26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4915 í B-deild Alþingistíðinda. (4324)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Það hefur verið æði víða komið við í þessari umr., sem hófst með fyrirspurnum um ákveðin grundvallaratriði, þ. e. hvað er ráðherranefnd að gera í máli sem er spurning um lagatúlkun og lagaskýringu, er rétt að skipa ráðherranefnd um slík mál. Menn hafa síðan komið við ansi víða. Það hefur verið rætt um verðmyndum mjólkurvöru almennt og auðsöfnun milliliðafyrirtækja í landbúnaði. Það hefur verið rætt um að þetta sé hugsanlega brot á kjarasamningum vegna þess að það leiði til hækkunar á vöruverði. Þetta hefur tengst áburðarverði. Það hefur verið rædd spurningin um hvort menn eigi að haga skattastefnu í samræmi við næringargildi. Það er svo sem mál út af fyrir sig. Það er vafalaust hægt að hugsa sér skattlagningu á alla matvöru í samræmi við næringargildi, en þá þarf að ákveða fyrst hvað er hollt og hvað er gott. Mönnum hefur nú gengið illa að samræma sig um það.

Það liggur við að það sé erfitt að hengja sig í ákveðin orð eins og matvara, mjólkurvara, hollustuvara, þar sem við vitum öll að skattlagning á þessar vörur hefur rokkað til og hoppað allt eftir því hvernig viðkomandi ríkisstjórnir hafa þurft að hagræða vísitölumálum hverju sinni og þá hafa menn ekki beinlínis verið að spyrja sig um lagatúlkun á því hvort eitthvað væri matur, hollusta eða mjólk. Þetta er því greinilegt matsatriði.

Hins vegar erum við ekki þeir fyrstu sem eiga í vandræðum út af svona. Það kom upp í huga minn áðan að Harry Belafonte orti einu sinni ljóð sem er mælt fyrir munn manns sem er að selja mangó. Það er svona, með leyfi forseta:

Listen, my woman is calling to me

she is awaiting me with anxiety

Soon she will be here if I don't appear

So, buy your Mango from me.

Og viðlag Harry Belafontes er svona:

Mango, buy my Mango

I came to the market

before the night

I've got to sell my Mango

before the night

So, buy my Mango, Mango, Mango.