09.04.1984
Neðri deild: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4556 í B-deild Alþingistíðinda. (3926)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla helst að sleppa við að lesa ræðu mína frá því að ég lagði fram frv. það sem hér er til umr., frv. til l. um afnám laga nr. 81 frá 23. des. 1980, um álag á ferðamannagjaldeyri. Ég vil aðeins taka það fram að hvergi kemur fram í minni ræðu — ég er með hana hér skrifaða — að Alþjóðabankinn hafi gert kröfu til þess að þessum skatti yrði aflétt. Hitt er annað mál að fram kemur að gjaldið hafi verið heimilað til bráðabirgða og síðan endurnýjað þannig að það segir sig sjálft að ætlast var til þess að þessu gjaldi yrði létt af til þess að Íslendingar einir þjóða væri ekki á undanþáguákvæðum frá gjaldeyrisbankanum.

Þær ráðstafanir sem verið er að vinna að um lausn á þeim efnahagsvanda sem er í prósentutölum miklu lægri en verið hefur um undanfarin ár því að það er vandamál sem við höfum verið að glíma við og kallað er hið fræga gat upp á væntanlega 10% af niðurstöðutölum gjalda fjárlaganna. Það er þó sennilega 2/5 af því sem það var s. l. ár og lægra en það var 2–3 árin þar áður. Þannig voru veitt um 25% með aukafjárveitingu árið 1983. Þessi vandi sem við sjáum fram undan gæti hugsanlega orðið um 10%. Ég vona að það séu réttari vinnubrögð að reyna, eins og kom fram í frægum ræðum milli núv. heilbrrh. og fyrrv. þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur, að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann. En sem sagt, þetta er vandi sem við sjáum fyrir og það er reiknað með að aukafjárveitingar yrðu um 10% þegar að áramótunum kemur, þegar reikningnum er lokað. Það er ekki vandi sem við erum komnir út í í dag. En lausn þessa vanda er vonandi í dag eins og hún var í gær á næsta leiti.

Ég hef svarað tillögum sem fram komu frá forsrh. nýlega, með nýjum tillögum frá mér. Þetta er í athugun og á meðan menn tala saman og reyna að finna lausn get ég ekki dagsett, hvorki upp á dag né klukkutíma, hvenær frv. verður lagt fram. En öll ummæli, sem kunna að koma fram í Tímanum, jafnvel þó að þau kæmu fram í Þjóðviljanum, eru ágiskanir og ég bið hv. þm. að fara ekki of mikið eftir þeim.