26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4914 í B-deild Alþingistíðinda. (4322)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Í mínum huga er þetta spurningin um það hvort margnefnd Kakómjólk sé mjólkurafurð eða eitthvað annað. Ég tel að það geti ekki orkað tvímælis að þessi drykkur sé mjólkurafurð þar sem uppistaðan í þessu máli öllu saman er mjólk og útilokað sé að flokka hana undir eitthvað annað. Þar með hlýtur að verða að fara með þetta eins og aðrar mjólkurafurðir. Mér finnst þetta mál vera svona einfalt. Þess vegna lít ég svo á að sú lagatúlkun sem uppi er í fjmrn. sé ekki rétt og þess vegna tel ég að það þurfi að taka af skarið um það að þarna sé um mjólkurafurð að ræða.

Ég held að við þurfum ekki langan tíma til að ræða þetta mál. Hv. málshefjandi, Jón Baldvin Hannibalsson, spurði um það hvaða fyrirtæki ættu að vera undanþegin lögum. Ég lít svo á að allir eigi að vera jafnir fyrir lögum. En ég lít svo á að þetta sé ekki skattur á fyrirtæki, þetta er skattur á neysluvörur sem neytandinn í þjóðfélaginu kemur væntanlega til með að borga í einu eða öðru formi. Þetta er spurningin um það hvort þessi títtnefndi litli maður eigi að borga söluskatt og vörugjald af neyslu sinni af Kakómjólk og fjölskyldu sinnar.

Ég legg áherslu á að ég tel að allir eigi að vera jafnir fyrir lögunum og það þurfi að vera samræmi í löggjöfinni og þess vegna sé ekki eðlilegt að innheimta söluskatt og vörugjald af Kakómjólk en ekki mjólk sem meðhöndluð er með öðrum hætti. Þetta er ekki spurning um verðlagningu þessarar vöru, það er alveg sérmál og hægt að fjalla um það út af fyrir sig.

Ég held að málið sé sem sagt þetta, að Kakómjólk er mjólkurafurð og hlýtur að verða að meðhöndlast sem slík. Kakómjólk er hollur drykkur og óeðlilegt að reyna vísvitandi að draga úr neyslu þessarar vöru. Þetta er fyrst og fremst mál neytenda þótt því sé hins vegar ekki að leyna að í þessa vöru hafa farið 1 milljón lítra af mjólk og það er út af fyrir sig heppilegt fyrir bændur hafa markað fyrir þessa lítra af mjólkinni.

Hvað varðar verðlagningu og að mönnum þyki þessi mjólk dýr þegar þeir bera hana saman við aðra mjólk, þá má minna á það að þetta er svo kölluð G-vara, miklu meira unnin en venjuleg mjólk, magnið tiltölulega lítið og pakkningarnar smáar. Ég held sem sagt að þó menn vilji koma höggi á Mjólkursamsöluna eða bændastéttina megi þeir ekki láta það blinda sig. Hér er verið að ræða um skatt á neysluvöru en ekki skatt á fyrirtæki og ég held að það sé miklu hollara fyrir litla manninn að belgja sig út af Kakómjólk ef hann hefur lyst á henni fremur en að vera að hvetja hann sérstaklega til þess að fá sér kók.