02.04.1984
Efri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4319 í B-deild Alþingistíðinda. (3686)

196. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. landbn. Ed. um frv. til 1. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán. Mér þykir vert að taka það fram í upphafi að nefndin var sammála um afgreiðslu málsins, en einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma.

Þetta mun vera í fimmta skipti á 20 ára tímabili sem gripið er til þess ráðs að breyta lausaskuldum bænda í föst lán. Það verður að segjast eins og er, að fyrri ráðstafanir sem hafa verið gerðar í þessum efnum hafa tekist vel, þær hafa leyst vanda margra bænda í landinu og að auki hafa þeir sem þarna hafa átt viðskipti ekki orðið fyrir peningatjóni. Þannig hafa verið góðar reiður á þessum viðskiptum þegar yfir sviðið allt er litið.

Það er ekki óeðlilegt þótt grípa þurfi til þess öðru hvoru að breyta lausaskuldum hjá bændum í landinu með þessum hætti og þá sérstaklega þegar á það er litið að í þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað á síðustu áratugum hefur bóndinn sjálfur lagt fram 2/3 hluta fjárfestingar. Það er alveg augljóst mál að það hlýtur að vera einhverjum ofviða að standa við slíka þátttöku í fjárfestingu sem reyndar gengur ekki nema að sáralitlu leyti inn í búvöruverðlagið.

Nú er nokkuð annað viðhorf en verið hefur að þessu leyti. Á það má gjarnan minna að fjárfesting núna, t. d. miðað við síðasta ár, er helmingi minni í landbúnaði en hún var árið 1979. Að sjálfsögðu eru þess vegna þær skuldir sem hafa safnast upp hjá landbúnaðinum að verulegu marki til komnar af öðru. Þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér. Bæði er að það rekstrarumhverfi sem atvinnuvegunum hefur verið búið á síðustu árum hefur snert landbúnaðinn með sama hætti og aðra atvinnuvegi, auk þess hefur verið erfitt árferði og til viðbótar við þetta hafa bændur orðið að draga saman framleiðsluna án þess þó að nokkuð hafi verið gengið til móts við þær ráðstafanir af hendi ríkisvaldsins. Það eru því ærið miklar ástæður fyrir því að greiðslustaða landbúnaðarins er erfið um þessar mundir. Það hefði sannarlega ekki komið mér á óvart þótt ég hefði séð hærri tölur en hér eru upp settar, en samkv. þeim upplýsingum sem fyrir liggja, eins og staða þessara mála var um síðustu áramót, og eftir því var sérstaklega spurt hvort ekki hefðu komið inn margar umsóknir síðan, sem ekki virðist hafa verið, þá er þessi upphæð metin þannig að um 200 millj. kr. fjárþörf sé að ræða og að það séu ca. 600 bændur í þörf fyrir þessar skuldbreytingar. Miðað við aðstæður sem ég hef lýst hér áður, kemur mér nokkuð á óvart að bæði bændafjöldinn og eins heildarfjármagnsþörfin skuli ekki vera meiri en raun ber vitni um.

Það er í samræmi við þessa þörf að í því frv. sem hér er til afgreiðslu eru heimildir víðtækari en áður hafa gilt í hliðstæðum tilvikum. Fram að þessu hefur skuldbreyting fyrst og fremst miðast við fjárfestingu í landbúnaði. Hún hefur verið afmörkuð við ákveðin ár, t. d. þegar vextir hafa breyst eða þegar verðtrygging hefur breyst. Nú er heimildin allmiklu víðtækari og má segja að skuldbreytingin taki yfir hvað sem er í landbúnaði.

Annað er líka breyting frá fyrri ákvörðunum. Það er að ákveðinn hluti skuldanna er greiddur þannig að það ætti að auka mjög viðleitni þeirra sem bændur eru í vanskilum við að ganga til samninga um þessa skuldbreytingu. Þetta hvort tveggja tel ég afar mikilvægt.

Í 2. gr. frv. er kveðið á um hvernig eigi að ákveða kjör á þessum skuldbreytingarlánum. Þar er það sett í vald stjórnar Búnaðarbanka Íslands, en að höfðu samráði við fulltrúa Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands að fengnu samþykki landbrh. Þetta tel ég mikilvæga tryggingu þess að frá þessum lánum verði gengið með þeim hætti að þau komi að gagni þeim sem taka og íþyngi ekki rekstri þeirra úr hófi fram.

Það hefur komið fram við meðferð málsins í landbn. Ed. Alþingis að e. t. v. muni þessi ráðstöfun ekki nægja öllum bændum til að koma fjárreiðum sínum í eðlilegt horf. Þá er væntanlega um það að ræða að þeir eigi ekki veð fyrir þeim skuldum sem þeir hafa nú stofnað til eða þá að búrekstur þeirra sé ekki það stór í sniðum að hann þoli meiri fjármagnskostnað en fyrir er. Um þetta verður ekki sagt að svo komnu máli, m. a. vegna þess að um einstakar lánsumsóknir hefur ekki enn þá verið fjallað á vegum Búnaðarbankans. Menn geta þess vegna ekki gert sér grein fyrir því hverjar þessar stærðir eru fyrr en öll gögn þar að lútandi liggja fyrir, en svo er ekki þegar þessi afgreiðsla fer fram.

Það hefur komið fram að hér væru ekki til staðar heimildir til að aðstoða þann hóp bænda sem skuldbreytingar duga ekki til að hjálpa. Ég teldi óheppilegt á þessu stigi málsins að taka upp umræður um það og raunar útilokað að setja það inn í lagafrv. meðan allar stærðir eru jafnóljósar í þessum efnum og raun ber vitni um. Ég teldi að þetta væri af tveimur ástæðum óheppilegt: Hugsanlega mundu einhverjir þessara manna skáka í því skjólinu að betri leiðir væru til og þar af leiðandi gengju þeir ekki eins eftir skuldbreytingu og ástæða væri til og þeir þyldu. Hin ástæðan er svo sú, að svo gæti farið að það drægi líka úr viðleitni einhverra þeirra aðila, sem bændur skulda nú hjá, til að styðja og vinna að skuldbreytingunni með þeim hætti sem nauðsynlegt er til þess að árangur náist.

Virðulegi forseti. Ég vitna svo til þess, sem ég sagði í upphafi máls míns, að landbn. Ed. var sammála um afgreiðslu þessa máls með þeim fyrirvara sem ég tilgreindi, þ. e. um rétt hvers og eins nm. til að flytja eða fylgja brtt. Mér finnst ástæða til að færa nm. í landbn. Ed. þakkir fyrir greið vinnubrögð í þessum efnum. Það var sameiginlegur vilji allra nm., hvort heldur sem þeir tilheyrðu stjórnarmeirihluta eða stjórnarminnihluta, að hraða afgreiðslu þessa máls. Fyrir það færi ég nm. þakkir.

Að endingu, virðulegi forseti, legg ég til að þetta frv., eins og nál. gerir ráð fyrir, verði samþykkt óbreytt frá því sem það kom frá Nd. Alþingis.