11.04.1984
Neðri deild: 73. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4660 í B-deild Alþingistíðinda. (4051)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Er hæstv. fjmrh. í húsinu? Mig langaði einungis að minnast á mjög lítinn hluta þessa stóra og flókna máls og beina spurningu til hæstv. fjmrh.

Heilbrigðisyfirvöld, foreldrar og skólamenn hafa haft miklar áhyggjur á undanförnum árum af neysluvenjum barna og unglinga. Peningum hefur verið varið til að gera kannanir um þessi mál og leiddu niðurstöður þeirra í ljós að rík ástæða væri til að hafa áhyggjur af því hve lítið næringargildi sú fæða hefur sem mörg börn og unglingar neyta, einkum á morgnana áður en þau fara í skóla og fyrri hluta dags. Er þá aðallega um að ræða óhóflega neyslu á sælgæti og gosdrykkjum á kostnað næringarríkari og hollari fæðu. Viðbrögð við þessum niðurstöðum voru að vinna að því og tryggja það að börnum stæði til boða hollari og betri fæða í skólunum. Er nú á boðstólum ágætis skólanesti í grunnskólum og er það vel.

En nú bregður svo við að hæstv. fjmrh. tekur til bragðs að vinna gegn þessu uppbyggilega og jákvæða starfi með því að stuðla að lækkun verðs á sykurvatni sem að sjálfsögðu mun örva kaup á slíkum drykkjum á kostnað annarra og miklu hollari. Maðurinn er það sem hann etur, stendur skrifað einhvers staðar og ég spyr: Eigum við ekki að byggja börnin okkar upp á haldbetra og næringarríkara fæði en sykurvatni? Þurfum við ekki dugmeira fólk en sætindaætur til að erfa þetta land? Nú hef ég heyrt að hæstv. fjmrh. má skv. lagaheimild gera þær undanþágur sem honum sýnist og ég ætla ekki að væna hann um lögbrot. En það sem mér leikur hugur á að vita og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. um: Hvers vegna í ósköpunum valdi ráðh. að stuðla að frekara gosdrykkjaþambi barna og unglinga sem hlýtur að verða á kostnað annarra og hollari svaladrykkja?