27.03.1984
Sameinað þing: 70. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4186 í B-deild Alþingistíðinda. (3571)

247. mál, staða skrifstofustjóra í menntamálaráðuneytinu

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hinn 13. febr. s. l. var skipað í tvær skrifstofustjórastöður í menntmrn. til bráðabirgða til viðbótar við þá skrifstofustjórastöðu sem þar er fyrir og hefur lengi verið. Annar af þessum nýju skrifstofustjórum er Sólrún Jensdóttir sem áður gegndi störfum aðstoðarmanns hæstv. menntmrh. Nokkru síðar, það mun hafa verið 11 dögum síðar, 24. febr., voru þessar tvær stöður auglýstar í Lögbirtingablaðinu og umsóknarfrestur auglýstur til 14. mars. Þessar athafnir hæstv. menntmrh. vöktu strax töluvert mikla athygli í Stjórnarráðinu og vafalaust víðar.

Í lögum nr. 73 frá 1969 um Stjórnarráð Íslands eru skýr ákvæði um með hvaða hætti skrifstofustjóri verði skipaður í ráðuneytum. Þar segir, með leyfi forseta, í 11. gr.:

„Starfsdeild rn. stýrir deildarstjóri undir umsjón ráðuneytisstjóra. Heimilt er að skipa deildarstjóra ráðuneytis skrifstofustjóra þess rn., og tekur hann þá sjálfkrafa við störfum ráðuneytisstjóra í forföllum hans.“

Í þessu tilviki vöknuðu upp þær spurningar manna á meðal hvort hér væri ekki verið að brjóta lög um Stjórnarráð Íslands í fyrsta lagi með því að verið væri að ráða þrjá skrifstofustjóra í sama rn. þótt lögin gerðu ekki ráð fyrir nema einum í hverju rn. og í öðru lagi með því að gera ráð fyrir því að aðrir en deildarstjórar úr rn. gætu komið þar til álita, en þannig er lagaákvæðið. Þar við bætist að í fjárlögum fyrir árið 1984 er engin heimild til þess að ráða fleiri en einn skrifstofustjóra í menntmrn. Alþingi hefur nýlega afgreitt fjárlög og ekki gert ráð fyrir að þar væri bætt við nýjum stöðum. Það hefur því blasað við að ekki væri aðeins verið að brjóta gildandi lagaákvæði heldur væri um leið verið að sniðganga ákvæði fjárlaga.

Hæstv. menntmrh. hefur lítillega vikið að þessu máli í umr. sem urðu hér á Alþingi nýlega utan dagskrár og nefndi þá að hér væri um sérstaka hagræðingu að ræða. Ég hygg að flestir hv. þm. telji að um sérkennilega hagræðingu sé að ræða ef hún felst í því að bæta tveimur nýjum stöðum yfirmanna rn. við þær sem fyrir eru. Ef hagræðing og sparnaður ríkisstj. á komandi ári verður aðallega í þessari mynd þarf enginn að vera undrandi á því þótt víða verði að finna göt í fjárlagadæminu.

Ég vil vekja athygli á því að gangi þessi áform hæstv. menntmrh. fram er hætta á að þau hefðu veruleg áhrif í öllu ríkiskerfinu. Nú er einn skrifstofustjóri í hverju rn., en ef þetta fordæmi yrði skapað yrðu þeir vafalaust orðnir 2–3 í flestum rn. eftir fáein ár.

Daginn áður en umsóknarfresturinn rann út óskaði ég svara við þessum spurningum sem ég er nú að leggja fyrir hæstv. ráðh., utan dagskrár þar sem ég taldi að málið þyldi ekki mikla bið þar sem umsóknarfrestur væri að renna út. Hæstv. menntmrh. fékk fsp. afhentar skriflega daginn áður, en þessar fsp. voru þá eins og nú bornar fram af mér og hv. þm. Ingvari Gíslasyni. Það fór þó svo að hæstv. menntmrh. neitaði að svara þessum spurningum þegar eftir því var leitað og hygg ég að þessi afstaða hæstv. menntmrh. sé nokkuð einstæð í þingsögunni. Ég minnist þess a. m. k. ekki að ráðh. hafi sýnt Alþingi slíka óvirðingu.

Ef ráðh. veit svar við spurningu sem lögð er fyrir hann hlýtur hann að svara henni og þá ber honum að svara henni. Ef hann hins vegar óskar eftir því að athuga málið frekar á hann að segja það og fær þá að sjálfsögðu frest. En að ráðh. geti leyft sér að kalla spurningar utan dagskrár óþinglegar og neitað að fjalla um þær, það er auðvitað af og frá. Það flokkast undir embættishroka sem ekkert þing getur þolað.

Ég hygg að utandagskrárumr. hér á dögunum hafi ekki verið algerlega til ónýtis því að hún hefur komið því til leiðar að hæstv. ráðh. hefur dokað við með að ganga frá þessu máli, enda að sjálfsögðu útilokað með öllu að hæstv. ráðh. geti gengið frá þessu máli og afgreitt það meðan Alþingi hefur ekki fengið svör við spurningum sem fyrir hann hafa verið lagðar um málið.

Spurningarnar sem lagðar hafa verið fram eru prentaðar á sérstöku þskj. Þær eru um það sem ég hef nefnt hér, um lagagildi þessarar ráðstöfunar, en auk þess er spurt um það hvort fjölgun skrifstofustjóra í menntmrn. hafi verið samþykkt í ríkisstj., hvort til álita komi, ef aðstoðarmaður ráðh. sæki um stöðu skrifstofustjóra, að henni verði veitt önnur staðan og í þriðja lagi, ef svo er, hyggst hæstv. ráðh. ráða sér nýjan aðstoðarmann í stað þess sem þá færi í skrifstofustjórastöðu?