25.04.1984
Neðri deild: 76. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4905 í B-deild Alþingistíðinda. (4314)

293. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Virðulegi forseti. Á leiðinni hingað í ræðustól fór ég að hugsa um hvort hv. þm. hefðu nokkurn tímann heyrt mig mæla fyrir máli þessi fimm ár sem ég hef setið á þingi. Af einhverjum ástæðum hefur viljað svo til að það hef ég ævinlega gert fyrir galtómum sölum, seint um kvöld eða rétt undir kvöldmat. Málflutningur minn virðist því ekki þurfa að vera merkilegur. Það heyrir hann yfirleitt hvort sem er enginn.

Virðulegi forseti. Ég ætla samt enn og aftur að mæla fyrir tómum þingsal, fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, en frv. þetta liggur frammi á þskj. 569 og er 293. mál þingsins. Þetta frv. er samhljóða brtt. sem borin var fram þegar 159. mál þingsins var afgreitt og var þá á þskj. 503, en sú brtt. var kölluð aftur vegna tilmæla hv. fjh.- og viðskn. og að samkomulagi varð að hún yrði flutt sem sérstakt frv.

Efni till. er það að áfallnar verðbætur á lán til íbúðakaupa eða íbúðabygginga verði frádráttarbærar við skattlagningu eins og vextir, en ekki einungis gjaldfallnar verðbætur eins og nú er. Frv. gerir ráð fyrir að telja megi til gjalda á þennan hátt þriðjung áfallinna verðbóta í þrjú ár, sé stofnað til skuldar vegna íbúðakaupa, en 1/6 áfallinna verðbóta í sex ár sé um nýbyggingu að ræða.

Hér er reynt að koma að einhverju leyti til móts við þær gífurlegu álögur sem íbúðabyggjendur og íbúðakaupendur hafa orðið fyrir vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur í lánamálum á síðustu árum eða síðan núgildandi lög um tekjuskatt og eignarskatt tók gildi. Einmitt á þessum árum hefur hún orðið sú, að verðbótalán hafa svo til algerlega tekið við af vaxtalánum. Hugmyndin sem lá að baki því ákvæði skattalaganna að vextir skyldu vera frádráttarbærir við skattlagningu sem ívilnun fyrir þá sem eru að koma yfir sig þaki byggðist á því að bankar landsins veittu vaxtalán til fjárfestingar vegna húsnæðis, en þegar engin vaxtalán voru lengur fáanleg heldur eingöngu verðbótalán kom þessi ívilnun að litlum notum. Þess vegna tel ég að eðlilegt sé að lagfæra ákvæðið svo það þjóni tilgangi sínum. Að öðrum kosti er það einskis nýtt.

Benda má á að gengistap af gengistryggðum spariskírteinum er frádráttarbært við skattlagningu og er ekki óeðlilegt að líta á verðbótahækkanir lána sem hliðstæðu.

Það liggur nú fyrir að öll skattafrv. hæstv. ríkisstj. á þessu þingi hafa verið til þess flutt og afgreidd að þyngri byrðar legðust á hinn almenna skattgreiðanda, en ívilnanir koma atvinnurekendum til góða. Svo langt var gengið að skattar voru samstundis hækkaðir þegar ljóst varð að launþegar fengju um 5% launahækkun. Er ástæðulaust að rifja upp þann hringlandahátt og það ráðleysi sem ríkti hér í þingsölum við afgreiðslu þessara mála. Blygðunarlaust var gengið á gerða kjarasamninga og skattar hækkaðir vegna hinna hraksmánarlegu launahækkana, enda mótmættu forustumenn BSRB og ASÍ þegar í stað. En hvorki voru þeirra raddir heyrðar né brtt. stjórnarandstöðunnar sinnt.

Hér á hinu háa Alþingi hafa í vetur farið fram tímabærar umræður um skattsvik. Öllum er ljóst að stór hluti landsmanna kemst hjá því að greiða það sem honum ber til þjóðfélagsins. Til þessa hóps heyrir hinn almenni launþegi ekki, enda borgar hann ævinlega allan brúsann. Með hinum gífurlegu kjaraskerðingum sem átt hafa sér stað í tíð núv. ríkisstj. er svo komið að venjulegir framfærendur hafa ekki til hnífs og skeiðar, hvað þá fyrir afborgunum af lánum sem sífellt hækka því meira sem greitt er af þeim. Sem dæmi má taka að lán sem tekið var í fyrra í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna að upphæð kr. 112 þús. er nú reyndar orðið 178 þús. 115 kr. með reiknuðum verðbótum.

Þessar verðbætur greiða menn auðvitað fyrr eða síðar og sýnist lítil sanngirni í að ekkert tillit sé til þeirra tekið, en gengistap af gengistryggðum spariskírteinum er hins vegar talið til frádráttar við skattlagningu.

Ég treysti því að hv. fjh.- og viðskn., sem ég óska eftir að fái þetta frv. til umfjöllunar, líti á það með velvild og afgreiði það fyrir þinglok á einhvern veg.

Það er ljóst að hér er um ívilnun til íbúðakaupenda og íbúðabyggjenda að ræða. Það liggur þá fyrir hvort þingið vill eingöngu afgreiða ívilnanir til atvinnurekenda á þessu þingi eða hvort það telur þá, sem í mestum fjárhagskröggum eru í þjóðfélaginu, eiga þar einhvern rétt. Sé svo bið ég hv. n. að athuga þetta frv. vel og lagfæra það ef það mætti betur fara svo að það nái því markmiði sem því er sett, en það er að létta undir með þeim sem eru að koma yfir sig húsnæði.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.