09.04.1984
Neðri deild: 72. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4556 í B-deild Alþingistíðinda. (3927)

23. mál, afnám laga um álag á ferðagjaldeyri

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. með fyrirvara í þessu máli. Sá fyrirvari er af tveimur orsökum. Annars vegar vegna þess að ég álít að þetta mál hafi alls ekki gefið tilefni til setningar brbl. Ég lít svo á að taka eigi alvarlega þá grein stjórnarskrárinnar sem leggur ríkisstj. þá skyldu á herðar að meta stranga nauðsyn slíkrar lagasetningar ef hún kemur til umr. Það var alls ekki sú brýna þörf í þessu efni í júní s. l. að það væri tilefni til að setja brbl.

Í öðru lagi tel ég að upplýsingaskyldu rn. hafi ekki verið sinnt í þessu máli. Það voru margítrekaðar óskir til viðskrh. um að fá upplýsingar um bréfaskipti við útlendinga sem vitnað hafi verið til. Því hefur ekki verið sinnt. Hins vegar er ég efnislega fylgjandi því að afnema álag á ferðagjaldeyri vegna þess að ég tel í fyrsta lagi að tvöfalt gengi leiði til brasks með gjaldeyri og ég held að það hafi gerst á þeim tíma sem þetta álag á ferðagjaldeyri var. Í öðru lagi skiptir það menn miklu máli að þetta álag á ferðagjaldeyri tekur ekki einungis til einhverra skemmtiferða einangraðs eða útvalins hóps. Það tekur í fyrsta lagi til skemmtiferða fjölda fólks. Það tekur í öðru lagi til hvers konar viðskiptaferða. Það tekur til styttri námsferða og styttri námsdvala erlendis, þ. e. þeirra námsferða og námsdvala sem ekki flokkast undir 6 mánaða skólanám. Ég tel að fjarlægð okkar frá meginlöndum heimsins og stærstu upplýsingalindum og menningarsvæðum sé okkur nægur þrándur í götu þó að skattheimta af hálfu ríkisvaldsins komi ekki þar að auki. Þess vegna er ég efnislega samþykkur því að fellt sé niður álag á ferðagjaldeyri. En ég tel að það hefði átt að gerast með venjulegum flutningi frv. í okt. þegar þing var sett.

Varðandi tekjutap ríkissjóðs af þessum sökum er greinilegt að ef 10% álag hefði verið tekið upp á ferðagjaldeyri nú í dag fyrir árið 1984 hefði það haft veruleg áhrif á sumarleyfisáætlanir fjölda fólks því að fjöldi fólks hefur þegar gert sínar áætlanir um sumarleyfi og það er bókað í fjölda ferða. Ég tel að ekki sé við hæfi að skella svona skatti á nú með litlum fyrirvara.