loftþrýstiflöskuna sem blæs bátinn upp. Þetta skeður 6–10 sek. eftir að sjór kemst í boxið með sleppibúnaðinum. Búið var að panta þennan búnað á Hellisey, sem var keypt til Vestmannaeyja á s. l. ári, en búnaðurinn var ekki kominn um borð í bátinn. Sigmundsbúnaðurinn er eini björgunarbúnaðurinn hér á landi sem hefur m. a. sjálfvirkan losunarbúnað og þótt aldrei sé neitt tryggt fyrir fram í öryggismálum er Helliseyjarslysið dæmigert fyrir þá möguleika sem búnaðurinn gefur og hugmyndin er byggð á.

Þrír menn komust á kjöl og gátu haldið sér í u. þ. b. 1/2 klst. eða þar til báturinn sökk og þeir freistuðu þess að synda til lands. Fleiri skipverjar komust að skipshlið. Sjálfvirki losunarbúnaðurinn á Sigmundsgálganum er gerður til þess að skila bát að skipshlið innan við 1 mínútu eftir að skip er fullt af sjó og menn hafa ekki komist til að losa björgunarbátinn.

Hugmyndin um skotbúnað á björgunarbáta kom fyrst fram hér á landi þegar vélbáturinn Þráinn frá Vestmannaeyjum fórst austur af Eyjum árið 1968 með allri áhöfn, níu mönnum, og sýnt þótti að menn hefðu ekki komist til að losa björgunarbátinn. Aftur kom þessi hugmynd í sviðsljósið árið 1979, þegar vélbáturinn Ver frá Vestmannaeyjum fórst skammt austur af Eyjum 1. mars. Þá börðust sex skipverjar við það í nær 1/2 klst. að opna gúmbjörgunarbátinn þar sem þeir héldu sér á floti við björgunarbátshylkið en Ver sokkinn. Fjórir skipverjanna, allt kornungir menn, króknuðu í sjónum og drukknuðu áður en náðist að opna björgunarbátshylkið og blása björgunarbátinn upp. Tveir komust af.

Skömmu síðar fóru upphafsmenn hugmyndarinnar um breytingu á búnaðinum á fund Sigmunds Jóhannssonar uppfinningamanns og báðu hann að skoða málin. Eftir margvíslegar tilraunir og tímafreka vinnu var Sigmundsgálginn og skotpallur Sigmunds tilbúinn í vetrarbyrjun 1981 og var búnaðurinn fyrst reyndur í Kap II. í Vestmannaeyjum í vetrarbyrjun það ár. 22. maí 1981 var búnaðurinn prófaður á sjö mismunandi skipum í Vestmannaeyjahöfn. Sjóslysanefnd og flestir forustumenn í öryggismálum sjómanna lýstu því þá yfir að hér væri um að ræða byltingu í öryggismálum sjómanna. Siglingamálastofnun samþykkti búnaðinn og útvegsmenn í tveimur verstöðvum, Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði, ákváðu á einu bretti að setja búnaðinn um borð í báta sína, þó lög mæltu ekki fyrir um slíkt. Rætt var um að setja þennan búnað um borð í allan landsflotann með samstilltu átaki á einu ári með því að framleiða búnaðinn á nokkrum stöðum á landinu.

Þegar til kasta Siglingamálastofnunar kom að fylgja málinu í höfn fór allt á annan veg og þessu stórkostlega öryggismáli sjómanna var klúðrað þannig að aðeins lítill hluti landsflotans hefur þennan búnað um borð þremur árum seinna. Siglingamálastofnun hefur sífellt dregið á langinn að taka á þessu máli af festu, veitt undanþágur fyrir allan flotann, skapað tortryggni í garð búnaðar Sigmunds, blandað saman við öðrum búnaði, sem hefur langt frá því sömu möguleika og Sigmundsbúnaðurinn. Þessi bylting í öryggismálum sjómanna á ekki að varða atvinnutækifæri í landi, hvar búnaðurinn er framleiddur. Hér á að hugsa um það eina sem skiptir máli, öryggi og líf sjómanna.

Í þrjú ár hefur þessi búnaður verið fyrir hendi. Það hefur verið álitamál með efnisnotkun í búnaðinn, og slíkt er eðlilegt að skoða sífellt og endurskoða ef þörf þykir, en útfærslan hefur ekki brugðist. Kostnaður skiptir að sjálfsögðu máli í öllum rekstri, en ekki í þessu öryggismáli því fullbúinn gálgi kostar 44 þús. kr. og með sjálfvirka sjósetningarbúnaðinum kostar hann 51 þús. kr. samtals.

Á skömmum tíma hafa orðið hörmuleg sjóslys sem hafa kostað mörg mannslíf. Í öllum tilvikum hafa bátar sokkið mjög snögglega. Má þar nefna frá síðustu mánuðum sjóslys á Breiðafirði, við Eyrarbakka, við Engey og nú síðast við Vestmannaeyjar. Mönnum er einnig ugglaust í fersku minni sjóslysið við Snæfellsnes, þegar systkin björguðust, en faðir þeirra drukknaði er lítill bátur þeirra sökk. Systkinin náðu ekki í björgunarbát fyrr en eftir margar tilraunir að kafa undir bátinn sem maraði á hvolfi. Þrek þeirra var þrotið þegar loks var möguleiki á því að þau kæmust þrjú í björgunarbát inn. Þarna hefði sjálfvirkur losunarbúnaður e. t. v. breytt stöðunni.

En þau eru mörg efin og þau eru stór þegar þau varða mannslíf. Það er ekkert undarlegt að meira hafi heyrst í Vestmanneyingum en flestum öðrum landsmönnum þegar öryggismál sjómanna eru til umræðu. Á u. þ. b. 100 árum hafa 500 sjómenn farist við Vestmannaeyjar.

Ef þess er nokkur kostur að draga úr mannsköðum á sjó eigum við að taka á því máli eins og menn. Borðliggjandi dæmi um möguleika á björgun manna með þeim búnaði sem hefur verið fundinn upp hér á landi er slysið við Vestmannaeyjar í fyrrinótt. Fyrir hönd sjómanna þessa lands og fjölskyldna þeirra bið ég því hæstv. iðnrh., sem mun svara hér fyrir hönd samgrh., um að gengið verði úr skugga um hvað sé öruggasta og fullkomnasta tækið í sambandi við losun gúmbjörgunarbáta og að það tæki verði án tafar sett í flota landsmanna, stóra báta sem smáa. Það skiptir ekki máli hvaðan slík tæki koma. Það skiptir öllu máli að besta tækið sé valið. Þar hafa sjóslysanefnd, Slysavarnafélag Íslands og fleiri aðilar í sjávarútvegi látið sitt álit í ljós.

Það hefur verið gengið á skjön við reglugerð og leyft að setja í skip búnað, sem uppfyllir ekki skilyrði um sjálfvirkan losunarbúnað, og þar sem Siglingamálastofnun hefur brugðist hlutverki sínu í þessu máli er ekki hægt að komast hjá því að biðja hæstv. samgrh. að taka málið sérstökum tökum. Það er mikið í húfi fyrir okkar þjóðfélag — mannslíf.