02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Örfá atriði í sambandi við það sem fram hefur komið í umr.

Ég er sannfærður um að það er rétt sem hv. 2. þm. Norðurl. e. segir um bensíngjaldið og þess hlut í þeirri hækkun sem orðið hefur á bensínverði, því að sú regla er vissulega rétt sem hann nefndi um að það gjald fylgdi byggingarvísitölu og það rynni óskipt til vegagerðar. Um það er ekki deilt. Hins vegar finnst mér meginatriðið vera það, sem við höfum heyrt undanfarin þing, að bensínið, og ekkert skal úr því dregið, sé nauðsynjavara sem almenningur í landinu sé bundinn af að meira og minna leyti og þurfi að greiða. Og þegar við lítum á hækkun bensínverðsins frá í vor, er hæstv. ríkisstj. tók við, hljótum við líka að bera það saman við hver hefur verið hækkunin á kaupi fólksins í landinu á sama tíma. Þetta er hin eina rétta viðmiðun varðandi þessi mál. (EgJ: Alþb. hefur alltaf notað hana.) Já, sem betur fer hefur það tekist, hv. þm. Egill Jónsson. En þið hafið snúið hlutunum rækilega við. — Af því að hv. þm. greip fram í væri kannske ekki nema gustuk að lesa hér upp, með leyfi hæstv. forseta, örstutta tilvitnun úr vikuriti um erlend viðskipti og efnahagsmál, sem heitir Vísbending og ég hygg að sé óhætt að segja að sé gefið út af mönnum ekki mjög fjarskyldum honum í pólitískum efnum. Þar segir, með leyfi forseta. (Gripið fram í.) Nei. Ég vil ekki fara frekar út í nánari skilgreiningu á því. Þar segir:

„Launahækkanir á næsta ári þyrftu að verða 65– 70% til að kaupmáttur kauptaxta á árinu 1984 nái sama meðaltali og í ár. Kaupmáttur kauptaxta í ár er að meðaltali um 82 miðað við 100 að meðaltali árið 1982.“ Og svo heldur áfram: „Til þess að ná þessum kaupmætti á næsta ári þyrfti að hækka kauptaxta um 18–20% í mars, í júní og í október á næsta ári.“

Þetta segja þeir góðu menn og ég bið Egil Jónsson að lesa þetta og lesa áfram líka. (LJ: Sami kaupmáttur og hvenær?) Til þess að ná sama kaupmætti á næsta ári og var að meðaltali árið 1982.

Hv. þm. Lárus Jónsson ræddi um þjóðartekjurnar og aðgerðir ríkisstj. í því efni. Ég segi að það sem skiptir máli í þessu séu ráðstöfunartekjur fólksins í landinu. Það eru þær sem skipta máli þegar við tölum um hvort þetta fólk hafi ráð á að kaupa ríkisvíxla og skuldabréf. Þær tekjur hafa vitanlega minnkað umfram þjóðartekjurýrnunina. Það er það sem skiptir máli. Það hefur auðvitað verið tekið af launafólki miklu meira en sem nemur því falli þjóðartekna sem orðið hefur og enginn deilir um að orðið hefur.

En til viðbótar þessu, því að um þetta mætti vissulega hafa langt mál, segir hér í grg. með þessu frv., með leyfi hæstv. forseta, og hæstv. fjmrh. kom inn á það áðan:

„Samkv. framansögðu eru því ónýttar eldri heimildir til öflunar ríflega 200 millj. kr. innlends lánsfjár.“ Og hann fór um þetta nokkrum orðum.

Enn eru sem sagt óseld ríkisskuldabréf eða spariskírteini upp á 200 millj., sem ætlaðar voru þó til þess að fjármagna þær framkvæmdir sem í gangi eru og hafa verið á þessu ári. Þegar nú á að bæta ofan á þessa vöntun með þeirri miklu bjartsýni sem hæstv. ráðh. leyfði sér hér áðan, þá spyr maður: Hvað verður þá eða hefur orðið um framkvæmdirnar sem átti að lánsfjármagna með þeim 200 millj. sem enn þá sér ekki fyrir endann á?