14.03.1984
Neðri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3742 í B-deild Alþingistíðinda. (3168)

144. mál, lánsfjárlög 1984

Frsm. meiri hl. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nái. meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. Þetta mál hefur fengið ítarlega umfjöllun í n. Það var rætt mjög mikið við 1. umr. og vísað til n. 15. febr. og hefur þess vegna verið til meðferðar í n. u. þ. b. einn mánuð. Það er ákaflega nauðsynlegt að málið fái hraða afgreiðslu í hv. Nd. þar sem málið þarf að fara aftur til Ed. vegna brtt. sem meiri hl. gerir við frv. Segja má að frv. þurfi að samþykkja ekki síðar en á mánudag. Vonast ég til þess fyrir hönd meiri hlutans að um það náist góð samstaða að flýta fyrir afgreiðslu málsins, enda hefur það eins og ég sagði fyrr fengið ítarlega meðferð í n. og verið rætt öðrum málum meir hér í hv. deild.

Á fund n. kom fjöldi embættismanna frá Aflatryggingasjóði, Fiskveiðasjóði, samtökum viðskiptabanka, frá fjmrn., úr iðnrn., Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka, félmrn., Húsnæðisstofnun og auk þess kom biskupinn yfir Íslandi á nefndarfundi ásamt kirkjuráði.

Á þskj. 423 eru fluttar brtt. sem ég tel ástæðu til að gera grein fyrir í örstuttu máli. Fyrsta till. er brtt. við 3. gr. frv. Þar er um að ræða nýja skiptingu fjármuna sem fara til Landsvirkjunar. Ástæðan fyrir því að þessi brtt. er gerð er sú, að nýir útreikningar sýna breyttar tölur, aðallega vegna Suðurlínu, og enn fremur að tilmæli bárust frá Landsvirkjun um að sundurliða þessa fjárhæð ekki eins mikið og gert var ráð fyrir hjá Ed., en það takmarkaði nokkuð möguleika til þess að fara með fjármunina eins og Landsvirkjun og iðnrn. telur eðlilegast. Samt sem áður er þarna um að ræða nokkra sundurliðun eins og kemur fram á þskj. 423.

Í annan stað flytur meiri hl. brtt. við 24. gr. frv., sem er um Kristnisjóð, og leggur til að í stað 2.5 millj. komi 3.6 millj. Byggist það m. a. á lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma og um Kristnisjóð, þar sem gert er ráð fyrir í 20. gr. þeirra laga að tekjur Kristnisjóðs skuli vera m. a. árlegt framlag úr ríkissjóði er samsvari hámarkslaunum presta í þeim prestaköllum sem lögð eru niður skv. lögum þessum og laun þau sem sparast á hverjum tíma þegar prestakall er prestlaust, svo að ekki komi til greiðslu prestlauna eða hluta þeirra, og skal þá miðað við hámarkslaun presta. Nefndarmeirihlutinn gerir ráð fyrir að þessi upphæð, 3.6 millj., sé í samræmi við hin lögbundnu framlög í 20. gr. áðurnefndra laga.

Í þriðja lagi flytur meiri hl. till. um heimild fyrir fjmrh. að endurgreiða Flugleiðum hf. og Cargolux lendingargjöld á Keflavíkurflugvelli. Skv. upplýsingum Flugleiða hf. er gert ráð fyrir um það bil 14% aukningu á lendingum á Keflavíkurflugvelli á árinu 1984 miðað við árið 1983. Lendingargjöld á tímabilinu 1. okt. 1983 til ársloka 1983 eru skv. þessari áætlun liðlega 135 þús. dollarar, en áætluð lendingargjöld 1984 822 þús. dollarar. Samtals eru það því 957 þús. dollarar eða um það bil 27 millj. ísl. kr. Það skal tekið fram að þetta þýðir 23 millj. tekjutap fyrir ríkissjóð á yfirstandandi ári. En hvað Cargolux varðar er ekki um að ræða tekjutap vegna þess að ekki voru áætluð lendingargjöld á þessu ári, en ef gert er ráð fyrir að lendingar verði 50 á þessu ári mun sú upphæð nema 1.1–1.3 millj. kr.

Í fjórða lagi flytur nefndarmeirihlutinn till. sem heimilar fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán að upphæð 30 millj. kr. til Bjargráðasjóðs sem hann síðan endurlánar kartöflubændum vegna uppskerubrests á árinu 1983.

Að öðru leyti tel ég ekki ásfæðu til að fjalla fremur um frv. á þessu stigi, en ítreka það sem ég sagði í upphafi, að afar brýnt er að frv. fái fljóta og greiða afgreiðslu í hv. deild svo að Ed. geti afgreitt málið n. k. mánudag.