13.04.1984
Efri deild: 82. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4744 í B-deild Alþingistíðinda. (4129)

310. mál, menntaskólar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Um leið og ég þakka hv. 2. þm. Austurl. fyrir góðar undirtektir við frv. vil ég svara spurningu hans um undirbúning framhaldsskólafrv.

Þannig er mál með vexti að það hefur verið árviss atburður hér á Alþingi að komið hefur fram mikill frv. bálkur um framhaldsskóla sem aldrei hefur hlotið náð fyrir augum Alþingis. Þar hefur margt borið til og ekki síst þau atriði sem hv. þm. nefndi og varða kostnaðarskiptinguna, kostnaðarhlutdeildina í þeim rekstri. Nú stendur svo á, sem hv. þm. er vel kunnugt, að það árar mjög illa fyrir ríkissjóði. Þegar svo stendur á þykir mér ekki líklegt að auðvelt sé að fá framgengt frv. sem mundu fela í sér verulega auknar skuldbindingar fyrir ríkissjóð, en sú mundi einmitt vera hugsunin til frambúðar að því er það málefni varðar. M. ö. o. er það a. m. k. mín skoðun að það væri skynsamlegt sem framtíðarfyrirkomulag að ríkissjóður tæki verulegan og mestan hluta framhaldsskólarekstursins á sig, en aftur á móti sveitarfélögin stærri hlut af grunnskólanum. Á meðan mál standa eins og nú er hygg ég að ekki sé hægt að komast að þeirri lausn málsins eða hún gæti fengið framgang hér á Alþingi og meðan svo er tel ég betra að láta frv. bíða.