13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3706 í B-deild Alþingistíðinda. (3127)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp og tel nauðsynlegt að Alþingi fjalli meira um slysavarnir á sjó en gert hefur verið. Hræðilegt sjóslys hefur átt sér stað nú og ég votta ættingjum þeirra fjölskyldna, sem nú eiga um sárt að binda, mína samúð.

Tilefni þess að ég kem hér upp er það að nokkrir ættingjar og vandamenn hafa haft samband við mig harmi þrungnir yfir því að fréttir af þessum atburði eru í æsifréttastíl. Sumt þetta fólk hefur þurft að lesa fréttir um drukknun náinna ættingja sinna í dagblaði sem kom út aðeins nokkrum klukkustundum eftir að vitað var um þennan voðaatburð. Ég fordæmi þessa blaðamennsku og ég fordæmi þessi vinnubrögð. Það hefur verið talið sjálfsagt að sýna ákveðna tillitssemi á sorgarstund, en því var sleppt í þessu tilviki. Þessi vinnubrögð tíðkast erlendis að vísu en íslenska þjóðin er eins og ein lítil fjölskylda og okkur hefur þótt sæma að sýna hvort öðru tillitssemi í þessum efnum.

Ég vona að svona vinnubrögð eigi sér ekki oftar stað. Ég tel rétt að vekja athygli á þessu hér svo að það geti borist til þeirra sem hlut eiga að máli og sýnt hafa of mikið fljótræði við fréttaöflun. Því þeir sem nú eiga um sárt að binda eiga það ekki skilið og enginn að lesa slíkar fréttir fyrst í dagblöðum áður en hægt er að koma því til þeirra eftir öðrum leiðum. Ég vek athygli á þessu hér og ég vona að þetta mál komi ekki fyrir aftur.