13.03.1984
Sameinað þing: 65. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3709 í B-deild Alþingistíðinda. (3132)

Umræður utan dagskrár

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Till. sú sem hér er til umr. er um úttekt á rekstrar- og afurðalánakerfi atvinnuveganna og 1. flm., hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, 6. þm. Reykv., hafði hér framsögu um málið þriðjudaginn 6. mars. Er hér um að ræða till. sem er mjög í sama anda og till. sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur flutt á undanförnum árum hér á þinginu.

Málið hefur verið margskoðað og ekki fundist önnur betri leið á þessu rekstrar- og afurðalánakerfi. Er það miður þar sem þetta kerfi er og hefur verið ákaflega þungt og erfitt í vöfum. Væri önnur og betri leið tiltæk væri það mjög gott.

Þetta mál ber að á sérstakan hátt. Till. er flutt um rekstrar- og afurðalán atvinnuveganna, en flm., hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson talaði nær eingöngu um þann þátt sem snýr að bændum og samvinnufélögunum og nefndi að mikil og óæskileg fjármagnstilfærsla ætti sér stað til óskyldra aðila. Ég mótmæli þessari fullyrðingu hv. þm. Hvaða dylgjur eru hér á ferðinni?

Hann bendir á skýrslu Þorvaldar Búasonar eðlisfræðings. Ég get ekki séð að hún sé neitt öruggari eða betri en þær skýrslur og úttektir sem gerðar hafa verið af viðskipta- og hagfræðingum bankanna — eða kannske er eðlisfræðingur orðinn færari um að fjalla um þetta mál en hagdeildir bankanna.

Á liðnum árum hafa þessi mál oft verið skoðuð af færustu mönnum, en torvelt hefur reynst að finna aðra og betri leið. Nú kemur það fram í grg. till. að viðskrh. hefur falið Seðlabanka Íslands að endurskoða gildandi afurða- og rekstrarlánakerfi. Eru hv. flm. að vantreysta ráðh. eða Seðlabanka Íslands til að framkvæma þessa skoðun? Og vill hv. flm. fá skipaða eina nefndina enn til að fara yfir þetta mál?

Hvernig stendur á því að hv. þm. hefur svona mikinn áhuga á málefnum bænda? Ég spyr. Ekki hafa bændasamtökin mér vitanlega óskað eftir breytingu á núverandi fyrirkomutagi og ættu þau þó að hafa forustu um að fá lagfæringar á því væri þeirra sérstaklega þörf. Er ekki einu sinni enn á ferðinni árás á bændur og hin frjálsu félagasamtök landsmanna? Það þykir líka henta að ráðast svona á ein stærstu félagasamtök í landinu, Samband íslenskra samvinnufélaga, ef hægt væri að grafa undan samstöðu og samvinnu innan þessara öflugu samtaka. Væri þá leikurinn auðunninn á eftir að taka stjórnina í hendur kapítalismans.

Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson endaði svo sinn málflutning með því að segja að e. t. v. gætu hv. þm. fundið stóran hluta þess fjármagns sem hæstv. fjmrh. vantaði og væri í vandræðum með til að fylla upp í gat fjárlaganna. Er ekki nokkuð langt gengið að slá svona fullyrðingum fram? Væri ekki ástæða til að hv. þm. gerði nánari grein fyrir þeim fullyrðingum sem hann hafði hér um mátið?

Þá hafði hv. 5. þm. Reykv. ekki síður ýmislegt við málið að athuga, og var það eingöngu ádeila á Samband íslenskra samvinnufélaga. Voru það eingöngu órökstuddar fullyrðingar sem ekki eru svara verðar, svo sem að auðhringur SÍS ráði öllu um rekstrar- og afurðalán bænda. Ætti hann þó að vita að sláturleyfishafar eru miklu fleiri. T. d. eru á Suðurlandi engin sláturhús eða mjólkurbú á vegum kaupfélaganna eða Sambandsins. Eru þó stærstu landbúnaðarhéruðin á Suðurlandi. En þar eru öflug félagsmálasamtök fólksins engu að síður sem sjá um þessa hluti á Suðurlandi að stærstum hluta til.

Þessi árás á þessi frjálsu félagasamtök, sem hér hefur verið höfð uppi af hv. 6. þm. Reykv. og 5. þm. Reykv., engu að síður árás á öll félagasamtök almennings í landinu og átti ég ekki von á því frá þessum hv. þm. öðrum fremur að þeir réðust svo að félagsmálasamtökum fólksins.

Ég hef þá ekki orð mín fleiri, en mun fá tækifæri til að ræða um þetta mál í atvmn. Sþ. þangað sem því mun verða vísað.