12.04.1984
Sameinað þing: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4721 í B-deild Alþingistíðinda. (4111)

268. mál, framburðarkennsla í íslensku

Flm. (Árni Johnsen):

Herra forseti. Ég fagna þeim undirtektum sem umrædd þáltill. hefur fengið hér. Mér finnst það koma vel fram í máli manna hve mikilsvert mál er hér á ferðinni. Ég vil þó benda aðeins á að hér er till. sem gengur lengra en sú þáltill. sem hæstv. iðnrh. fjallaði um. Sú till. fjallaði um íslenskukennslu í Ríkisútvarpinu. Þessi till. fjallar um íslenskukennslu í Ríkisútvarpinu og einnig í grunnskólum landsins. Mér finnst þetta fara vel saman og sé engin vandkvæði á því að þarna megi vinna úr og ég get vel tekið undir það sem hæstv. iðnrh. sagði um framkvæmd þessa máls. Við höfum ekki verið í neinum vafa um það að menn hefðu ákveðnar skoðanir um það hvernig mætti framfylgja þessu máli. Ég fyrir mitt leyti get alveg tekið undir þá till. sem hann hefur boðað, eða þá ábendingu sem hann hefur beint til þeirrar nefndar sem tekur málið fyrir, að sett verði upp eins konar akademía, þrettán manna akademía, sem er góð hugmynd að mínu mati.

Hv. alþm. Eiður Guðnason og fleiri þm. hafa gagnrýnt orðalag till. Ég vil nú skjóta því hér inn að það eru níu íslenskufræðingar og norrænufræðingar sem lásu þennan texta og töldu að hann ætti að vera með þessum hætti. (KP:Ekki lagar það hann.) Það má beina því einnig til hv. þm. Karvels Pálmasonar að það er betra að skoða textann og meta hvað hann segir áður en gelt er fram í á þennan hátt. Ég skal fara aðeins yfir þá setningu sem hefur verið gagnrýnd. Ég vil þó hins vegar taka það fram að það er ekki meginmál hvað þessi setning segir í till. eða þessi viðauki í setningunni, vegna þess að það er til áhersluauka. Meginmálið er komið fram að mínu mati einnig í textanum þar sem segir svo: „svo að grundvöllur tungunnar raskist ekki, en hann varðar meginþátt íslenskrar menningar eins og varðveizla tungunnar að öðru leyti.“

Þetta er skothelt. Þetta segir það að það skiptir svo miklu máli að íslensk tunga sé kennd rétt á Íslandi, að það skiptir máli varðandi alla okkar menningu. Þetta er eitt af undirstöðuatriðum okkar menningar. Tungan er ekki aðeins tæki til að tjá sig með, hún er grundvöllurinn undir okkar menningu og sjálfstæði. Vegna þess að við höfum haldið verulegri málvernd í landinu, þá eigum við því láni að fagna að við erum samtíma þúsund ára sögu þjóðarinnar. Með lítilli tilsögn og kennslu getur hvert mannsbarn, sem á annað borð hefur lært að lesa íslensku, lesið íslenskar bókmenntir fornar og nýjar. Þar sem erfiðleikar eru í þeim efnum, þeir eru vissulega, eru þeir líklega meiri varðandi atómkveðskap nýjan en fornan texta. Og við eigum því láni að fagna að með því að varðveita tunguna, bæði vegna þess að það skiptir máli í grundvelli tungunnar og varðveislu tungunnar að öðru leyti, þá búum við yfir ritmáli, bókmáli og talmáli sem veldur því að við erum samtíða allri sögunni í okkar landi, öndvert við aðrar Norðurlandaþjóðir sem búa ekki yfir þessum kostum.

Hver getur ekki lesið Íslendingabók Ara? Hver getur ekki lesið Landnámu? Það geta allir og það er það sem málið snýst um. Og það er að þessu leyti sem það er ástæða til að hafa þessa viðaukasetningu sem undirstrikar mikilvægi málsins. Með þessu móti erum við samtíða kjarnanum í okkar sögu. Það eru ekki aðrar þjóðir sem geta á þennan hátt lesið það sem skrifað hefur verið á þeirra máli frá 11. og 12. öld. Engin önnur þjóð í heiminum.

Þetta vildi ég taka fram vegna þeirra ummæla sem komu fram um till. sjálfa. Við skulum vera þess minnug að það er einmitt vegna þess að við búum yfir þessum arfi, búum yfir þeim arfi að vera hluti af okkar sögu vegna tungunnar og það er varðveisla hennar að mörgu leyti í talmáli, ritmáli, bókmáli sem skiptir máli í þeim efnum. Þess vegna hefur þessi þjóð meira sjálfstraust en hún ella hefði að margra mati. Það styrkir sjálfstæði hennar. Og að því leyti vísa ég á bug því sem ég tel útúrsnúning um þennan texta till., sem er þó ekki meginmál í þessu efni. Meginmálið er að það sé tekið á og þessu hrint í framkvæmd og ég sé ekki annað en að það eigi að nást samstaða um slíkt. Það eru auðvitað alltaf smekksatriði í orðalagi eins og annað, og það er nú kannske það sem þessi tunga býður upp á, að menn geti haft ákveðnar skoðanir í því hvernig eigi að setja hana upp.

En það sem skiptir öllu máli er að framkvæma það sem till. býður. það sem er kjarni till. og setja þannig hrygg í íslenska tungu.