13.04.1984
Neðri deild: 74. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4770 í B-deild Alþingistíðinda. (4178)

222. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki nú frekar en fyrr við umr. þessa máls tefja það á nokkurn hátt. Ég verð hins vegar að lýsa vonbrigðum mínum og undrun á þeim ummælum hæstv. sjútvrh. — vegna þess að við sem töluðum hér s. l. föstudag töldum eðlilegt, þar sem það væri óvenjulegur fundardagur, málið stórt og fjöldi þm. með fjarvistarleyfi, að fresta þeirri umr. fram á mánudag — að við værum að gera tilraun til að tefja málið á einn eða annan hátt. Það sýnir sig á þessu að ekki er þakklætinu fyrir að fara hjá hæstv. sjútvrh. til okkar stjórnarandstæðinga sem erum þó að reyna að bjarga málum í gegn þegar stjórnarþm. mæta ekki sjálfir. Við ættum að muna það, stjórnarandstæðingar, hversu mikið þakklæti hæstv. ráðh. auðsýnir í þessum efnum. (Gripið fram í: Kostar þó kurteisin ekki neitt.) Nei, svo hefur verið sagt. En kannske þeir fari að selja hana eins og annað nú.

Ég vísa því a. m. k. algjörlega á bug að ég hafi átt nokkurn þátt í að tefja þetta mál. Það var meira að segja rætt hér s. l. mánudag, eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson gerði grein fyrir, að ráðh. fjarverandi í veikindaleyfi, sem þó hefði nú kannske einhvern tíma verið notað sem átylla til að drepa málinu á dreif og ræða það ekki undir þeim kringumstæðum. Meira að segja var látið að því liggja að nefndin gæti hafið störf þegar á þriðjudagsmorgni. Það var ekkert sem kom í veg fyrir það. Það hefur gerst áður að nefndir hafa fjallað um mál þó að ekki væri búið formlega að vísa því til þeirra, þannig að það er hreinn fyrirsláttur hjá hæstv. ráðh. og hv. þm. Stefáni Guðmundssyni, formanni nefndarinnar, að hér hafi á nokkurn hátt verið komið í veg fyrir það að málið gæti farið með eðlilegum hætti til nefndar og nefndin fengið eðlilegan tíma.

En það er annað sem ég á vantalað við hv. þm. Stefán Guðmundsson. Við umr. á mánudag bar ég formlega fram ósk um það frá mér og hv. þm. Pétri Sigurðssyni héðan úr ræðustól að leitað yrði skriflegrar umsagnar stjórnar Aflatryggingasjóðs á þessu frv. Þess var óskað og meira að segja hausnum nikkað þá af hv. formanni nefndarinnar. En hváð hefur gerst? Hvar liggur sú skriflega umsögn stjórnarinnar fyrir? Og ég vil spyrja nefndarmenn: Kom það ekki til umr. í nefndinni að fara að þessari ósk og leita umsagnar stjórnar Aflatryggingasjóðs? Var því hvorki hreyft af meiri hl. nefndarinnar eða minni hl.? Við skulum gera því skóna að meiri hl. hafi ekki kært sig um það. En hvað um minni hl.? Tók hann þessa ósk upp eða tók hann undir þessa ósk, að leitað yrði formlega umsagnar stjórnar Aflatryggingasjóðs? Ég óska svara við þessu, því mér finnst þetta það stórt mál að þegar slík ósk kemur fram, þá sé á engan hátt eðlilegt annað en að verða við henni.

Herra forseti. Það hefur í sjálfu sér kannske ekki mikla þýðingu að hafa mörg orð fleiri um þetta mál. En ég vil þó aðeins bæta við það sem hér hefur verið sagt. Hv. 4. þm. Suðurl. er víst ekki í salnum, en ég fagna því að sjálfsögðu að um hann má segja eins og haft var að orðtaki hér áður fyrr, að Eyjólfur hefur hresst í andstöðunni við þetta mál frá 1. umr. Þá spurði hv. þm. Garðar Sigurðsson í hneykslunartón í hvers umboði ég talaði, þegar ég lýsti því hér yfir að ég héldi að þetta frv. eins og það liggur fyrir væri ögrun við sjómannastéttina og samþykkt þess mundi þýða ófrið ef af yrði. Nú talar hv. þm. Garðar Sigurðsson hér í heilan klukkutíma gegn málinu og endar á því að lesa upp símskeyti frá nokkrum tugum skipshafna líklega, ég þori ekki að fullyrða um töluna, þar sem nákvæmlega það sama er sagt, og ég sagði hér s. l. mánudag. Það er engu líkara en að þessi að mörgu leyti ágæti hv. þm. sé fyrir löngu slitnaður úr tengslum við hugsanagang sjómanna, a. m. k. í þessu máli. (Gripið fram í.) Hvað segir hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson? (GJG: Hann er nú til sjós á hverju sumri.) Það nægir ekki alltaf. Það fer eftir því hvernig heilabúið er og hugsanagangurinn, hvort menn eru í raun og veru í tengslum við það sem þeir eru að gera eða ekki. Ég bið nú hv. 7. þm. Reykv. að hugsa sig betur um áður en hann segir meira um þetta. (JBH: Heilabú Garðars er alveg í lagi.) Ekkert bætir það um þó að hv. þm. Jón Baldvin mæli með því. Ég skal ekki, herra forseti, hafa fleiri orð um þetta sem ég heyri að þm. skemmta sér yfir. En í mínum huga er þetta ekki gamanmál. Ég tek undir það sem hv. þm. Pétur Sigurðsson sagði hér áðan og ég sagði raunar líka s. l. mánudag: Hér er verið að stíga fyrsta skrefið að því að leggja niður það kerfi, þann sjóð sem byggður hefur verið upp sameiginlega af útvegsmönnum og sjómönnum til þess að hlaupa undir bagga þegar illa áraði.

Það er vissulega alvörumál, ekki síst í þeirri stöðu sem málið er í í dag þegar stjórnvöld gera sér beinlínis leik að því að ögra sjómannastéttinni umfram það sem þegar er búið, því engum getur dulist að það sem gerst hefur að undanförnu, bæði varðandi kjaraskerðinguna og síðan minnkandi afla, hefur bitnað af meiri þunga á sjómannastéttinni en nokkurri annarri stétt í landinu og bera þó ýmsir sig illa í þeim efnum. Þrátt fyrir þetta ætlar hæstv. ríkisstj. að ganga enn þá lengra í skerðingu á launakjörum sjómanna með þeim hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Og það er furðulegt ef það á eftir að gerast að dreifbýlisþm. utan af landsbyggðinni, frá sjávarplássunum víðs vegar um landið, sem nú eru að komast hvert af öðru á atvinnuleysisstigið, ef þeir ætla að ljá atkvæði sitt til þess að bæta enn ofan á með þessu frv. Ég hygg að menn ættu nú aðeins að staldra við. Ég held að menn ættu að hugsa sig um áður en hinir pólitísku flokksfjötrar eru frekar reyrðir um hendur þessum hv. þm.

Ég ítreka að það er mín skoðun að verði þetta frv. samþykkt eins og það liggur fyrir og mælt er með því af hálfu meiri hl. sjútvn., þá er það ógnun við sjómannastéttina. Þá er hæstv. ríkisstj. að segja sjómannastéttinni stríð á hendur og þá tekur auðvitað hæstv ríkisstj. afleiðingum þess. En það hafa sterkari ríkisstjórnir þessari hæstvirtri orðið að lúta í lægra haldi ef sjómannastéttin ætlar sér að sýna fram á það að henni þyki of langt gengið í átroðslu á sínum kjörum. Og það mun koma í ljós líka um þessa ríkisstj. að undan henni mun flæða ef hún gengur svo fram sem hér virðist ætlunin í þessu máli. Þó að mér sé á engan hátt sérstaklega vel við hæstv. ríkisstj., þá vara ég hana við því að efna til slíks óvinafagnaðar sem samþykkt þessa frv. mun örugglega reynast, verði það samþykkt eins og það nú liggur fyrir.

Ég ítreka enn andstöðu mína við frv. Ég mun greiða atkv. gegn því. Þess verður freistað að koma hér fram með brtt. Þegar eru komnar fram tvær. Hv. minni hl. nefndarinnar hefur lagt fram sína brtt. og varatillaga er komin fram við hana. Ég mun að sjálfsögðu greiða þeim atkv. En frv. er ég andvígur, og ég tala fyrir hönd Alþfl., samþykkt þessa frv. kann að hafa alvarlegri afleiðingar í för með sér en kannske margur hyggur eins og málin standa í dag. Þess vegna ber að fella þetta frv.