20.03.1984
Sameinað þing: 67. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3890 í B-deild Alþingistíðinda. (3310)

224. mál, ráðstöfun gegnismunar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs út af því, að í síðustu viku var hér utan dagskrár umr. um öryggismál sjómanna og í þeirri umr. varpaði ég fram þeirri hugmynd að skipuð yrði nefnd stjórnmálaflokkanna til að fjalla um öryggismál sjómanna. Nefndin mundi gera tillögur um ráðstafanir í þeim efnum og fjármögnun verkefna. Ég greindi nokkrum þm. frá þessari hugmynd í gær. Nú er mér tjáð að ríkisstj. hafi í morgun gert samþykkt um að skipa nefnd til að fjalla um öryggismál sjómanna, sem skipuð verði fulltrúum úr öllum flokkum. Ég tel eðlilegt, vegna þess að þessi umr. fer nú fram, að ríkisstj. greini frá þeirri samþykkt, sem hún hefur gert í þessum efnum, og ég fer fram á það við hæstv. samgrh. að hann skýri frá því hvernig mál standa, hvort rétt er að ríkisstj. hafi samþykkt í morgun að skipa sérstaka nefnd til að fjalla um öryggismál sjómanna. Ég teldi að mjög æskilegt væri að slík nefnd yrði til með sem bestum friði allra aðila hér á þinginu, þannig að tryggt verði að hún skili sem bestum árangri.

Hins vegar hirði ég ekki um að svara hv. 3. þm. Vestf.