29.03.1984
Sameinað þing: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4302 í B-deild Alþingistíðinda. (3675)

186. mál, takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Þáltill. sú sem nú er til umr. er ekki ný af nálinni að því leyti til að málefni þessi hafa oft verið hér til umr., ýmist í tilefni af þáltill., sem áður hefur verið flutt um líkt efni og sú sem nú er á dagskrá, eða vegna fyrirspurna sem bornar hafa verið fram um fjölda manna í sendiráðum hér í Reykjavík.

Ég vil gjarnan rifja upp nokkur atriði í þessum efnum þótt sumt af því hljóti að vera endurtekning af því sem hv. flm. gerði að umtalsefni. Með aðild Íslands að alþjóðasamningnum um stjórnmálasamband, sem gerður var í Vín hinn 18. apríl 1961, og lögum nr. 16 frá 31. mars 1971, sem heimiluðu aðildina og gáfu samningnum lagagildi á Íslandi, var skapaður formlegur grundvöllur til afskipta íslenska ríkisins af m. a. stærð sendiráða hér á landi.

Í 11. gr. samningsins er annars vegar gengið út frá því að gerður sé sérstakur samningur um stærð sendiráðs eða að móttökuríkið geti — þ. e. varðandi sendiráð hér — „krafist þess að stærð sendiráðs verði sett takmörk“, eins og komist er að orði í greininni. Takmörkin skulu þá skv. greininni vera þau er móttökuríkið telur „hæfileg og eðlileg með hliðsjón af aðstæðum og ástandi í móttökuríkinu og þörfum hlutaðeigandi sendiráðs“.

Stærð sendiráða hér á landi hefur verið slík að yfirleitt hefur ekki þótt vera farið fram úr þeirri viðmiðun sem hér er nefnd. Ég hlýt þó að undanskilja að þessu leyti það sendiráðið sem fjölmennast er af erlendum sendimönnum, sovéska sendiráðið. Mér er tjáð að frá árinu 1981 hafi verið miðað við að þar fjölgaði starfsmönnum ekki. Hefur við útgáfu nýrra persónuskilríkja verið gengið úr skugga um að um væri að ræða starfsmenn er kæmu í stað annarra sem væru farnir eða á förum. Með þessu var þó ekki lagt endanlegt mat á það hvort núverandi starfsmannafjöldi sendiráðsins sé nauðsynlegur. Málið hefur verið til athugunar og meðferðar í rn. og samráð verður haft, að sjálfsögðu, við utanrmn. áður en afgreitt verður.

Í þessu efni er rétt að svara fsp. hv. flm. um það hvort notuð hafi verið heimild í lögum til handa ráðh. um að gefa út sérstakar reglur varðandi stærð sendiráða. Sú heimild hefur ekki verið nýtt. En einmitt með tilliti til þess hvort rétt sé að setja slíkar reglur hefur málið verið til athugunar í rn. um nokkurra mánaða skeið.

Rétt er að taka fram að Sovétríkin hafa gert fyrirvara við 11. gr. Vínarsamningsins sem áskilur móttökuríkinu mat á því hvað hæfileg og eðlileg stærð sendiráðs sé. En mörg ríki hafa mótmælt þessum fyrirvara Sovétríkjanna og er talið að þessi fyrirvari sé ekki gildur og hafi því ekki þýðingu.

Hvað húsnæði sendiráða snertir kveður Vínarsamningurinn í 21. gr. á um að móttökuríkið skuli „auðvelda sendiríkinu að afla sér í landi þess, í samræmi við þau lög er þar gilda, húsakynna, sem nauðsynleg eru fyrir sendiráð, eða aðstoða það við öflun húsnæðis á annan hátt“. Enn fremur ber skv. þessari grein samningsins, eins og þar stendur, að „liðsinna sendiráðum við öflun hæfilegs húsnæðis fyrir sendiráðsmenn þess, þegar þörf krefur“.

Öll sendiráð hér, að tveimur undanskildum, hafa skrifstofur sínar í eigin húsnæði og öll eiga viðkomandi ríki sendiherrabústaði sína. Einungis tvö ríki, þ. e. Kína og Svíþjóð, eiga nú þrjár fasteignir, en eitt, Sovétríkin, á fimm fasteignir. Þegar samþykki var veitt fyrir kaupum fimmtu fasteignar Sovétríkjanna í ársbyrjun 1982 var tekið fram í orðsendingu til sendiráðs þess að með þeim húsakaupum litu íslensk stjórnvöld svo á að húsnæðisþarfir sendiráðsins hafi verið leystar á fullnægjandi hátt fyrir fyrirsjáanlega framtíð, eins og þar var komist að orði. Ég skal taka það fram að ég var andvígur þessu leyfi til Sovétríkjanna varðandi kaup á fimmtu fasteign hér í höfuðborginni og lét þá skoðun mína í ljós í utanrmn.

Með lögum nr. 30 frá 22. maí 1980 var í formi breytingar á lögum nr. 19 frá 6. apríl 1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, sett sú regla varðandi fasteignakaup sendiráða að kaupsamninga eða afsöl fyrir fasteignum til afnota fyrir sendiráðsskrifstofur og bústaði forstöðumanna sendiráða eða fasteignum sem þau ríki eignast til íbúðar fyrir aðra starfsmenn sendiráða sinna skal leggja fyrir dómsmrn. og öðlast gerningurinn eigi gildi fyrr en rn. hefur samþykkt hann með áritun sinni.

Að því er framkvæmd laga þessara snertir er það að segja að dómsmrn. hefur markað þá afstöðu að það telji að túlka beri hin nýju lagaákvæði sem að framan getur þannig að ætlast sé til þess að reynt sé að gæta hæfilegs samræmis um húsnæðiskaup milli erlendra sendiráða. Svo og verður að hafa í huga að skyldur til nokkurrar öryggisgæslu aukast með aukinni húseign sendiráða. Jafnframt tók dómsmrn. eftirfarandi fram þegar fjallað var um kaup fimmtu húseignar sovéska sendiráðsins: „Í þessu sambandi verður að geta þess að svo virðist sem að allmiklu misvægi stefni að því er umsvif sendiráðs Sovétríkjanna varðar og telur ráðuneytið nauðsynlegt að hafa þær aðstæður í huga framvegis.“ Var það með hliðsjón af þessari afstöðu sem sendiráðinu var, eins og áður sagði, formlega tilkynnt sú skoðun að síðastnefnd húsakaup fælu í sér lausn húsnæðisþarfa þess um fyrirsjáanlega framtíð.

Við setningu áðurnefndra laga var í grg. m. a. bent á að bæði sé nauðsynlegt fyrir íslensk stjórnvöld að geta sett fasteignakaupum erlendra sendiráða vissar skorður með hliðsjón af 11. gr. Vínarsamningsins, um stærð sendiráða, svo og gera ákvæði 22. og 30. gr. Vínarsamningsins stjórnvöldum mögulegt að hafa hönd í bagga með staðarvali fyrir húsnæði sem sendiráð vilja eignast fyrir starfsemi sína þannig að nauðsynlegri öryggisgæslu verði þar við komið, en sendiráðssvæði njóta friðhelgi eins og kunnugt er. Hvílir skv. 22. og 30. gr. sérstök skylda á móttökuríkinu að gera ráðstafanir til verndar sendiráðssvæðinu og heimilum sendierindreka.

Eins og framangreindar upplýsingar bera með sér eru þegar fyrir hendi í Vínarsamningnum um stjórnmálasamband og íslenskum lögum vissar reglur varðandi stærð sendiráða, þ. e. fjölda starfsmanna og fasteignakaup. Einnig kemur hér fram hvernig mál standa varðandi framkvæmd þeirra. Þessi ákvæði sem þegar eru fyrir hendi geta verið grundvöllur frekara aðhalds íslenskra stjórnvalda í þessu efni eftir því sem eðlilegt og nauðsynlegt væri talið. Eins og ég hef drepið á er jafnframt í lögunum nr. 16/1971, 2. gr., heimild fyrir ráðh. til að setja nánari reglur um framkvæmd laganna.

Ég hef einmitt vegna hugleiðinga um það hvort rétt sé að nýta þessa heimild, sem ráðh. hefur, látið fara fram nokkra könnun á því hvernig hin ýmsu ríki fara með framkvæmd á Vínarsamningnum að þessu leyti, hvað snertir stærð erlendra sendiráða og aðstöðu þeirra. Þessari könnun er ekki lokið, en það sem upplýst hefur verið leiðir í ljós að framkvæmdin er með mismunandi hætti og mörg ríkjanna hafa ekki neinar sérstakar reglur í þessum efnum.

En það breytir ekki því að ég er hv. flm. sammála um það að ég tel að nauðsynlegt sé að fylgjast grannt með stærð sendiráða, aðstöðu þeirra og starfsemi eins og alþjóðalög heimila. Það er að vísu ekki ljóst af því sem fram hefur komið hvaða eða hvers konar frekari reglur flm. þáltill. hefur í huga eða telur rétt að setja, nema ef ég má draga þá ályktun af framsöguræðu hans áðan að hann telji að miða bæri sem næst við gagnkvæmni á sem flestum sviðum, þó þannig að rétt gæti verið að heimila aðeins stærri sendiráð erlendra ríkja hér á landi en við höfum í þeirra löndum.

Ég vil í þessu sambandi láta þá skoðun í ljós að hér verður að fara eftir atvikum og umfram allt gæta þess að hagsmunir Íslands séu ekki fyrir borð bornir. Það getur að vissu leyti verið í samræmi við okkar hagsmuni að erlend ríki hafi hér það starfslið sem nægilegt sé til þess að við getum rekið ýmis hagsmunamál okkar í tengslum við þau sendiráð, ekki síst vegna þess að sendiráð okkar erlendis eru fámenn. Við Íslendingar höfum því miður ekki efni á að hafa þann fjölda starfsmanna í sendiráðum okkar erlendis sem full þörf væri fyrir og verkefni til staðar til að sinna. Að einhverju leyti má bæta úr því með því að reka mál okkar gagnvart viðkomandi ríkjum í gegnum erlend sendiráð hér á landi, þótt ég vilji leggja áherslu á það að við verðum að byggja utanríkisþjónustu okkar erlendis þannig upp að sendiráðin geti sinnt hagsmunamálum okkar og ekki síst snúið sér að ýmsum þeim verkefnum sem orðið geta til þess að greiða fyrir viðskiptum, afla markaða fyrir íslenskar afurðir á erlendri grund. Þannig er ekki takmark í sjálfu sér að fækka starfsmönnum erlendra sendiráða hér ef tryggilega er frá því gengið að verkefni þeirra hér á landi séu ekki í andstöðu við íslenska hagsmuni.

Það læddist að mér sá grunur þegar ég hlýddi á framsöguræðu hv. flm., þótt ég vilji ekki ætla honum annað en góðan og gagnlegan tilgang með tillöguflutningi, að tvennt væri það kannske, í það minnsta samhliða einnig, sem vekti fyrir hv. flm. Það væri annars vegar að þvo hendur sínar og flokks síns af Rússaþjónkun, sem svo hefur verið nefnd og flokkur hv. þm. kenndur við, og í öðru lagi að leggja stund á þá iðju sem hann og hans flokkur er býsna iðinn við, þ. e. að leggja einræðisríki Sovétríkjanna að jöfnu við lýðræðisríki Bandaríkjanna. Þetta kemur fram þegar hann tíundar fjölda í sendiráði Bandaríkjanna hér á landi og leggur það að jöfnu við fjölda starfsmanna í sendiráði sovétríkjanna. Ég held að þarna sé mjög ólíku til jafnað.

Það er ljóst að bandaríska sendiráðið hefur töluvert miklu meiri verkefni en hið rússneska. Hv. þm. gat þess að bæði sendiráðin afgreiddu vegabréfsáritanir til landa sinna. Þúsundir Íslendinga fara til Bandaríkjanna á hverju ári og það er verkefni bandaríska sendiráðsins að afgreiða þær vegabréfsáritanir. Ég hef ekki tiltækar tölur um hve margir Íslendingar fara til Sovétríkjanna á ári hverju en ég efast um að það séu nokkrir tugir og flestir þeirra kannske opinberir sendimenn sem fara þangað í viðskiptaerindum. Það er auðvitað spurning hvort við eigum að taka upp vegabréfsáritanir og krefja Bandaríkjamenn og Sovétmenn um vegabréfsáritanir sem hingað koma til landsins. Ég veit sannast að segja ekki hvernig hinu síðarnefnda er háttað, en í því efni skulum við einnig hafa í huga íslenska hagsmuni.

Við erum að vinna að því að gera Ísland að ferðamannalandi og sú þjóð sem eru iðnust að heimsækja okkur eru Bandaríkjamenn. Við höfum fengið heimsóknir þeirra í þúsundatali og notið góðs af því í öflun erlends gjaldeyris og sköpun starfa hér á landi í því sambandi, að ég nefni ekki flugsamgöngur okkar við umheiminn. Það er spurning hvort við getum óskað eftir því og hvort bandarísk lög heimila Bandaríkjunum að fella niður vegabréfsáritanir sem skilyrði fyrir heimsóknum Íslendinga til Bandaríkjanna. Ég teldi að það væri mjög æskilegt ef það væri unnt en hef þann skilning að það sé Bandaríkjamönnum ekki heimilt skv. lögum í því landi. En það er sjálfsagt að kanna það mál nánar.

Einnig er ljóst að þótt Sovétríkin séu okkur ágætt viðskiptaland eru Bandaríkin stærstu kaupendur að útflutningsafurðum okkar. Mig minnir að Sovétríkin séu í 5. eða 6. sæti. Þar er einnig ólíku saman að jafna.

Ég nefni í þriðja lagi að við erum í varnarbandalagi með Bandaríkjunum og á grundvelli þeirrar sameiginlegu aðildar að varnarbandalagi höfum við gert varnarsamning við Bandaríkin og eðli málsins samkvæmt hefur sendiráð Bandaríkjanna mjög mörg verkefni í tengslum við dvöl varnarliðs Bandaríkjanna hér á landi. Þannig er ekki óeðlilegt að þeir þurfi á starfskrafti að halda til þess að sinna þeim verkefnum. Ég vil þess vegna ekki líta svo á að almennt talað sé unnt að segja að Bandaríkin hafi hér sendiráð sem sé óeðlilega fjölmennt.

Þá nefndi hv. flm. aðbúnað okkar sendiráðs og sendiráðsstarfsmanna í Moskvu og talaði um þann möguleika að við settum sömu hömlur á ferðafrelsi sovéskra sendiráðsstarfsmanna hér á landi og okkar fólk þarf að hlíta í Moskvu. Ég tel það fyllilega koma til athugunar og tel rétt að það sé rætt í utanrmn. Í þeim efnum munu þó vera tiltölulega fá lönd sem hafa gagnkvæmni í þessum efnum. Bandaríkin munu hafa það, en gagnkvæmni Bandaríkjanna og Sovétríkjanna innbyrðis varðandi fjölda starfsmanna er þó þannig að sendiráð sovétríkjanna í Bandaríkjunum er mun stærra en Bandaríkjanna í Sovétríkjunum og mun skýringin m. a. vera erfiðleikar á öflun húsnæðis í Moskvuborg.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þessa till. á þessu stigi málsins. Ég er sammála hv. flm. að eðlilegt er að vísa henni til utanrmn. og ég vonast til þess að í n. sé unnt að ræða málin og bera saman bækur sínar og komast að þeirri niðurstöðu sem hagsmunir Íslands krefjast.