09.04.1984
Neðri deild: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4553 í B-deild Alþingistíðinda. (3925)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Frsm. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég held að það væri ástæða til þess þegar þetta mál er hér til meðferðar, sömu dagana og ríkisstj. leitar með logandi ljósi að peningum til að fylla upp í gatið fræga, að hæstv. fjmrh. væri staddur í salnum og ég vil biðja hæstv. forseta um að sjá til þess að hæstv. fjmrh. verði kallaður hingað þannig að ég geti lagt fyrir hann nokkrar fsp. undir meðferð þessa máls.

Ég skila ásamt hv. þm. Kjartani Jóhannssyni sérstöku áliti um þetta mál á þskj. 559 og er nál. á þessa leið: „Undirritaðir nm. telja það einkar táknrænt fyrir vinnubrögð stjórnarmeirihlutans á Alþingi að leggja til staðfestingu á brbl. um afnám álags á ferðamannagjaldeyri sömu dagana og stjórnarliðið leitar logandi ljósi að öðrum sköttum til þess að fylla upp í ríkissjóðshítina. Ríkisútgjöldin eru nú stærri hluti þjóðarframleiðslunnar en nokkru sinni fyrr.

Afnám álags á ferðamannagjaldeyri var vitaskuld ótímabært á sama tíma og félagsleg þjónusta er skorin niður. Full heimild var í lögum til álagningar gjalds þessa út árið 1983 og engin brýn nauðsyn bar til þess að fella gjaldið niður. Minni hl. fjh.- og viðskn. hefur gengið ítrekað eftir upplýsingum um formlegar kröfur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi niðurfellingu gjaldsins. Hefur komið fram að engin bréfaskipti liggja fyrir um þessi efni, þannig að krafa Atþjóðagjaldeyrissjóðsins um niðurfellingu gjalds þessa réttlætti á engan hátt setningu brbl.

Ég vil skjóta því hér inn í, að strax og málið kom fyrir í fjh.- og viðskn. Nd. óskaði ég eftir afritum af bréfum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til fjmrn. eða viðskrn. um mál þetta. Skjalaverðir þessara ráðuneyta leituðu með logandi ljósi í gögnum sínum að því hvort þar mætti finna einn einasta staf þar sem þess væri krafist að fella gjald þetta niður. Það fannst ekki. Og þrátt fyrir eftirgangsmuni í allan vetur hefur ekkert fengist fram um að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi nokkurn tíma formlega farið þess á leit í bréfum að gjald þetta yrði fellt niður. Hins vegar lá fyrir að talsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem koma hingað einu sinni á ári til að gefa skýrslur og skrifa skýrslur um efnahagsmál, nefndu þetta eins og í framhjáhlaupi í viðtölum við ráðh. fyrrv. stjórnar aftur og aftur, en það var greinilegt að af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fylgdi málinu enginn þungi af neinu tagi. Það er því hreinn fyrirsláttur, sem fram kemur í máli hv. 1. þm. Suðurl., að hér hafi verið um að ræða mjög alvarlega kröfu af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. — Síðan segir hér í nál. minni hl.:

„Auk þess hlýtur slík skattlagning að vera á valdi ríkisstj. Íslands hverju sinni og Alþingis og óeðlilegt er að bera kröfur erlendra stofnana fyrir sig í þessum efnum, en það hefur verið ein meginmálsástæða ríkisstj.

Eins og kunnugt er var því borið við aftur og aftur s. l. sumar af hálfu hæstv. fjmrh. að það væri nauðsynlegt að fella þetta gjald niður vegna þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði krafist þess. Ég tel að með þessari afstöðu sinni hafi hæstv. fjmrh. í rauninni verið að segja að skattlagningarvald á Íslandi geti verið í höndum útlendinga í ákveðnum tilvikum. Ég tel að þessi röksemd af hálfu íslensks ráðh. sé í rauninni algerlega ósæmileg og ég tel fulla ástæðu til að mótmæla henni sérstaklega hér. Auðvitað hlýtur það að vera á valdi íslenskra stjórnvalda hverju sinni hvernig þau haga skattlagningu á vörum og þjónustu hér innanlands. Þar á ekki að fara eftir fyrirskipunum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða öðrum slíkum alþjóðlegum stofnunum.

Í nál. minni hl. segir síðan:

„Í fjárlögum ársins 1983 var gert ráð fyrir að innheimta 75 millj. kr. af gjaldi þessu á s. l. ári. Miðað við breyttar gengisforsendur — er ríkisstj. felldi gengið á miðju s. l. ári — má hins vegar gera ráð fyrir að gjald þetta hefði gefið í ríkissjóð 100 millj. kr. árið 1983. Þegar gjaldið var fellt niður í júlímánuði nam innheimta þess um 58 millj. kr. og má því áætla tekjutap vegna niðurfellingarinnar á s. l. ári 40–50 millj. kr. Í ár (1984) hefði gjald þetta gefið í tekjur handa ríkissjóði (skv. lauslegri ágiskun fjárlaga- og hagsýslustofnunar) um 130 millj. kr. þannig að samtals nemur tekjutap ríkissjóðs vegna niðurfellingar þessa gjalds um 170-180 millj. kr. frá því að það var fellt niður til loka ársins 1984. Eðlilegra hefði verið að nota þessar tekjur til þess að tryggja lífsnauðsynlega þjónustu við aldraða og öryrkja en að fella gjaldið niður,“ segir enn fremur í nál. „Auk þess verður útgáfa brbl. í þessu skyni að teljast á ystu brún þess sem eðlilegt má telja þar sem engar sannanir liggja fyrir um að brýn nauðsyn hafi verið á að fella niður gjald þetta eins og kveðið er á um í stjórnarskránni.

Nú er ríkisstj. önnum kafin við að setja saman frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna óreiðunnar sem skapast hefur í yfirstjórn ríkisfjármála undir forustu núv. ríkisstj. Er það einkar athyglisvert að meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. skuli sömu dagana knýja mál þetta fram til staðfestingar.

Með tilliti til málsatvika allra tetur minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. því rétt að frv. þetta um staðfestingu á brbl. um afnám álags á ferðamannagjaldeyri verði fellt.

Guðrún Agnarsdóttir, þm. Samtaka um kvennalista, er samþykk þessu nál.

Alþingi, 4. apríl 1984.

Kjartan Jóhannsson.

Svavar Gestsson.“

Í framhaldi af þessu máli og í tengslum við það vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað líður undirbúningi ríkisstj. að framlagningu frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna þess gífurlega halla á ríkissjóði, sem hann gerði grein fyrir fyrir nokkrum vikum? Mér var tjáð af formönnum stjórnarflokkanna, hv. þm. Þorsteini Pálssyni og hæstv. forsrh., fyrir einni eða tveimur vikum að frv. um þetta efni væri væntanlegt í þingið alveg næstu daga. Það bólar ekki á því enn og það er hver höndin uppi á móti annarri í stjórnarliðinu skv. þeim fregnum sem borist hafa í blöðum, m. a. í málgögnum ríkisstj. Í málgagni Framsfl. er skýrt frá því núna fyrir helgina að þær ráðstafanir sem hér er um rætt muni þýða um 4–6% skerðingu á kaupmætti ráðstöfunartekna almennings, en til samanburðar skal á það bent að verkalýðssamtökin og Vinnuveitendasambandið sömdu um 5% kauphækkun 21. febr. s. l. Það er með öðrum orðum bersýnilega á döfinni að skerða verulega þá kauphækkun sem um var samið af verkalýðssamtökunum núna fyrir nokkru, sem sumir talsmenn ríkisstj. töldu þó að væri innan þess sem kallað var hófleg mörk. Alþýðusambandið hefur þegar sent frá sér yfirlýsingu, þar sem talað var um að slík skattlagning af hálfu ríkisstj. væri griðrof á verkalýðssamtökunum og ég held að það sé nauðsynlegt að halda því til haga einmitt hér.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Hvenær er þess að vænta að frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og í öðrum efnahagsmálum komi fyrir þingið? Verður það í þessari viku eða er við því að búast að málið komist ekki til meðferðar fyrr en eftir páska? Heyrst hefur að það sé ætlun stjórnarmeirihl. að þinginu verði frestað um næstu helgi. Það væri einnig fróðlegt og er kannske fróðlegt fyrir hv. þm. að taka eftir því og mér er ekki kunnugt um að það liggi neitt samkomulag fyrir um það enn, hvernig þinghaldi verður hagað til páska eða eftir páska. Ég tel að það sé tímabært, svo að ekki sé meira sagt, að gengið verði frá samkomulagi um það efni hér í þinginu. — En ég vil sem sagt spyrja hæstv. fjmrh.: Hvenær má vænta þess að frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum og öðrum efnahagsmálum komi fyrir þingið?