03.04.1984
Sameinað þing: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4367 í B-deild Alþingistíðinda. (3741)

245. mál, útflutningur dilkakjöts

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það eru örfá atriði sem ég vildi víkja að. Í fyrsta lagi sat ég í allmörg ár í markaðsnefnd landbúnaðarins sem reyndi að hafa augun opin og leita að nýjum möguleikum við útflutning landbúnaðarvara. Hún gerði sjálf allmargar tilraunir og var alltaf reynt að ýta undir það að leitað væri möguleika til þess að finna þar nýjar leiðir. Því miður varð reyndin sú að það sem reynt var gaf lakara verð til bóndans en hin hefðbundna leið. En ég vil ítreka það að ég er síður en svo að leggjast gegn því og tel sjálfsagt að reynt sé að leita allra leiða áfram í þessu skyni.

Vikið var að Selnesmáli. Ég þekki það kannske ekki nógu vel en ég var spurður að því munnlega hvert viðhorf mitt væri ef það kæmi svo langt að þeir óskuðu eftir útflutningsleyfi frá hendi Framleiðsluráðs vegna útflutningsuppbóta. Ég taldi vitanlega sjálfsagt að reynt yrði að gefa þeim tækifæri til þess að flytja út með útflutningsuppbótum sem væru hámark þess sem yrði að greiða á öðrum mörkuðum. En ég veit svo ekki frekar hvort á það hefur reynt. Þannig held ég að ekki hafi verið lagður steinn í götu þess.

Ég held að ákaflega hæpið sé að koma með fullyrðingu eins og þá sem hv. 3. þm. Reykn. setti fram. Ég veit ekki til þess að hann hafi neitt í höndunum um þessa fullyrðingu sína. En ég veit að gerð hefur verið könnun til að vita hvort kjötbirgðir væru eins og þær eru upp gefnar. Og það hefur ekki komið annað í ljós en að svo væri. Enda er það vitanlega hagur fyrir eigandann að gefa sem fyrst upp söluna til þess að fá verðið greitt, sem er þá að nokkuð stórum hluta niðurgreiðslur sem hann fær vitanlega ekki fyrr en salan hefur átt sér stað.