31.10.1983
Neðri deild: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég hélt það hefði komið skýrt fram hjá mér í fyrri orðum mínum að auglýsingin eins og hún er orðuð hefði verið samþykkt á ríkisstjórnarfundi.

Ræðan sem hv. 5. þm. Reykv. flutti var kannske nokkuð utan við það mál sem hér er til umr., en hann vék þar að starfi mínu sem fyrrv. forseta Sþ. Ég vildi nota þetta tækifæri til að ítreka það, sem ég sagði í hv. Ed. við umr. fyrr á þessu þingi, að ég tel að ég hafi ekki brotið nein lög eða reglur með því að gegna því starfi sem stjórnarskráin lagði mér á herðar þegar ég var kosinn forseti Sþ. í upphafi s.l. þings. Það er ákvæði í stjórnarskránni um að sá sem kjörinn er forseti Sþ. skuli vera einn af handhöfum forsetavalds. Undan þeirri skyldu getur hann ekki skotið sér og þeirri skyldu ber honum að gegna þangað til kjörinn hefur verið nýr forseti Sþ. samkv. ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Ég vil benda á að 1971 var Birgir Finnsson forseti Sþ. og hann gegndi vitanlega starfi sem handhafi forsetavalds allt þar til nýr forseti hafði verið kjörinn þegar Alþingi kom saman á venjulegum tíma 10. okt., enda þótt hann næði ekki kjöri í kosningunum sem þá fóru fram í júnímánuði.

Hið sama gerðist 1979, er Oddur Ólafsson var kjörinn forseti sameinaðs þings, en hann var ekki í framboði í alþingiskosningunum 1979. Þá leið að vísu stuttur tími á milli þinga, en ég get ekki séð að lagalega skipti neinu máli hvort það líði ein vika eða fleiri.

Þetta er sem sagt sú skylda sem stjórnarskráin leggur þeim á herðar sem er kosinn forseti sameinaðs þings. Þeirri skyldu ber honum að gegna.