02.11.1983
Efri deild: 11. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

59. mál, innlend lánsfjáröflun ríkissjóðs

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara út í almennar umr. um fjárlög né efnahagsmál, en ég hefði gjarnan viljað heyra frá hv. 3. þm. Norðurl. v. framhald upptalningar á erlendum lántökum til annars en fjárfestingar. Auðvitað segir það sig sjálft að ríkisstj. á hverjum tíma hlýtur að taka lán, erlend lán eða innlend lán, til arðbærra fjárfestinga. En hefði hann tekið upp lista yfir þær erlendar lántökur, sem eru nú að knésetja þjóðfélagið, sem eru vegna rekstrar á hinum ýmsu þjónustustofnunum þjóðfélagsins, eða erlend lán til að greiða gatnagerðargjöld Reykjavíkurborgar, fyrir lóðir til ríkisfyrirtækja og ýmislegt annað. Ég ætla ekki að gera þetta að neinu umræðuefni, en bendi á þetta til þess að menn séu ekki að kasta einhverju, sem aðrir geta meitt sig á, úr glerhúsi. En þetta eru umr. sem ekki eiga rétt á sér undir þessum dagskrárlið.

Ég skal reyna að svara þeim sem hafa talað samkv. því sem ég hef punktað niður. Ég vil þá rétt aðeins minnast á það, sem hv. 8. þm. Reykv. sagði, að það hefði átt að kanna markað fyrir þessi skuldabréf ríkissjóðs Íslands áður en til lagasetningar kæmi og frv. yrði lagt fram. Ég held að það sé afskaplega erfitt að kanna slíkt. Hann vitnaði til þeirra sem standa í viðskiptum almennt, að þeir hafi þann sið að kanna markað fyrir vöruna áður en hún er sett á markað. Það vill nú oft verða, að þær vörutegundir sem inn eru fluttar eftir slíka könnun sitja eftir á lager óseljanlegar.

Það er ekkert nýtt. Nákvæmlega sama er með ríkisskuldabréf. Þau vilja stundum sitja eftir. Nýlega er búið að víta hæstv. dómsmrh. fyrir að kanna áður en frv. er lagt fram þörfina fyrir það. Ég sé nú að hæstv. dómsmrh. hefur fengið góðan samstarfsmann og samherja, í því máli a.m.k., því að þar er líklega rétt að farið sé þetta tvennt borið saman.

Hv. 2. þm. Austurl. talaði um hækkun á bensíni og hækkun launa, en hann talar ekkert um lækkun verðbólgu og kaupmáttarskerðingu. Þó að krónutalan standi í stað í launum, þó að hún hafi nú hækkað pínulítið, þá eykst kaupgetan með minnkandi verðbólgu. Eru menn algerlega blindir fyrir því að þeir sem greiða af t.d. húsnæðismálastjórnarlánum næst og bera þá afborgunina saman við síðustu afborgun munu finna mjög mikinn mun þar á? Það mundi ég kalla beina launahækkun. Þetta er staðreynd sem hefur verið reiknuð úf og ég hef áður haldið fram úr þessum ræðustól.

Við höfum síðan þessi ríkisstj. tók við haldið þeirri stefnu sem fjárlagafrv. fyrir 1984 gerir ráð fyrir. Við höfum tekjur af umferðinni til að standa undir þeim vegalögum sem við förum eftir, en þar sem ekki var samþykkt tekjuöflun vegna framkvæmda, sem hér var til meðferðar s.l. vor, varð gat í vegalögum sem er vandamál. Það var kílóagjaldið sem ég hafnaði sem fjmrh. að leggja á þjóðina og ég hef ekki lagt nýtt gjald á í þess stað. Lögum hefur verið framfylgt. Bensíngjaldið hefur verið tekið á sama hátt og á að gera samkv. lögum um tekjuöflun til vegagerðar og það hefur hækkað eins og lög gera ráð fyrir á sama tíma og byggingarvísitalan. Það er ekki mín hækkun. Hitt er annað mál, að mín afstaða til þess gjalds er óbreytt frá því sem hún var áður en ég varð ráðh. Það þarf að finna einhverja aðra leið til að fjármagna vegagerð á Íslandi, og ég skal svo sannarlega reyna að finna leið til að lækka þennan skatt eins og aðra sem ég hef verið að vinna að að lækka. Það er unnið alveg sérstaklega að því í fjmrn. að finna út hvaða skatta er hægt að lækka og hvaða leið er hægt að fara til þess að svo megi verða.

Ég er ekki sammála fyrrv. hæstv. fjmrh. um að ríkisbréf hafi ekki selst vel. Þau eru enn þá til sölu. Ég veit ekki betur. Ég bannaði ekki sölu á þeim bréfum. Ég bannaði ekki sölu á neinum bréfum. Það eina sem ég bannaði var útgáfa á nýjum vísitölutryggðum skuldabréfum á þeim forsendum að við trúum að sú stefna sem ríkisstj. fylgir núna komi til með að lækka lánskjaravísitöluna verulega. Við trúum á það sem við erum að gera og vitum að lánskjaravísitalan á að detta niður í 1% eða 0% um áramótin. Hún er þegar komin verulega niður, eins og verðbólgan, sem er nú 30%. Þá get ég ekki samvisku minnar vegna sett vísitölutryggð bréf á markaðinn og platað fólk til að kaupa þau vísitölubréf í von um að það verði áfram sama ástand og áður var, að vísitalan gæfi einhvern ímyndaðan hagnað, vitandi það og trúandi því að ég sé að vinna að því að útrýma vísitölunni. Þess vegna setti ég það skilyrði að á markaðinn kæmu ný bréf sem væru bundin gengi, það var ákveðið að hafa það bundið við SDR og þá vaxtaákvæðin líklega í samræmi við það sem Alþjóðabankinn ákveður hverju sinni fyrir þann gjaldmiðil, til þess að fólk hefði valkost. Síðan koma ríkissjóðsvíxlarnir.

Ég heyrði að hv. 3. þm. Norðurl. v. tók undir og sagði að þetta væri líklega góð ráðstöfun, ágætt að fólk hefði valfrelsi, en hann hefði enga trú á því að bréfin yrðu keypt, þannig að við erum nokkuð sammála. Og hann tekur undir það frv. sem hér liggur fyrir, enda þekkir hann manna best þörfina fyrir slíkt frv. En hér er eingöngu um þá breytingu að ræða að fólk hefur meira valfrelsi í ávöxtun peninga sinna.

Ég vil líka fagna því að hv. 5. landsk. þm. lítur á þetta sem tímamótafrv., en hann óttast að hér sé verið að hverfa frá íslensku krónunni. Mér er ekki nokkur leið að skilja hvað hann meinar með því. Hér er alls ekki verið að hverfa frá íslensku krónunni. Hér er hún í sínu gildi eins og ávallt áður. Sama má segja að skeði þegar ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar tók upp verðtryggða sparireikninga, ekki sambærilegt að vísu, en sams konar spor er þetta fram á við og þá var stigið. — Og ég vil svara þeirri spurningu hv. 5. landsk. þm., ef hann er að hlusta, að það er ekkert hik á fjmrh. eða ríkisstj. um útborgun á skyldusparnaðinum frá 1978. Það var ekki nokkur leið að skilja orð mín áðan, síðast þegar ég stóð upp, á þann hátt að ekki yrði staðið við þær útborganir. Ég vil undirstrika það.

Ég vil þá svara hv. 11. þm. Reykv., sem spyr: Hvaða ástæðu hefur ráðh. til að ætla að skyldusparnaður skili sér til baka, þ.e. skyldusparnaður sem á að koma til útborgunar? Ég hef enga ástæðu til að ætla að hann skili sér til baka, en ég tók fram, að ég gerði frekar ráð fyrir því að þeir sem eru á þeim aldri og hafa komist vel af án þessa skyldusparnaðar mundu kaupa nýju bréfin. Þetta er betri sparnaður en sparifé í bönkum og bréfin eiga að vera með betri kjörum en önnur bréf, þannig að það væri kannske mestur hagur í fyrir þetta fólk að kaupa ríkissjóðsbréfin nýju frekar en gera eitthvað annað við féð. Ég get þess að ég gerði ekki ráð fyrir að þau skiluðu sér öll til baka. Það er langt frá því. Ýmsir sem þá voru kannske á besta aldri og unnu fyrir háum tekjum eru kannske komnir á eftirlaun, fá lágar tekjur núna og þurfa á þessum peningum að halda til daglegs brúks og til öryggis á annan hátt. En ég er að vona að til viðbótar við þann hefðbundna verðbréfamarkað sem hefur alltaf gilt hér komi nýir viðskiptavinir inn á þann markað vegna útborgananna á skyldusparnaðinum.

Hún spyr um skiptingu á milli málaflokka. Ég er ekki reiðubúinn að svara því hvaða forgangsflokka ég mundi helst vilja styðja, hefði ég frjálsar hendur um það. Þetta eru hefðbundnir málaflokkar og afskaplega erfitt að breyta, en ég er reiðubúinn að setjast niður með hverjum sem er úr stjórnarliði eða stjórnarandstöðuliði til að ræða um möguleika á frekari niðurskurði eða tilfærslu innan málaflokka. Mér er ekki neinn sérstakur málaflokkur öðrum kærari. Aðalatriðið fyrir mig er að reyna að ná niður ríkissjóðsútgjöldum á þessu stigi og vonandi tekst það þannig að við getum haft frjálsari hendur í framtíðinni til að leggja áherslu á mismunandi málaflokka. En hitt er svo annað mál, að eins og við erum 60 þm., þá eru 60 mismunandi áherslur á málaflokka. Það getur aldrei orðið samkomulag um alla.

Þm. spurði líka um þau önnur ráð er ég hefði ef sala þessara bréfa, sem nú eru hér á dagskrá, gengi ekki. Ég tók fram að ég hefði tvö önnur ráð. Það er annað að setjast niður — og ég vona þá að þm. taki vel undir — og skera enn frekar niður ríkisútgjöldin. Ef það bregst sé ég ekki önnur úrræði en að húsbyggjendur verði sjálfir að fresta sínum framkvæmdum. Ég hef enga ástæðu til að gefa neina von um bjartari tíma með öðrum ráðum, ef þetta bregst. Ég væri ekki að gera sjálfum mér né neinum öðrum greiða með því að gefa einhverjar falskar vonir umfram það sem ég get staðið við. Ég vona að ég hafi svarað þm.

Svo er þetta, sem alltaf er yfirvofandi yfir ríkisstj. og ráðherrum: Ef þessi stefna, þessi ákvörðun bregst, þá er sjálfsagt að lofa einhverjum öðrum, sem kunna betur, vita betur og geta betur, að taka við og glíma við vandann. En ég sé ekki tekjumöguleikana. Ég sé möguleikana á að skera niður og herða ólina hvað ríkisútgjöldin snertir og vonandi frekar það heldur en hitt að draga úr aðstoð við húsbyggjendur.

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta. Ef ég svara þeim punktum öðrum sem ég hef tekið hér niður er ég kominn út í almennar stjórnmálaumr. eða þá umr. um fjárlögin sjálf. Ég get því látið máli mínu lokið.