09.04.1984
Neðri deild: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4550 í B-deild Alþingistíðinda. (3918)

27. mál, niðurfelling stimpilgjalda af íbúðalánum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þetta frv. mun hafa verið tekið hér til umr. á föstudaginn var. Ég var þá ekki hér á fundi, hafði tilkynnt það bæði forseta og formanni fjh.- og viðskn. og átti þar af leiðandi ekki kost á því að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hafði við afgreiðslu málsins. Ég hafði þann fyrirvara við afgreiðslu málsins að ég óskaði eftir ýmsum gögnum, m. a. um tekjumissi ríkissjóðs af samþykkt þess og það hversu margir hefðu notað sér þá heimild sem í frv. þessu felst. Þessa beiðni lagð: ég fram fyrir mörgum mánuðum og ég hef ekki fengið svar við henni enn þá. Ég tel ástæðu til þess að þetta komi hér fram. Það mun ekki hafa áhrif á afstöðu mína við afgreiðslu málsins núna þar sem það á eftir að fara til 3. umr. Ég óska eftir því við formann nefndarinnar eða varaformann, hv. þm. Jón Magnússon, sem gegnir því starfi núna, að hann hlutist til um það að þær upplýsingar sem ég hef beðið um út af þessu máli verði lagðar fram svo að eðlileg afgreiðsla fáist á því við 3. umr.

Jafnframt vil ég leyfa mér, herra forseti, að gera aths. hér við síðustu ákvörðun um að senda mál í nefnd. Það er út af fyrir sig rétt, að mál um erfðafjárskatt hafa sjálfsagt iðulega farið í félmn. vegna þess að þau heyra undir félmrn. Hins vegar man ég ekki betur en að frv. um það efni, sem flutt var af hv. þm. Halldóri Blöndal og fleirum, hafi fyrr á þessu þingi verið vísað til fjh.- og viðskn. Það er því ekki samræmi í þessum ákvörðunum deildarinnar varðandi nefndir til að fjalla um erfðafjárskatt. Þetta bið ég hæstv. forseta að taka til athugunar.