26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4907 í B-deild Alþingistíðinda. (4318)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár af gefnu tilefni til þess að beina fyrirspurnum til hæstv. fjmrh. Tilefnið er það að í blöðum, m. a. í NT, hinu nýja málgagni félags- eða frjálshyggju, hefur birst frétt þar sem frá því er skýrt að samið hafi verið vopnahlé milli hæstv. ráðh. og stjórnarflokka í ríkisstjórn Íslands í því deilumáli sem nú yfirskyggir öll önnur deilumál sem ríkisstjórn Íslands á við að fást. Þar á ég ekki við hið margfræga fjármálagat upp á 2 milljarða króna, þó að málið tengist því nokkuð, þar sem tillögur í því máli eru m. a. um að afnema undanþágur frá söluskatti og herða innheimtu söluskatts, sem hæstv. ráðh. gera sér vonir um að geti skilað svo sem eins og 200 millj. upp í hið margfræga gat. Ég er ekki að ræða um þetta, heldur er ég að ræða um það stórmál sem í máli almennings er kennt við hin suðrænu heiti Kakó, Jóga og Mangó. Það er til marks um hversu alvarlegt þetta mál er að skipuð hefur verið nefnd fjögurra ráðh. til þess, eins og það hefur verið orðað, að semja um vopnahlé í þessu máli. Þeir ráðh. sem fengið hafa það verkefni að ná friði og sáttum í málinu eru hvorki meira né minna en hæstv. forsrh., hæstv. fjmrh., hæstv. viðskrh. og hæstv. landbrh. Auk þess skilst mér að þeir hafi skipað sér til aðstoðar í þessu mikla máli aðstoðarráðherra og sérfræðinga, þannig að allt í allt munu um 12 manns af æðstu mönnum ríkisins vera settir í þessa sáttanefnd í þessu heilaga stríði.

Um hvað snýst nú þetta stóra mál sem verðskuldar svo stóra sáttanefnd? Öfugt við það sem margir halda, þá held ég að það snúist hvorki um mataræði, hollustuhætti né mismunandi afstöðu stjórnmálaflokka til barnaverndar eða barnagæsku. Ég held að deilan snúist um nokkrar grundvallarspurningar um það hvort þegnar íslenska ríkisins eru jafnir fyrir lögum. Mér sýnist hún snúast um það hvort eitt einstakt fyrirtæki, sem er undir pólitískum verndarvæng annars stjórnarflokkanna, skuli undanþegið lögum um greiðslu skatta, söluskatts og vörugjalds. Mér finnst hún snúast um það hvort það sé í verkahring einstakra ráðh. að semja um það sín í milli innbyrðis að einstök fyrirtæki, og þá hvaða fyrirtæki, skuli undanþegin lögum. Mér sýnist hún snúast um það hvort einstakir ráðh. ætli að beita pólitísku valdi sínu til þess að undanskilja fyrirtæki, sem þeir hafa velþóknun á, skattskyldu lögum samkvæmt. Spurningar hljóta að vakna um það hvort hæstv. fjmrh. ætlar einfaldlega að gegna þeirri skyldu sinni áð framfylgja settum lögum, sem Alþingi hefur samþykkt, eða hvort hæstv. ráðh. ætlar að láta undan pólitískum þrýstingi í þessu máli og bregðast þar með skyldu sinni um að framfylgja lögum um innheimtu þessara lögboðnu gjalda.

Í raun og veru snýst þetta deilumál þar af leiðandi um helstu grundvallarreglur í stjórnskipun í réttarríki, um hvort aðgreining löggjafarvalds, ríkisvalds og dómsvalds skuli í heiðri höfð. Alþingi hefur sett lög um vörugjald og söluskatt. Allir eiga að vera jafnir fyrir þessum lögum. Það er hlutverk ráðh. að framfylgja þessum lögum. Ef einstakir aðilar í þjóðfélaginu verða uppvísir að því að greiða ekki lögboðna skatta, þá eiga slík mál að hafa sinn gang fyrir dómstólum landsins samkvæmt settum lögum og reglum. T. d. er það alkunna að ef litla manninum með bogna bakið, sem er fræg þjóðsagnapersóna í þessu þjóðfélagi, yrði eitthvað slíkt á, þá yrði hann að sætta sig við að lúta lögum og reglum, verða dreginn fyrir dóm og taka afleiðingum gerða sinna. Til þess höldum við uppi skattstofum og skattrannsóknardeild að þessir aðilar eigi þá að skerast í leikinn, rannsaka skattundandrátt eða skattsvik viðkomandi fyrirtækja og vísa þeim málum síðan eftir atvikum rétta boðleið til ríkisskattanefndar, ef um það er að ræða, eða til rannsóknarlögreglu og loks til saksóknara sem tekur þá ákvörðun um ákæru og málarekstur fyrir sakadómi.

Viðurlög við slíkum brotum samkvæmt bæði söluskattslögum og almennum hegningarlögum eru giska ströng. Innheimtur söluskattur er að mati lögfræðinga fjmrn. ekki eigið fé fyrirtækja heldur vörslufé. Brot á lögum um söluskattsskil eru því litin svipuðum augum og um fjárdrátt væri að ræða eða önnur auðgunarbrot. Viðurlög varða sektum auk álaga og dráttarvaxta frá vangreiðsludegi og geta reyndar varðað allt að sex ára fangelsi skv. söluskattslögum.

Hér er því þrátt fyrir allt ekki um nein gamanmál að ræða. Þess vegna vil ég leyfa mér að beina nokkrum fsp. til hæstv. fjmrh. í tilefni af þeim tíðindum að hæstv. ríkisstj. skuli hafa sett sérstaka nefnd ráðherra, aðstoðarráðherra og sérfræðinga til þess að semja, að því er virðist, innbyrðis um svo einfalt mál sem það virðist vera að framfylgja lögum um innheimtu skatta.

Fyrsta spurning: Í hvaða tilgangi hefur ríkisstj. skipað nefnd fjögurra ráðherra og annarra sérfræðinga til þess að leysa deilu um skattheimtu af framleiðendum Kakómjólkur, Jóga og Mangó?

Önnur spurning: Hvernig ber að skilja það að sett er upp nefnd fjögurra ráðherra til að semja innbyrðis, eins og það er orðað, um svo einfalt mál sem innheimta lögboðinna gjalda af einu einstöku fyrirtæki virðist vera?

Þriðja spurning: Er hæstv. fjmrh. ekki að eigin mati, og þá annarra kannske, einfær um að gegna þeirri skyldu sinni sem ráðh. að annast innheimtu þessara gjalda lögum samkvæmt?

Fjórða spurning: Hvað vakir fyrir nm. í þessari háttsettu og valdamiklu nefnd? Eru þeir að bjóða fram aðstoð sína við innheimtu gjaldanna eða er tilgangurinn sá að reyna að hafa áhrif á eða hindra hæstv. ráðh. í því að gegna þeirri skyldu sinni að innheimta þessi gjöld?

Fimmta spurning: Úr því að sett er upp nefnd fjögurra ráðherra til að leita samninga um innheimtu lögboðinna gjalda af mjólkursamsölunni, hvers vegna er þá ekki sett upp ráðherranefnd fjögurra manna, fjögurra ráðherra til þess að leita samninga um innheimtu vörugjalds og söluskatts af fyrirtækinu Sól hf. sem framleiðir hinn umdeilda svaladrykk sem nefnist Svali? Er þar sitt hvað Jón eða séra Jón?

Sjötta spurning: Hvað með önnur fyrirtæki, sem líkt kann að vera ástatt um, að hafi ekki gert skil á söluskatti, hvort heldur er fyrir vangá, misskilning eða annað, mega þau framvegis eiga von á því að settar verði upp ráðherranefndir til þess að semja utan dómskerfisins um það hvort innheimta skuli af þeim skatta eða ekki? Og þá í hve miklum mæli, eða hversu langt aftur í tímann, eða yfirleitt kannske ekki neitt?

Sjöunda spurning: Hafa hæstv. ráðh. gert sér grein fyrir því hver kunni að vera áhrif slíks fordæmis á meðferð skattamála framvegis í skattakerfi og dómskerfi? Hafa ráðh. gert sér grein fyrir því að bara á s. l. fjórum árum hafa 43 slík mál verið til meðferðar hjá skattrannsóknardeild ríkisskattstjóra einum saman? Í mörgum tilvikum hafa skattgreiðslur þessara fyrirtækja verið hækkaðar allverulega og þar með aukið tekjur ríkisins. Þegar þessi fyrirtæki eiga í hlut er ekki skipuð ráðherranefnd heldur er málið látið hafa sinn gang í kerfinu frá skattrannsóknardeild til ríkisskattanefndar eða rannsóknarlögreglu, til saksóknara og sakadóms. Er ráðh. kunnugt um það að söluskattsmál hafa velkst árum saman fyrir sakadómi án þess að sett væri upp sérstök ráðherranefnd til þess að sættast í þeim málum?

Þessar spurningar má draga saman, út af fyrir sig, í eina: Á framvegis að leysa mál af þessu tagi með því að skipa nefndir ráðherra innan ríkisstj. og semja um það innbyrðis milli stjórnmálaflokka hvaða fyrirtæki skuli vera skattskyld og hver ekki, hver skuli fá undanþágu frá lögboðnum sköttum og hver ekki, hvaða fyrirtækjum sé skylt að greiða skatta sína svo sem venja er sex ár aftur í tímann og hverjum ekki? Hafa hæstv. ráðh. yfirleitt hugsað það til enda hvað þeir eru að gera í þessari nefnd? Er það á verksviði ráðh. að semja um það að lög skuli brotin eða að neitað skuli að framfylgja lögum? Er það á verksviði ráðh. að úrskurða hverjum skuli skylt að hlíta lögum og hverjir skuli undanþegnir ákvæðum laga? Er þrískipting valdsins að verða úr sögunni í íslenskri stjórnsýslu? Geta ráðh. tekið sér allt í senn, löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald? Þannig mætti lengi spyrja.

Virðulegi forseti. Margt fleira mætti segja um þetta merkilega mál. En með þessum spurningum vil ég aðeins leggja áherslu á að hér er þrátt fyrir allt ekki um gamanmál að ræða. Hér er um spurningar að ræða sem varða grundvallaratriði í stjórnarfari í venjulegu réttarríki. Spurningin er um það hvort allir þegnar ríkisins skuli jafnir fyrir lögum eða hvort hér eigi við hin margfræga lýsing Orwells á alræðisríki ársins 1984, þess efnis að sumir skuli að vísu jafnari fyrir lögum en aðrir. Og það má kannske bæta því við, af því að ég er að beina þessum spurningum til hæstv. ráðh.: Sumir eru jafnari en aðrir og hvar er nú vinur litla mannsins í ríkisstj.?