13.10.1983
Sameinað þing: 3. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem hæstv. forsrh. upplýsti í sinni ræðu, að það hefur á ýmsu gengið varðandi útgáfu brbl. á síðari árum og áratugum. I ritum þeirra Ólafs Jóhannessonar og Bjarna Benediktssonar er glögg grein gerð fyrir þessum málum og sýnt fram á hvaða vandi er hér á ferðinni og hvað reglur eru óljósar. Ég hygg að það hafi verið úr ritum þessara tveggja manna sem hæstv. forsrh. hafði sína vitneskju áðan, auk nýrri upplýsinga um útgáfu brbl. frá síðari árum eftir að þeir gáfu út sín rit. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd, að þó að allavega hafi verið farið með þessi mál á síðustu árum og áratugum er brýn þörf á því að settar verði skýrar reglur um útgáfu brbl. og hvernig með þau skuli fara. Um það voru allir sammála sem áttu aðild að stjórnarskrárnefnd þeirri sem hæstv. forsrh. gat um áðan. Í þeim efnum varð stjórnarskrárnefnd í rauninni sammála um að leggja til að þessum hlutum yrði hagað með þeim hætti sem lýst er með tilvitnun í ræðu sem Gunnar Thoroddsen flutti 14. mars s.l. í hv. Ed., en hann sagði:

„26. gr. frv. fjallar um rétt til útgáfu brbl. Taldi nefndin rétt að gera þar ýmsar breytingar á og þrengja og takmarka þann rétt sem hingað til hefur verið um útgáfu brbl.

Það var m.ö.o. samstaða um að takmarka þennan rétt.

„Það er í fyrsta lagi“, hélt Gunnar áfram, „nýmæli að brbl. skuli ætíð lögð fyrir næsta Alþingi í upphafi þings, en slík skylda er ekki samkvæmt núgildandi stjórnarskrá.

Í öðru lagi: Hafi Alþingi ekki samþykkt brbl. þrem mánuðum eftir þingsetningu falla þau úr gildi í stað þess að nú gildir sú regla að þau falla úr gildi við þinglausnir hafi þau ekki verið felld áður.“

Hér er talað um þrjá mánuði, en nú er verið að tala um brbl. sem jafnvel voru sett fyrir sex mánuðum. „Þá er það nýmæli“, segir hér ennfremur, „að kynna skal viðkomandi þingnefnd efni brbl. áður en þau eru sett.“

Hér er um að ræða mjög afgerandi brtt. sem fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna eru að gera tillögu um að fylgt verði við breytingar á stjórnarskránni, en Alþfl. vill þó ganga þarna mun lengra en fulltrúar Alþb., Framsfl. og Sjálfstfl. með því að afnema algerlega heimildir til útgáfu brbl., sem ég segi fyrir mitt leyti að ég er ekki tilbúinn til þess að taka undir. Þess vegna skýtur það mjög skökku við, aðeins örfáum vikum, örfáum mánuðum eftir að nál. stjórnarskrárnefndar liggur fyrir með þessum vilja, sem á að vera staðfestur af þeim flokkum sem eiga fulltrúa í nefndinni, að þá skuli núverandi hæstv. ríkisstj. ganga svo nærri brbl.valdinu með beitingu þess að fjöldi manna í landinu, sem til þessa hefur talið reglurnar viðunandi, kallar nú á það að þær verði þrengdar að miklum mun. Það er rétt, sem hæstv. forsrh. gat hér um áðan, að í þessum efnum hafa ríkisstjórnir oft gengið býsna langt, en það er hins vegar ljóst, og það hefur greinilega komið fram í umræðum þessa sumars, að engin ríkisstjórn í sögunni hefur gengið eins langt gegn lýðræðislegum leikreglum í þessu landi og ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Það eru e.t.v. stór orð að halda þessu fram, svo að ég vitni í hv. þm. Eið Guðnason áðan, en ég tel að þessi stóru orð segi sannleikann í þessu máli og þess vegna eiga þau við. Ég teldi rangt að umgangast þessi mál nú án þess að lýsa þeim eins og þau raunverulega eru, jafnvel þó að það kunni að kosta stór orð.

Hæstv. forsrh. gat um það áðan að stjórnarskrárnefnd væri enn að störfum. Ég vil spyrja hann að því, hver muni nú kalla stjórnarskrárnefndina saman. Mér þætti fróðlegt ef ritari stjórnarskrárnefndarinnar um árabil, hv. 2. þm. Reykn., legði hér orð í belg þannig að við gætum fengið um það vitneskju hvenær hugmyndir eru uppi um að kalla þessa stjórnarskrárnefnd saman og hvaða hugmyndir ríkisstj. hefur í sambandi við það frv. til l. um breyt. á stjórnskipunarlögunum sem lagt var fram í vor af fyrrv. hæstv. forsrh.

Ég get tekið undir það, sem fram kom í ræðu hv. þm. Eiðs Guðnasonar, 5. landsk. þm., að það hefði hvergi getað gerst á Vesturlöndum nema á Íslandi að þingið fengi ekki að koma saman jafnlangan tíma og hefur orðið núna í ár — það hefði hvergi getað gerst. Við gerðum þm. norska Stórþingsins, sem komu hér í sumar í heimsókn, grein fyrir vinnubrögðunum á Alþingi Íslendinga — nokkrir íslenskir þm. sem hittu að máli menn úr fjvn. norska Stórþingsins. Þeir voru gersamlega gáttaðir á því að svona nokkuð skyldi vera til. Og þegar við bættum því svo við að þessi þinglausa ríkisstjórn hefði svipt verkalýðshreyfinguna í landinu frelsi til að gera kjarasamninga áttu þeir ekki orð til að spyrja einu sinni, hvað þá heldur meira.

En menn hafa spurt þeirra spurninga í framhaldi af því í sumar, hvernig á því stendur að þeir flokkar sem að þessari ríkisstj. standa skuli ganga á þanþol lýðræðisins af slíkri ósvífni. Í þeim efnum hafa menn kannske litið alveg sérstaklega til Sjálfstfl., m.a. vegna þess að hann er stundum að tala um frelsi einstaklingsins — frelsi einstaklingsins til að taka ákvarðanir sjálfur á hverri stundu, frelsi einstaklingsins til þess að ráða örlögum sínum til lykta á hverju augnabliki. En hvað er Sjálfstfl. að gera með því að standa að þessum lögum, sem svipta menn rétti til frjálsra kjarasamninga? Hann er að lögbinda rétt fjármagnsins til að skammta einstaklingunum það frelsi sem fjármagnið vill hafa. Það er frelsi Sjálfstfl., frelsi fjármagnsins. Frelsi einstaklinganna lætur hann lönd og leið.

Auðvitað er það rétt, sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði hér áðan, að það á að fastsetja reglur um þetta í stjórnarskrá. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar sýnir það og sannar, hæstv. forsrh., að það er ekki hægt að treysta öllum stjórnmálaflokkum í landinu fyrir því að umgangast leikreglur lýðræðisins með fullum sóma, þannig að það verður að setja reglur í stjórnarskrá lýðveldisins um að fólkið geti reiknað með því að unnið sé eftir eðlilegum lýðræðislegum leikreglum. Það er grundvallaratriðið. Og þegar núverandi stjórnarandstaða fer fram á það af allri hógværð við hæstv. ríkisstj. að Alþingi Íslendinga fái að koma saman, réttkjörið þing fái að koma saman, þá er því hafnað í tvígang í bréfum frá hæstv. forsrh. Og ég varð ekki var við að hæstv. landbrh., sem líka var hæstv. forseti Sþ., tæki þá sérstaklega upp hanskann fyrir þingið í þessu efni. Nei, það gerði hann ekki, heldur skrifaði hann undir brbl. sem handhafi forsetavalds þó að hann sæti sjálfur í ráðherrastól á sama tíma. Ég segi: Aldrei nokkurn tíma hefur framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi verið grautað saman á jafnherfilegan hátt og af núv. hæstv. ríkisstj.

Í sumar gerðist það, að hæstv. utanrrh. óskaði eftir því að utanrmn. þingsins yrði kölluð saman, fyrrv. utanrmn. Var þetta utanrmn. sem þar var að störfum? Ég spyr núv. hv. formann utanrmn.: Telur hann að það hafi verið utanrmn. sem kom saman til fundar í sumar — eða er það kannske bara starfshópur í vinnu hjá hæstv. utanrrh.? Það væri fróðlegt að fá skoðun hv. 9. þm. Reykv. á þessu, ekki bara vegna þess að hann þekkir þessi mál betur en flestir aðrir hér. Var þarna verið að kalla saman starfshóp, sem hafði í rauninni ekkert sérstakt með utanríkismál að gera, en var bara kallaður saman vegna þess að núv. hæstv. utanrrh. þóknaðist að hóa í menn? Þetta væri fróðlegt að fá upplýsingar um.

Í umr. um þessi mál á síðasta þingi, þann 14. mars s.l., bar margt á góma, einkum í umr. um frv. til 1. um bann við ofbeldiskvikmyndum. Það frv. var flutt af hæstv. þáv. menntmrh. Ingvari Gíslasyni og í umr. um það mál kvöddu sér hljóðs þáv. hv. þm., núv. hæstv. ráðherrar, Matthías Bjarnason og Geir Hallgrímsson. Og þeir vildu undirstrika alveg sérstaklega að það ætti mjög vel við að ræða um vinnubrögð þáv. ríkisstj. þegar á dagskránni var frv. til l. um bann við ofbeldiskvikmyndum.

Í þeim umr. bar það m.a. á góma að þrír flokkar í þinginu höfðu lagt til að Alþingi lýsti þeim vilja sínum að það ætti að koma saman eigi síðar en 18 dögum eftir síðustu kosningar. Það var meiri hl. þingsins á bak við þessa till., Alþfl., Alþb. og Sjálfstfl. Þessi till. var flutt í báðum deildum þingsins og átti greinilegan meiri hl. Og við litum svo á, bæði núv. hæstv. utanrrh. og ég, og það kom fram í umr. í þinginu, að í rauninni lægi þessi vilji þingsins þá þegar fyrir. Framsfl. var með moðreyk í þessu máli og múður, og það er ekkert nýtt þegar gerðar eru kröfur um að starfað sé eftir lýðræðislegum og þingræðislegum leikreglum, það kom engum á óvænt. Honum tókst að tefja málið og drepa því á dreif um skeið svo að það náði ekki afgreiðslu, en meiri hl. þingsins var alveg ótvírætt fyrir því að þingið ætti að koma saman aftur.

Alþfl., Alþb. og Sjálfstfl. höfðu gefið yfirlýsingar sem auðvitað átti að lífa á sem skuldbindandi yfirlýsingar af hálfu þessara flokka. Og hvað gerist? Menn sjá hvað hefur gerst í þessu efni. Og hvernig voru orðaðar þessar skuldbindandi yfirlýsingar í umr. um bann við ofbeldiskvikmyndum? Þá var núv. hæstv. utanrrh. ekki að tala tæpitungu eða loðið. En hann sagði í þessum umr.:

„Það liggur fyrir að það er meirihlutavilji í báðum deildum Alþingis, það er meirihlutavilji í sameinuðu þingi að Alþingi verði kvatt saman eigi síðar en 18 dögum eftir næstu kosningar. Svo kemur hæstv. samgrh., formaður Framsfl., og segist ekki vilja skuldbinda sig til þess að kveðja Alþingi saman, vegna þess að það þurfi að mynda sterka ríkisstjórn. En hvernig er sterk ríkisstjórn mynduð?“ spurði hæstv. utanrrh. „Hún er mynduð með því að tryggja henni meiri hluta á Alþingi Íslendinga og til þess að kanna fylgi væntanlegrar ríkisstjórnar þarf Alþingi að vera til staðar og kveða upp úr um það.“

Hér er talað skýrt. Hér er ekki töluð nein tæpitunga. Hér segir formaður Sjálfstfl. við kjósendur: Alþingi á að koma saman strax eftir næstu kosningar til þess að staðfesta það að mynduð hafi verið ný ríkisstjórn.

Hvað verður ofan á? Formaður Sjálfstfl. semur um það við Framsfl. að svíkja þetta kosningaloforð gersamlega. Það stendur ekki steinn yfir steini. Og þegar formaður þingflokks Sjálfstfl. amlar í blöðunum vegna þess að þetta sé nú ekki nógu gott og það þurfi að tryggja virðingu hins háa Alþingis, þá er ekki hlustað á hann, það er skellt á. Og hæstv. ráðherrar Sjálfstfl. eru staðráðnir í því um leið og þeir eru sestir í stólana að þeir hafi ekkert með þingið að gera þrátt fyrir þessar skýlausu yfirlýsingar. Þannig hefur Sjálfstfl. leikið afar ljótan leik. Hann hefur lýst því yfir fyrir kosningar að þingræði og lýðræði eigi að hafa hér í heiðri, að Alþingi eigi að koma saman. Eftir kosningar svíkst hann aftan að sínum eigin loforðum og þeim yfirlýsingum sem forustumenn hans hafa gefið og þeim kjósendum sem e.t.v. hafa treyst Sjálfstfl.

Matthías Bjarnason, núv. hæstv. heilbrrh., var ekki að skafa utan af því þegar hann var að ræða um bannið við ofbeldiskvikmyndum 14. mars s.l. Hann sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú á að afgreiða mál, eins og t.d. vegáætlun, með brbl. eða kannske að hafa enga vegagerð. Það er ekki einu sinni hægt að afgreiða þetta mál. Hæstv. samgrh. finnst þetta sennilega miklu betra en eiga við þetta árans Alþingi. Verður ekki langbest að leggja þing niður eða þá að fækka þm. niður í einn eða kannske þrjá?“ spurði Matthías. „Þeir geta verið hérna þrír, Gunnar Thoroddsen, Svavar og Steingrímur. Það verður þá þingræðið sem við höfum í framtíðinni. Þetta er siðlaust“, varð niðurstaða núv. hæstv. heilbrrh. Og hann bætti við: Það er siðlaust athæfi og það er furðulegt að þm. úr þessum flokkum skuli láta bjóða sér þetta. Það sýnir geðleysi þm. sem láta bjóða sér þetta.

Vonandi verður upprifjun þessara orða til þess að hitta þá sjálfstæðismenn fyrir sem þóttust vilja kalla þingið saman, voru að amla um það í blöðunum í sumar, og Matthías Bjarnason sagði við 14. mars, að vísu áður en hann varð ráðherra: Það er geðleysi af ykkur að sætta ykkur við svona vinnubrögð.

Alþb. lét það koma skýrt fram að það teldi að meirihlutavilji lægi fyrir á Alþingi í þessu efni. Í útvarpsumr. að kvöldi 14. mars s.l. komst ég þannig að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Þannig er ljóst að ný ríkisstjórn og nýtt þing verða að taka á vandanum og það strax. Það var þess vegna sem við fluttum tillögu að viljayfirlýsingu um að Alþingi skuli koma saman hið fyrsta eftir kosningar og eigi síðar en 18 dögum eftir þær. Það væri ábyrgðarleysi að kalla þingið ekki saman. Alþingi hefur fallist á þessa afstöðu okkar og tveggja annarra stjórnmálaflokka.“

Eftir að þessi yfirlýsing kom fram í útvarpsumr. töluðu fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. og enginn þeirra ræðumanna mótmælti þeim skilningi, sem ég hafði þarna látið koma fram, að meirihlutavilji lægi fyrir á Alþingi Íslendinga í þessu efni. En niðurstaðan varð sú, að Framsfl. og ráðherraflokkur Sjálfstfl. tóku um það ákvörðun að loka Alþingi Íslendinga. Ráðherrabandalag Sjálfstfl. gekk í bandalag við Framsfl. um að loka þinginu þangað til í haust. Alþingi hefur aldrei verið lokað eins langan tíma og núna. Hér er um að ræða árás á þingræðið og ekkert annað. Og það er sérstaklega alvarlegt þegar þetta gera þeir menn sem sögðust ætla að aðhafast allt annað fyrir kosningarnar, hv. þm. Sjálfstfl. Með þessum vinnubrögðum er ríkisstj. að ráðast að þinginu og formlegum réttindum þess, en þó ekki aðeins formlegum réttindum þingsins, heldur miklu frekar innihaldi þingræðisins og lýðræðisins í þessu landi, því að lýðræðið er ekki dauð formsatriði, heldur líf fyrst og fremst.

Ríkisstj. hefur ekki aðeins staðnæmst við það að ráðast þannig að þingræðinu. Hún hefur ráðist að samningsréttinum, eins og kunnugt er, að verkalýðshreyfingunni. Og hún hefur neitað að taka tillit til óska stjórnarandstöðunnar um að þingið verði kallað saman. Þannig er núv. hæstv. ríkisstj. að gera tilraun til þess að segja sundur friði í þessu landi. Þegar þjóðin stendur frammi fyrir alvarlegri vandamálum en löngum fyrr óskar ríkisstjórn hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar eftir því að menn fari í baráttuátök og stríð vegna þess hvernig ríkisstj. hefur hagað sér. Ríkisstj. er að reyna að efna til átaka í þessu landi. Ríkisstj. er að hvetja til átaka um grundvallarmannréttindi og lýðréttindi í þessu landi. Hér er ekki aðeins verið að takast á um einföld fyrirkomulagsatriði, um prósentuhækkun eða lækkun launa til eða frá. Hér er verið að takast á um grundvallaratriði stjórnskipunarinnar sjálfrar. Og þeir menn sem hafa á vörunum frelsi einstaklingsins, kröfuna um frjálsa samninga og að þing skuli koma saman strax eftir kosningar, en svíkjast svo aftan að þessu öllu strax og þeir fá tækifæri til, eru í rauninni að koma þannig fram að það kemur óorði á starfsemi þessarar stofnunar, því miður.

Því er svo bætt við af núv. hæstv. ríkisstj., að þegar stjórnarandstaðan fer fram á að fá að eiga forseta hér í þinginu, eins og var á síðasta kjörtímabili þegar við höfðum núv. hæstv. iðnrh. sem forseta í Nd., og það var ágætt að hafa hann sem forseta — (Gripið fram í.) Já, hann var nokkuð seigur, nokkuð góður forseti. En eftir þessa ágætu reynslu, sem fengin er af honum, er óskum stjórnarandstöðunnar um að hafa forseta í þinginu hafnað, skellt á stjórnarandstöðuna að því leytinu líka. Stjórnarandstaðan lætur sig engu að síður að sjálfsögðu hafa það að taka þátt í kjöri forseta þingsins og koma því þannig á laggirnar. En ég vona — ég endurtek það, ég vona að þessi neitun gagnvart stjórnarandstöðunni, þessi hroki gagnvart stjórnarandstöðunni muni ekki birtast í vinnubrögðum núv. hæstv. forseta þingsins í vetur. Ég vona að við eigum gott samstarf í stjórnarandstöðunni við núv. hæstv. forseta þingsins og ég vona að það verði tekið á málum stjórnarandstöðunnar af meiri skilningi og yfirvegun en gert var í sumar af hæstv. forsrh., sem með hurðarskellum afgreiddi allar sanngjarnar óskir stjórnarandstöðunnar um að þingið kæmi saman. Ég vona að núv. hæstv. forsetar þingsins fylgi ekki hinu vafasama fordæmi hæstv. forsrh. í þessu efni og núv. hæstv. forsetar þingsins gæti sóma Alþingis í einu og öllu og láti hæstv. forsrh. ekki beygja sig til þeirra vafasömu vinnubragða sem hann hefur tekið upp gagnvart stjórnarandstöðunni í sumar.

Það er stundum svo með núv. hæstv. ríkisstj. að það er eins og tillitsleysið gagnvart öllum almennum reglum, hefðum og sögu sé ofar á blaði en allt annað. Það væri fróðlegt fyrir núv. hæstv. ríkisstj. og hæstv. forsrh. að lesa samviskusamlega með opnum huga greinar Jóns Sigurðssonar forseta, sem hann nefndi á nafn hér áðan, frá 19. öldinni um þingið og tilgang þess. Jón Sigurðsson var þeirrar skoðunar, að Alþingi þyrfti að starfa og ætti að vera umræðuvettvangur fólksins sjálfs. Forseti Íslands vitnaði til greinar Jóns Sigurðssonar um Alþing frá árinu 1842, þegar hún setti þingið fyrir nokkrum dögum. Í þeirri grein sagði Jón Sigurðsson m.a.:

„En nú er Alþingi engan veginn sett höfðingjum í vil, heldur fyrst og fremst alþýðu, til að gefa henni tækifæri til að láta þá menn, sem hún helst vildi kjósa, tala máli sínu og bera fram þarfir sínar. Höfðingjar þurfa ekki Alþing í þeim skilningi, því að þeir standa ofar í röð stéttanna og geta borið fram mál sín og vandkvæði sjálfir, en alþýðan þarf þess með, því að hún getur alls ekki borið fram óskir sínar og vandkvæði, nema það gangi gegnum hendur embættismanna, og verður að eiga undir þeim, hvernig þeim segist frá málavöxtum.“

Það er langur vegur, herra forseti, frá þessum skilningi á störfum Alþingis árið 1842 til þess skilningsleysis í Stjórnarráði Íslands sem birtist í neitunum núv. hæstv. forsrh. við sanngjörnum óskum stjórnarandstöðunnar í sumar. Hins vegar er hæstv. forsrh. reiðubúinn að taka upp önnur vinnubrögð á öðrum sviðum, sem eru ákaflega athyglisverð og nýstárleg og ég ætla að nefna í þessari ræðu og spyrja hann um.

Það hefur verið frá því greint að hæstv. ríkisstj. telji sig nú svo aðþrengda í blaðakosti og áróðursmiðlun að hún þurfi að gefa út sérstakan bækling inn á hvert heimili í landinu til þess að rétta við hlut sinn, en ríkisstj. hefur ekki nema hátt í 100 þús. eintök á dag af málgögnum sínum á móti 10–15 þús. eintökum af Þjóðviljanum og Alþýðublaðinu. Hæstv. ríkisstj. mun ætla að gefa út bækling sem kostar 300–400 þús. kr., senda hann inn á hvert heimili í landinu, þó að hæstv. forsrh. hafi ekki fengið heimilisföngin, og þessi bæklingur á að verja stefnu stjórnarinnar. Það á að ganga í ríkissjóð til að kosta áróður fyrir Framsfl. og Sjálfstfl. Ég vil spyrja hæstv. forsrh. af þessu tilefni, hvort þetta er rétt. Hvað kostar bæklingurinn og hvað kosta fundirnir sem hæstv. forsrh. hefur verið að halda í sumar, „Hvað er ríkisstj. að gera fyrir þig?“ Hvað kostuðu auglýsingarnar sem varið var stórfé í í sumar? Hefur hæstv. fjmrh. samþykkt að greiða — við hina þröngu stöðu ríkissjóðs-þessa fjármuni? Hann kinkar kolli fús. Þetta bandalag lætur ekki að sér hæða. Þegar kemur að því að borga áróður fyrir þessa flokka er allt opið. Þegar lagt er fram frv. til fjárlaga fyrir árið 1984 munar menn ekki um að skera samtök aldraðra niður um 285 þús. og Leigjendasamtökin um 35 þús. En þegar kemur að því að kosta áróður fyrir ríkisstj. er allt opið upp á gátt.

Af hvaða fjárlagalið verður þessi áróður borgaður, sú aukaútgáfa af Morgunblaðinu og Tímanum sem á að fara að koma hér út? Aukaútgáfa af Staksteinum sem á að henda í þjóðina eftir nokkra daga? Hvaða fjárlagaliður er það, hæstv. fjmrh., sem stendur undir þessu? Stendur einhvers staðar í fjárlögum ársins 1983 að það hafi verið ættuð ákveðin upphæð til að borga þetta sérstaklega — eða hefur hæstv. fjmrh. samþykkt aukafjárveitingu í þessu skyni? Liggur fyrir að fjmrh. hafi samþykkt aukafjárveitinguna? Ég spyr hann hér og nú: Hefur verið skrifað bréf úr fjmrn. til forsrn. þar sem samþykkt er aukafjárveiting í þessu skyni? Ég óska eftir því að afdráttarlaus svör liggi fyrir — og ég er að spyrja um það hvort þetta bréf hafi verið skrifað nú þegar þessi orð eru töluð kl. 3. 13. október. Ég óska eftir að fá þessar upplýsingar alveg skýlaust — eða er hæstv. forsrh. að eyða af einhverjum lið í forsrn., sem sérstaklega er ætlaður til að gefa út aukaútgáfu af Morgunblaðinu og Tímanum fyrir þjóðina og kasta staksteinum framan í landsmenn? Er hæstv. forsrh. með einhvern staksteinalið í forsrn.? Það hækkuðu grunsamlega mikið útgjöldin á forsrn. í fjárlagafrv. Eru það viðbótarútgjöld við bæklingaútgáfu hæstv. forsrh., aukaútgáfur af Morgunblaðinu og Tímanum og viðbótarútgáfur af Staksteinum Morgunblaðsins framan í þjóðina? Það væri fróðlegt að vita hvort það er svona útgáfustarfsemi sem á að fara að iðka þarna í forsrn. Hefur verið sett á stofn þar einhver deild til að annast blaðaútgáfu eða hefur kannske forsrn. fengið inni á Tímanum fyrir þessa starfsemi eða Morgunblaðinu? Fróðlegt væri að vita hvernig þessu er háttað — eða kannske hjá Framkvæmdastofnuninni?

Ég held að það sé óhjákvæmilegt, þegar rætt er um störf þingsins hér á fyrstu dögum, að þessum spurningum verði líka svarað og það alveg skýlaust. Ég held að við eigum rétt á því að fá um það upplýsingar, þegar verið er að skera niður fé til félagslegrar þjónustu af tilfinningaleysi og hrottaskap, og fram komi hvaða fjármunir það eru sem á að nota til að dreifa áróðri fyrir ríkisstjórnina. Ég óska eftir upplýsingum um það, herra forseti.

Ég vil að lokum segja að ég tel að óhjákvæmilegt sé að fram fari ítarleg umræða hér á Alþingi Íslendinga nú og næstu daga um lýðræði og þingræði og grundvallarreglur þess. Ríkisstjórnin hefur í sumar ekki talið ástæðu til að ræða við stjórnarandstöðuna um eitt eða neitt og stjórnarandstaðan hlýtur að sjálfsögðu að taka þeirri framkomu eins og hún hefur birst og óska eftir því að öll mál verði rædd mjög ítarlega, vandlega, ofan í kjölinn, og það eigi ekki aðeins við um nefndarfundi, heldur einnig fundi í deildum og hv. Sþ., þannig að vandlega verði farið yfir hlutina. Þess hlýtur stjórnarandstaðan að óska og krefjast og vona að núverandi hæstv. forsetar þingsins taki tillit til óska stjórnarandstöðunnar eins og þær birtast á hverjum tíma innan allra sanngirnismarka, eins og ég er sannfærður um að stjórnarandstaðan mun leggja áherslu á fyrir sitt leyti á þessu þingi.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu að sinni.