01.11.1983
Sameinað þing: 12. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

Umræður utan dagskrár

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa mér að segja hér örfá orð utan dagskrár.

Síðdegis í gær varð sá hörmulegi atburður að bátur á heimleið úr róðri fékk á sig brotsjó og sökk rétt hjá Bjarneyjum á Breiðafirði. Af sex manna áhöfn komust þrír af en þriggja er saknað. Þó að hér væri um heimabát frá Stykkishólmi að ræða hittist svo á að nokkrir af allra nánustu vandamönnum þess fólks, sem leitað er, eru í fjarlægð, norðanlands og austan. Til þeirra náðist ekki fyrr en seint í gærkveldi, en þá höfðu fjölmiðlar, ríkisútvarp og sjónvarp, greint allnákvæmlega frá umræddu slysi og birt fréttamyndir. Af þeim fréttum mátti glöggt ráða hvaða bát var um að ræða og hverra var saknað. Eindregnum tilmælum sóknarprestsins í stykkishólmi, séra Gísla Kolbeins, um frestun á lestri fréttarinnar í símtali við fréttastjóra Ríkisútvarpsins, — en það símtal átti sér stað milli kl. hálf sjö og sjö síðdegis í gær — var hafnað og fréttin af slysinu lesin með kvöldfréttum kl. sjö, þar sem nafn og númer bátsins var tilgreint.

Í reglum um fréttaflutning ríkisútvarpsins segir svo í 14. gr., með leyfi forseta:

„Fréttir af slysförum skulu ekki fluttar fyrr en ætla má að nánustu vandamenn þess eða þeirra, sem fyrir slysum hafa orðið, viti um atburðina. Ekki er þó skylt að bíða með birtingu lengur en sólarhring.“

Í morgun hittust þm. Vesturlandskjördæmis og ræddu þetta mál. Allir urðu sammála um að í fréttaflutningi af svo viðkvæmum efnum væri bæði rétt og skylt að fylgja þeim reglum sem settar eru til verndar nánustu vandamönnum.

Það eru eindregin tilmæli okkar allra þm. Vesturlands til yfirmanna ríkisfjölmiðla, þ. á m. hæstv. menntmrh. — og raunar ríkisstj., að reynt verði til hins ýtrasta að lúta þeim reglum framvegis sem settar eru til verndar svo viðkvæmum hagsmunum. Ég þakka fyrir, herra forseti.