27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4175 í B-deild Alþingistíðinda. (3554)

214. mál, starfs- og endurmenntun vegna tækniþróunar

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil geta þess í sambandi við þessar umr. og þessa fsp. að á s. l. hausti skipaði félmrh. sérstaka nefnd til að gera úttekt og könnun á áhrifum nýrrar tækni á íslenskt atvinnulíf. Sú nefnd var skipuð að eindreginni ósk frá aðilum vinnumarkaðarins, bæði frá vinnuveitendum og samtökum launafólks, sem hafa vissulega áhuga á þessum málum og vissar áhyggjur af þeirri þróun sem fyrirsjáanleg er í sambandi við þessi mál.

Ég vil geta þess hér að strax þegar þessi nefnd hafði verið skipuð, sem er samsett af fulltrúum tilnefndum af þessum aðilum ásamt formanni sem er skipaður af félmrh., kom í ljós gífurlegur áhugi allra aðila um þetta starf. Það verður miklu víðtækara en menn höfðu gert sér í hugarlund í upphafi. Þessi nefnd hefur starfað skipulega og unnið vel og hún er næstum tilbúin með áfangaskýrslu sem ég hafði hugsað mér að yrði afhent þeim sem áhuga hafa og ekki síst Alþingi, ef hún verður tilbúin fyrir þinglok, sem ég vona.

Nefndin hefur aflað mikilla upplýsinga víðs vegar að. M. a. sótti fulltrúi hennar sérstaka ráðstefnu, þá fyrstu sem haldin hefur verið um þessi mál, þ. e. um áhrif tækninnar á atvinnulíf, á vegum Sameinuðu þjóðanna. Var hún haldin í París. Þar komu fram mjög miklar og góðar upplýsingar. Þá hefur verið aflað upplýsinga frá Norðurlöndunum í sambandi við málið. Mun nefndin að sjálfsögðu taka þær með í skýrslu sinni.

Það gefur augaleið að starf þessarar nefndar spannar yfir allt sviðið, þannig að nauðsynlegt er og sjálfsagt að gott samstarf verði um þá vinnu sem menntmrn. lætur fara fram í sambandi við skólakerfið.

Hér er um þýðingarmikið mál að ræða. Ég vonast fastlega til þess að út úr störfum þessarar nefndar og þeirrar nefndar sem menntmrh. hefur skipað komi nægar upplýsingar svo að fara megi að skipa þessum málum á þann veg að komi að notum bæði fyrir menntakerfið, atvinnulífið og atvinnureksturinn.