03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4365 í B-deild Alþingistíðinda. (3738)

245. mál, útflutningur dilkakjöts

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég skildi nú ekki alveg það sem ég held að hafi verið aðdróttun í ræðu hv. síðasta ræðumanns þar sem hann talaði um sláturleyfishafa sem þykjast vera með kjöt í geymslum. Ætli það liggi nú ekki nokkuð ljóst fyrir hverjir eru með kjöt í geymslum og hverjir ekki? Sláturhúsin eru misjöfn, það er dýrt að reka þessi dýrustu sláturhús og sláturkostnaður er þar mjög hár. Útflutningsleyfi fæst hins vegar ekki fyrir kjöti nema úr bestu húsunum og okkur hefur verið gert að byggja hús sem svöruðu þeim heilbrigðiskröfum sem gerðar eru í útflutningnum. Jafnvel þó að kjöt sé til í landinu er þess að gæta að mikið af því kjöti sem til er í birgðum er úr sláturhúsum sem ekki fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru ströngust til útflutnings.

Hvað varðar þá sölu sem hér bar aðeins á góma í upphafi, er Selnes hf. taldi sig geta selt í Bandaríkjunum, er rétt að fram komi að það skilaverð sem til bóndans gat komið var lakara en það verð sem Norðmenn borga okkur núna fyrir það kjöt sem við seljum þeim.

Það er fjarskalega mikilvægt fyrir landbúnaðinn að vel sé staðið að sölumálum og síst af öllu vil ég draga úr því að allra leiða sé leitað til að fá sæmilegt verð fyrir afurðir. Og ég fullyrði að það er enginn sem leggur stein í götu þeirra manna sem geta selt landbúnaðarafurðir í útlöndum fyrir betra verð en við fáum á hverjum tíma. Við munum áreiðanlega gráðugir versla við þá sem bjóða hæst verð.

Hvað varðar söluþóknunina þá er ég sammála hv. 4. þm. Reykv. um það að eðlilegra væri að miða söluþóknunina við það verð sem fyrir vöruna fengist. Hvort það væru 5% eða hvað það væri þá er það eðlilegri viðmiðun en að miða við heildsöluverð. Ég vil undirstrika það að það stendur áreiðanlega ekki á bændum að stuðla að því að við getum fengið góða sölu fyrir landbúnaðarafurðir í útlöndum. Það er auðvitað mikilvægt fyrir okkur að reyna að komast út úr þessum óhagkvæmu viðskiptum. Og það er rétt að minna á að bændur hafa stórfækkað sauðfé í því skyni að gera sitt til þess að svo megi verða.