12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4702 í B-deild Alþingistíðinda. (4102)

268. mál, framburðarkennsla í íslensku

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um framburðarkennslu í íslensku og málvöndun. Meðflm. eru hv. þm. Halldór Blöndal og Ólafur Þ. Þórðarson, Kolbrún Jónsdóttir, Jón Baldvin Hannibalsson, Geir Gunnarsson og Þorsteinn Pálsson.

Mörgum hefur þótt síga á ógæfuhliðina í íslenskri tungu nú um nokkurt skeið og það er ekki að ástæðulausu að fjölmargir fræðimenn í íslensku og áhugamenn um málvernd hafa haft miklar áhyggjur af þróun íslenskrar tungu.

Í grg. með till. er fjallað um ástæður fyrir mikilvægi þáltill.

Íslenska þjóðin átti snemma því láni að fagna að fóstra afburða sagnaritara og mikil skáld. Eddur og ættarsögur urðu arfur hinna óbornu, Mímisbrunnur kynslóðanna. Þegar erlend tungumál hafa herjað á þjóðina hafa Íslendingar snúist til varnar máli og menningu. Á 400 ára afmæli Guðbrandsbiblíu er ekki úr vegi að minnast þess hve prentun Biblíunnar og boðun kristinnar trúar á íslensku stuðlaði að vernd íslensku tungunnar. Hún á nú undir högg að sækja og að henni er vegið úr ýmsum áttum. Þar eigum við sjálfir ekki síst hlut að máli. Mikil ástæða er til að vera vel á verði á tækniöld, þegar erlend áhrif flæða út og suður um allar jarðir, ef við ætlum ekki að verða eins og rótlaust þang í hafsjó þjóðanna.

Í viðtölum við fjölmarga íslenskufræðinga á síðustu vikum um framburð íslenskrar tungu og málvöndun almennt lögðu þeir allir ríka áherslu á hvílíkt stórmál það væri, í orðsins fyllstu merkingu, að stinga við fæti, snúa vörn í sókn. Nokkrir sérfræðingar töldu að íslensk tunga væri orðin svo brengluð, bæði í rit- og talmáli, að varla yrði unnt að hreinsa hana nema með samstilltu átaki og markvissu. Þá væri mögulegt að snúa við blaðinu, og mætti ekki undan dragast.

Íslensk tunga er dýrmætasti fjársjóður okkar og greinir okkur frá öllum öðrum þjóðum. Hún er nátengd sjálfstæðisbaráttu okkar og því er varðveisla hennar eitt mikilvægasta þjóðræknismál okkar. Hún er undirstaða samhengis íslenskrar menningar og veitir okkur ómetanlega hlutdeild í fornum arfi, enda getur sérhver Íslendingur lesið fornan texta án erfiðleika. Ísland byggðist vegna þess að hluti Norðmanna vildi ekki lúta ofbeldi. Þeir tóku með sér út hingað dýrmæta tungu sina, efldu hana og ræktuðu, meðan hún dó austan hafs. Nú er hún kjölfestan í menningu okkar og bókmenntirnar sá þáttur hennar sem hæst hefur borið. Án þessara megineinkenna íslensks þjóðernis er vafamál hvort á okkur hefði verið hlustað, til að mynda í landhelgisdeilum. Við höfum tapað áttum í lestri og framburði, áherslur eru að brenglast. Sem dæmi um breytingar í þungaáherslum má nefna eftirfarandi orð: ráðherra, ríkisútvarpið, sameining, stjórnmálaflokkar og þingfulltrúar, orð þar sem áherslan hefur færst yfir á seinni lið orðsins. Enn má nefna óeðlilegan sönglanda í lestri margra á opinberum vettvangi. Talað er hratt, óskýrt og með orðalagi og orðaforða sem nær engri átt.

Það er sorgleg og stórhættuleg staðreynd að íslenskan er nú æ meir töluð með erlendum framburði og framburðaráherslum, svo að úr verður algert hrognamál. Mest er þetta áberandi hjá ungu fólki og stundum er ekki hægt að skilja fyrr en í þriðju eða fjórðu lotu hvað verið er að segja. En þetta er þó einnig ótrúlega algengt hjá fólki á ýmsum aldri. Þá hefur stóraukist notkun erlendra orða í málinu, mest enskra, og á það bæði við um daglegt mál, sem þar af leiðandi er erfitt að kalla mælt mál, og einnig í sambandi við nöfn á fyrirtækjum. Mál er að linni.

Með leyfi forseta: „Við þurfum að leggja mun meiri áherslu á mælt mál og það má alveg eins kenna málfræði í mæltu máli“, sagði Helgi Hálfdanarson rithöfundur í samtali við mig um þessi mál. Og hann hélt áfram:„Tungan og æskan eru okkar dýrmætasti efniviður, en það er aðeins einn og einn kennari sem gerir sér far um að bæta málfar nemenda sinna. Í heild er þetta skipulagslaust. Það er sífellt lagt meira og meira upp úr hraðlestri í skólum, en þarna verða að koma þáttaskil. Eftir þriggja ára nám barna þarf að leggja meiri áherslu á betri framburð, bæði í tali og upp úr bók, ekki skylduframburð í öllum atriðum, heldur þannig að hver mállýska sé töluð eins vel og unnt er með einkennum sínum. Skólinn er of hlaðinn af mörgum námsgreinum og þá er spurningin hvað er mikilvægast fyrir þroska mannsins? Menningarlegt málfar er höfuðatriði.“

Í mjög athyglisverðri grein í Morgunblaðinu 14. jan. s. l., „Viltu vera mem?“ eftir Matthías Johannessen skáld og ritstjóra er fjallað um stöðu og stefnu íslenskrar tungu og borin m. a. saman þróun í íslensku og norsku. En tilefni greinar Matthíasar er heimsókn hans til Noregs og hvernig Íslendingur er þar sífellt minntur á uppruna sinn. Matthías Johannessen segir, með leyfi forseta:

„En það sem Íslendingi verður þó helst til umhugsunar á ferð um Noreg er tungan, þessi framlenging tilfinninga og hugsana forfeðra okkar; þessi farvegur sameiginlegra erfða og uppruna.

Það er mikilvægt fyrir Íslendinga að ferðast um söguríkar byggðir Skandinavíu og gera sér grein fyrir forsendum tilveru sinnar og þeim arfi sem ein kynslóð hefur tekið við af annarri. Það hefur eik, er af annarri skefur, segir í Eddukvæðunum. Þannig getum við einnig rifjað upp sögu Ólafs Tryggvasonar sem stofnaði Þrándheim þegar við stöndum við bryggjuhúsin við Nið og hugsum til þeirra kirkjuhöfðingja sem hingað sóttu púðrið í andleg skothylki sín. Í Björgvin getum við barið Hákonarhöllina augum og minnst þess konungs sem reisti hana og stjórnaði Íslandi eftir 1262. Og svo getum við skroppið til Lundar, Brima og Kaupinhafnar og höfum þá komið til fimm höfuðborga Íslands á einu bretti. Í Lundi stóð Jón Ögmundarson undir grásvartri hvelfingu dómkirkjunnar og söng svo fagurlega að erkibiskup leit aftur ásamt kórbræðrum til að sjá hvaða söngfugl var kominn í þennan griðastað kaþólskrar menningar og hafði erkibiskup þó forboðið bræðrum sínum að líta um öxl undir aftansöng á hverju sem gengi.

En mikilvægast er þó að sjá svart á hvítu hvernig norrænt mál hefur flosnað upp í þessum löndum og breyst á löngum tíma í skrýtnar mállýskur. Þó eimir eftir af íslensku sums staðar í Noregi, sauirnir mínir, sagði norskur bóndi við mig í Sogni. Tað veit ég ekkji, sagði ung stúlka, þegar ég spurði hvenær næsta ferja færi. En kynni af málþróuninni á Norðurlöndum brýna og vekja okkur til meðvitundar um þá skyldu að standa vörð um tunguna því að án hennar yrðum við Íslendingar ekki annað en rótlaus flökkuþjóð án einkenna, forsendulaus í upplausn og rótleysi samtímans.

Það sem áður hét Bergheimur í Noregi er nú kallað Bærum. Og það sem hét Sæheimr á fornri norskri tungu er nú kallað Sem. Rjúkandi er orðið að Rjúkan, segir Þórhallur Vilmundarson í Grímni. Sæheimsvatn er nú Semsvatn. Ég hélt í fyrstu að þetta væri úr syndaflóðssögu Nóa: Sem, Kam og Jafet. Slíkt afhroð hefur tunga feðra okkar goldið í aldanna rás austur þar, að því er málfróðir menn sögðu mér. Haraldur krónprins býr á setri sínu við Asker og heitir nú Skaugum. Það er komið úr þágufallsmyndinni Skógheimum og hefur þannig eins og margt annað í norskri tungu farið veg allrar veraldar og engu líkara en frændur okkar í Skandinavíu hafi glatað þessu megineinkenni sínu, tungunni, vegna þess að þeir nenntu ekki að bera hana fram; eða hirtu ekki um það. Og nú er svo komið að enginn veit, hvað Bærum eða Sem eða Skaugum merkir, eða þau óteljandi orð önnur sem afbakast hafa með sama hætti. Vesalings heiðlóan á Dofra er orðin að skrípamyndinni: heiló. Ekki hefði höfundur Konungs skuggsjár, norskur maður á 13. öld, sætt sig við svo lausbeislaða þróun tungu sinnar og hefur hann þó áreiðanlega verið nákunnugur ýmsum mállýskum í Noregi um sína daga.

Það er svo sannarlega ástæða til að draga alvarlegar ályktanir af málþróuninni í Noregi og kenna unglingum að tala íslensku í skólum og gera kröfu til þess að þeir tali einnig íslensku sem á annað borð þykjast fjölmiðlafærir. Það er ekki einasta að menn séu farnir að „myndsegulbandvæða“ íslenska tungu, heldur heyrist nú æ oftar a fyrir æ, u fyrir au og u fyrir ö svo að dæmi séu tekin. Einhver talaði nýlega um hustbrim, hufuð og hufunda, annar um fut, narbuxur og djúpa lagð við Granland, enn annar um suluvöru og miviggudag. Innan skamms verður íslensk tunga horfin og Skaugum, Bærum og Sem tekið við ef ekki verður aðhafst. Í besta falli að barnamál verði alls ráðandi íslenska. Krakkarnir segja hver við annan: Viltu vera mem? sem merkir: Viltu vera með mér? Barnamál. það er sök sér. En vonandi verður barnamál ekki sú eina íslenska sem töluð er, þegar fram líða stundir. Það verður ekki undir neinum öðrum komið en okkur sjálfum. Við skulum láta okkur nægja Sálminn um blómið og þá upphöfnu ritsnilld, sem þar hefur vaxið úr ómótaðri veröld barnsins. Lassfossar, Gard-loftur, reröu og rykkrussa eru spaugileg og vandmeðfarin blæbrigði úr þessari ævintýraveröld.

Miklar umræður hafa sem betur fer farið fram í bæði Lesbók og Morgunblaðinu um íslenska tungu. Ungur íslenskukennari, Sverrir Páll Erlendsson, skrifaði til að mynda stórathyglisverða grein, Mál er að mæla . . ., í Morgunblaðið 13. des. 1983. Hún er alvarleg varnaðarorð um þá hættu, sem tungu okkar stafar af þeirri flatlendisþróun, sem nú á sér stað, ekki síst í sambandi við áherslur og framburð. Ef við stingum ekki við fæti, gerum harðar kröfur til alþm., fjölmiðla, kennara og sjálfra okkar (heimila barna og unglinga), dagar íslenska tungu uppi eins og austanhafs, þar sem hún varð að steini eins og fyrrnefnd dæmi sýna. Sverrir Páll bendir á mjög óhugnanleg hættumerki, raunar svo hroðaleg að við verðum að fara að kenna framburð í útvarpi, sjónvarpi og skólum, ef við ætlum ekki að verða viðskila við arf okkar og menningu. Og hvað eigum við þá eftir? Þorsklaust haf og verðlitla orku, eins og nú blasir við. Dæmi um hættumerki: lög unga fólsins. Frandi minn sem er laknir hann á jappa sem er graddn. Kvattllara geráttir? Dassgrá útvarps, þissgaland, kjarrlekur, flittaðér, leiktu vimmig. Svo að ekki sé nú talað um það, hvernig farið er að flytja aðaláherslu orða, eitt helsta einkenni íslenskrar tungu, af fyrsta atkvæði á annað, þriðja eða jafnvel fjórða atkvæði: verðbólguáhrif, suðvestan, verðbólgan, verðbólguáhrifin o. s. frv. Ég lýk svo þessum þætti hugleiðinga eftir Noregsför með samtali sem Sverrir Páll Erlendsson fullyrðir, að sé nútíma íslenska:

Hæ.

Hæ.

Hvaseiru?

Gottbra.

Kvattlara faráttir?

Kvasseiru?

Kva attlara fará ettir?

Kvarta seia mar?

Kva attlaru a fara, seiég.

Ég skiligi hvaðúrt a reina seia.

Djösis ass nertu.

Ertigi meiru?

Láttigi sona.

Reindu bara tala harra.

Ég heirigi almila íðér.

Ég gedigi tala harra.

Herðannas.

Attlariggjað koma uppidir mokkur?

Ég veidigi. Já vísta fara til lakknirs.

Akkuru? Er eikk vaðér?

Érme verki maganum.

Íllt íonum?

Obb oss la.

Ve sen. Á éa koma meðér?

Nei, é reddus alveg. Ég bara kemstigi uppidir mukkur meðan ér hjáðussum lakknir.

Gedurigi komiðá bará ettir?

Jú, ábiggilega.

Ókei. Vertu ðáigi leingi.

Neinei.

Altilæ, séðigðá.

Ókei, bæðá.

Blesar.

Helgi Hálfdanarson segir í niðurlagi greinar sinnar um málrækt (Morgunblaðið 3. jan. 1984), að þau tvö boðorð sem þar skipti mestu máli séu: íhaldssemi og gífurleg íhaldssemi. Hann hefur oft verið útvörður, þegar íslensk tunga hefur þurft á að halda. Ég læt mig að vísu litlu skipta, hvort við sunnlendingar segjum taga og láda, en norðlendingar taka og láta. Slíkt eru engin óeðlileg blæbrigði á tungu sem er að þróast á vörum lifandi fólks, auk þess sem sunnlendingar geta vart lært harðhljóðin, svo að rétt sé, frekar en norðlendingar hvhljóðið. Sunnlendingur næði ekki réttri röddun í orðum eins og stúlka og mjólk, auk þess sem slíkur framburður yrði tilgerðin einber. Slíkt getur engum sköpum skipt, a. m. k. ekki ef við þekkjum okkar vitjunartíma og komum með kennslu og ákveðni í veg fyrir að láda verði la og taga verði ta eins og í frændþjóðamállýskum okkar og Helgi bendir á. En slík þróun væri að vísu í ætt við efni þessarar ferðagreinar frá Noregi. En ráðumst fyrst að helstu hættunum eins og flámælinu á sínum tíma. Blæbrigðin eru skemmtileg tilbreyting, ef þau eru innan hóflegra marka.

Mállýskutilbrigðin í Noregi eru einu eftirlegukindur fornrar norrænnar tungu, sem gaman er að, þótt við Íslendingar kunnum ekki alltaf að meta þær vegna návistar við dönsku og systur hennar, ríkismálið (sem hafa einnig verið farvegur mikilla bókmennta — en það er annað mál). En mundi okkur ekki vera hollast að líta í eigin barm? „Milli mín og þín eru þúsund ár“, sagði gamall alþýðumaður við mig fyrir 30 árum. „Ég er samtímamaður Egils Skallagrímssonar.“ Ég skildi ekki þá til hlítar, við hvað hann átti. Nú skil ég það betur. Tungutak hans var gullaldarmál — án þess að hann vissi það sjálfur. Það væri óskemmtilegt, ef snara þyrfti Snorra-Eddu eða Laxness á það hrognamál, sem hér að framan er vitnað í og tekið er úr grein Sverris páls Erlendssonar. Öll berum við ábyrgð á þessari aðför að tungunni. Boðorðin tvö um íhaldssemi og gífurlega íhaldssemi eiga rétt á sér, a. m. k. í augum þess sem hefur fengið sína „lexíu“ á lærdómsríkri ferð um Noreg.“

Nú er það ekki nýtt að varað sé við þeirri þróun að íslensk tunga sé að afbakast og víst verður hún að hafa ákveðinn sveigjanleika eins og allt sem lifir og er breytingum undirorpið. En á sama ári og við minnumst 40 ára afmælis íslenska lýðveldisins og 400 ára afmælis Guðbrandsbiblíu er ljóst að svo hratt hefur sigið á ógæfuhliðina í framburði og málfari okkar að snarlega verður að grípa til ráðstafana ef við ætlum að halda tungunni og viljum að niðjar okkar geti áfram lesið fornar bókmenntir og nýjar.

Athyglisverðar eru hugmyndir sem fram komu í greininni „Mælt mál og málvöndun“ eftir prófessor Matthías Jónasson í Morgunblaðinu 10, febrúar s. l., og eru þær skynsamlegar til úrbóta í þessum efnum og koma heim og saman við skoðanir íslenskra fræðimanna sem rætt hefur verið við um mál þessi.

Í umræddri grein prófessors Matthíasar segir, með leyfi forseta:

„Í ritgerð minni, Móðurmálsnám (Tímarit Máls og menningar 1951, 3. hefti) leiddi ég rök að því, að hinn hljómandi þáttur tungunnar, mælt mál, væri hróplega vanræktur, svo að „réttur hreimur og eðlilegur málblær“ yrði að þoka í skólum vegna ofurkapps eftir lestrarhraða. Þar segir m. a.:

„Rétt ritað mál, lesið á réttan hátt, hljómar sem mælt mál. Hér sannast enn á ný að sú rót, sem allar greinar málsins vaxa af, er tungan, hið hljómandi mál. Málið er hið sama, rétt lesið af bók og mælt af munni fram. Þannig numin lýkur tungan upp fyrir börnum og unglingum dýrasta andlegum auði þjóðarinnar, bókmenntunum“.

Og síðar segir:

„Þannig er vanræksla í kennslu hins mælta máls að drepa alla lifandi orðsnilld. Því að mælskan hvílir á tungu manns, ekki á pennanum. Hún krefst annarrar tækni en ritlistin . . .

Enn segir:

„Hér þarf að stinga við fótum. Hér er þörf afturhvarfs. Íslenskukennarar verða að snúa sér að þeim mikilvægari verkefnum, sem bíða þeirra. Stafsetningaræfingar og skrifleg fullgreining ná aldrei tilgangi sínum, meðan hljómfegurð, myndauðgi og skýrleiki mælts máls týnast og gleymast í skugga þeirra. Ef við viljum innræta æskunni málvöndun, bæði að hljómi, orðavali og byggingu, þá verðum við öllu framar að kenna henni að tala málið skýrt og hreint, opna eyru hennar fyrir hljómi og gerð hins mælta máls, kenna henni að þekkja og virða lögmál málfræðinnar í hinum síkvika straumi þess. Hver unglingur, sem lýkur námi, á að kunna að orða hugsun sína viðstöðulaust, tala með eðlilegum hraða svo hreint mál og fagurt sem hann gæti ritað best, tala með eðlilegum áherslum og hreinum raddblæ“.“ Þá segir prófessor Matthías:

„Hugmynd mín er sú að stóraukin rækt verði lögð við kennslu og þjálfun í mæltu máli, allt frá þriðja eða fjórða ári grunnskóla. Hún á að tengjast lestri, en takmarkast þó engan veginn við hann, enda fer meginhluti skólakennslu fram á mæltu íslensku máli. Eftir þrjú skólaár er allur þorri barna orðinn sæmilega læs. Þá ætti að hefjast nýr þjálfunaráfangi í áheyrilegum lestri og framsögn og standa til loka grunnskólans. Vissulega þarf að kenna skýran og hljóðréttan framburð allt frá upphafi skólagöngunnar og veitir hljóðaðferðin við lestur góð tök á því. Samt þurfa börn að hafa náð nokkurri lestrarleikni áður en þeim er ætlandi að losa sig frá bókinni að því marki, að lestur þeirra nálgist hreim hins mælta máls.

Rangt væri að gera sér tálvonir um skjót umskipti, en með raunsæjum undirbúningi mætti þó ná verulegum árangri. En hvað er raunsær undirbúningur? Hér er ekki rúm til að skýrgreina það, en þó vil ég nefna tvö atriði. Kennarar eru yfirleitt vel talandi, samt þyrfti að halda með þeim sérstök þjálfunarnámskeið. Í öðru lagi þyrfti að fella út úr námsskrá þýðingarminna efni til að rýma til fyrir aukinni móðurmálskennslu. Það væri blindni að taka upp nýjar námskröfur, að þeim óbreyttum, sem nú gilda.“

Í lok ræðu Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi um Hismið og kjarnann, sem hann flutti í Egilsstaðaskógi sumarið 1958, segir m. a., með leyfi forseta:

„Á morgun hefst nýr vinnudagur. Að því skal stefnt, að hagsæld komi í stað dýrtíðar, samhugur í stað sundrungar, tómstundir í stað lamandi strits, tónlist í stað dægurlaga, stjórn í stað ofstjórnar, andi í stað efnishyggju. Þá mun íslenskur ættstofn vaxa og þjóðlíf blómgast, uns hver einasti maður lifir samkvæmt þeim lögmálum, sem veita honum mesta fullkomnun.

Til þess reis Ísland úr sæ að veita börnum sínum hlutdeild í því, sem mest er og dýrmætast. Þess vegna mun það um komandi aldir verða þjóðinni hjartfólgin móðir og fósturjörð“.

Til þess að orð okkar ástsæla þjóðskálds standist tímans tönn ber okkur að tryggja íslenskt mál í sessi, vernda það gegn mengun, skola hismið frá kjarnanum. Það á að vera okkur leikur einn, ef við er brugðist.

Davíð frá Fagraskógi segir frá kveðjustund séra Matthíasar Jochumssonar og Stephans G. Stephanssonar í grein um kynni sín af séra Matthíasi, með leyfi forseta:

„Þótt þessi tvö höfuðskáld hefðu bæði hlotið hinn innra eld í ríkulegum mæli, var útlit þeirra og framkoma næsta ólík, ekki síður en ljóð þeirra. Matthías var feitlaginn, þreklegur og höfðinglegur útlits. Stephan grannur og þreytulegur. Matthías síkvikur og sítalandi. Stephan hæglátur og fámáll. Og nú sátu þeir hvor í sínu horni dagstofunnar á Sigurhæðum og horfðust í augu — í síðasta sinn. Yfir Stephani hvíldi hljóðlát kyrrð, alvöruþungi. Matthías var orðhreifur og gamansamur. Ég fann, að þessar tvær gömlu hetjur undu vel samvistum. Enda þótt ljóð þeirra væru ólík að formi og ytra búnaði, áttu þeir sviplíkar hugsjónir, drauma um heill og framtíð þeirra, sem jörðina byggja. Þó að ljóð Stephans væru veðurbitin, en ljóð Matthíasar geislum mögnuð, höfðu bæði skáldin náð þeirri snilld, sem því aðeins næst, að mikill andi og heitt hjarta leggi saman alla krafta sína.

Það leyndi sér ekki, að þeim var þungt um andardráttinn. Samtalið var stutt og fábreytt, engin andagift, enginn eldur — aðeins hversdagsleg orð.

Loks reis Stephan úr sæti — Matthías líka. Nokkur andartök stóðu þeir andspænis hvor öðrum, hljóðir, orðlausir. Geti andlegar verur úr öðrum heimi nálgast jörðina, þá er ég sannfærður um, að á þessari stund var stofa Matthíasar full af ósýnilegum, hvítum sálum. Og þarna stóðu þeir, tveir höfðingjar andans, sinn úr hvorri heimsálfu, en þó synir sömu þjóðar, báðir rammíslenskir. Báðir höfðu þeir unnið stórvirki, báðir hlotið ást og lotningu Íslendinga. Hér átti íslensk skáldlist, íslensk hámenning aldarinnar, sína bestu fulltrúa, og guð má vita, hvenær tveir slíkir menn heilsast og kveðjast aftur. Á þessari stund var að gerast mikill atburður, einn hinna merkari í sameiginlegri sögu Íslendinga heima og erlendis.

Loks rétti Stephan G. fram æðabera, skjálfandi höndina. En þá breiddi Matthías út faðminn, vafði Stephan örmum og — kyssti hann. Matthías grét, Stephan grét ekki. Það var eins og andlit Stephans væri höggvið úr bergi, hrufótt, stirðnað, aðeins augun ljómuðu — og sá ljómi var ósvikinn. En það vissi ég þá og seinna, að skilnaðurinn var honum mun þyngri og sárari en séra Matthíasi. Það var eins og Stephan G: hefði kvatt allt Ísland og alla íslensku þjóðina hérna megin hafsins í síðasta sinn, með þessum eina kossi. Úr þessu var hann á heimleið — vestur.

Íslendingar ættu aldrei að gleyma þessum skáldakossi. Þeir mega muna hann sem tákn skyldleikans, tákn hins íslenska anda, sem tengja skal alla Íslendinga, hvar sem þeir búa á hnettinum.“

En grundvallartáknið er tungan sem skáldin notuðu hvort í sinni heimsálfu og varð að stórveldi í verkum þeirra.

Þegar íslensk tunga er orðin bögglauppboð í töluðu og rituðu máli í útvarpi, sjónvarpi og öðrum fjölmiðlum, skulum við rísa upp til varnar. Við þurfum að útrýma margs konar skekkjum og slappleika á hinu víða sviði framburðar og málvöndunar. Hér má nefna t. a. m. furðulega þróun nafna íslenskra fyrirtækja. Sé ekið annars vegar um Reykjavíkurveg við Hafnarfjörð og hins vegar um Laugaveg í Reykjavík blasa eftirfarandi nöfn fyrirtækja við: Libra, Shell, Bombay, Amor, Bimm Bamm, Parma, Prisma, Gaflinn, Winnys, Higas, Domus, Goldie, Magnor Kristall, Gresco, Top Class, Figaro, Pom Dápi, Marella, Baby Björn, Carters, Faco, Quadro, 012 benetton, Blondie, Habitat, Costa Boda, Bristol og Biering, svo ekki sé nú talað um allar vídeóleigurnar.

Að mörgu er að hyggja. En með samstilltu átaki heimila, kennara, fjölmiðlafólks og hins opinbera ætti okkur að auðnast að fá börn og ungmenni til að beita tungutaki landshluta síns eins skýrt og áheyrilega og hæfileikar hvers og eins leyfa, og rækta þannig framburð og málvöndun.

Það eru sköp ef faðir deyr á undan syni, en ósköp ef sonur deyr á undan föður. Svo nákvæm er íslensk tunga. Þannig eru það sköp ef tungan heldur réttum hljómi, en ósköp ef hún breytist í hrognamál. Það skiptir ekki máli hvort við segjum að Eyjafjörður sé stórkostlega fagur, eða með leyfi forseta: „Djöfull eru þetta frambærileg fjöll“, eins og Helgi Sæmundsson orðaði það við mig fyrir norðan nýlega. En það hefði skipt sköpum ef hann hefði sagt: Djölletta framifjöl!

Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.