25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4872 í B-deild Alþingistíðinda. (4287)

204. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég er að mörgu leyti mjög undrandi yfir þessari síðustu ræðu. Ég held að ræðan sé byggð á miklum misskilningi frá byrjun til enda. Ég vil minna hv. ræðumann á það að skv. gildandi lögum um Ljósmæðraskólann er námstími þar tvö ár. Yfirlæknir fæðingardeildar Landspítalans er skólastjóri og yfirljósmóðir er aðalkennari. Skv. gildandi lögum fá nemendur Ljósmæðraskólans kaup, sem ákveðið er af ráðh., að fengnum tillögum skólastjóra og skólanefndar. Landspítalinn selur nemendum fæði við kostnaðarverði. Þetta eru orðin úrelt ákvæði og var fullt samkomulag um það í þeirri nefnd sem samdi frv. Hins vegar skil ég hv. ræðumann ef hann á við menntun annarra heilbrigðisstétta, eins og t. d. hjúkrunarfræðinga. Þar er menntunin að færast yfir á háskólastig og um það eru vafalaust skiptar skoðanir.

Það var skoðun fyrrv. menntmrh. að þetta skref ætti að stíga og það er skoðun núv. menntmrh. að stíga þetta skref. Við getum haft okkar skoðanir á því hvort rétt hafi verið að stíga þetta skref eða ekki. Ég hef mínar efasemdir um það. Það fylgdi grg. eða umsögn núv. menntmrh., að þetta nám mundi kosta minna en núverandi hjúkrunarskóli, sem ég dreg mjög í efa og trúi ekki. En þar er auðvitað um veigamikið námsefni að ræða því að hér er um fjölmenna stétt að ræða. Ef ræða síðasta ræðumanns hefur átt að ná til þessa alls, þá skil ég ræðuna. En hér er um lítinn skóla að ræða, sem starfar innan vébanda heilbrigðiskerfisins og er rekinn í sambandi við fæðingardeildina, og námstíminn hefur verið tvö ár. Hins vegar eru gerðar vaxandi kröfur um hjúkrunarfræðinga. Hér er um vandasamt og erfitt mál að ræða.

Ljósmæðrafélagið hefur lagt á það áherslu að þessum lögum væri breytt í skjóli fenginnar reynslu. Því var þetta frv. flutt. Ég hygg að ástæðan fyrir því að fyrrv. heilbrmrh. flutti ekki frv. hafi verið sú, að ekki hafi verið fellt samkomulag um að þessi stofnun færi alfarið yfir á menntmrn. Fyrst menntmrh. hafði ekki áhuga á eða vildi ekki breyta lögunum í þetta horf, þá taldi ég ekki ástæðu til þess að legið væri á frv. eftir að þetta samkomulag varð í málinu. Því var þessi eina breyting gerð á frv. frá þeirri nefnd sem. fyrrv. heilbrmrh. skipaði.

Breytingarnar sem gerðar voru í Ed. á frv. tel ég eðlilegar og sjálfsagðar hvað varðar 3. og 4. gr. Í 7. gr. hefur ráðh. heimild til þess að setja í reglugerð nánari ákvæði um starfsemi og starfslið skólans að fengnum tillögum skólanefndar. Og ég get fullvissað hv. síðasta ræðumann um það, að ég hef ekki áhuga á því að stórauka kostnað við þetta skólahald, heldur fyrst og fremst að breyta lögum til samræmis við nýrri tíma og til samræmis við álitsgerð viðkomandi fólks sem samdi upprunalega þetta frv. Reglugerð verður vafalaust gefin út þegar nokkur tími verður liðinn frá því að frv. verður að lögum, sem vonandi verður, og þá mun vafalaust verða tekið tillit til kostnaðar í þessu sambandi. En þessi skóli hefur verið með þeim allra ódýrustu í heilbrigðiskerfinu. En ég skal taka undir það með hv. síðasta ræðumanni að heilbrigðiskerfið er dýrt og menntun þess sömuleiðis.