26.04.1984
Sameinað þing: 84. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4915 í B-deild Alþingistíðinda. (4325)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Við þm. fengum að heyra það hér áðan að nú sætu í ríkisstjórninni 10 vinir litla mannsins. Fyrir nokkru kom hæstv. fjmrh. fram í sjónvarpi og lauk þá þeim þætti með þeim orðum, sem urðu fleyg, að loksins hefði litli maðurinn eignast vin í ríkisstj. Þá var orðið notað í eintölu en nú eru vinir litla mannsins orðnir 10. Kannske mundi samt einhver segja sem svo, að maðurinn ætti litla vini í ríkisstj.

Það sem olli því að ég kvaddi mér hljóðs hér var sá angi þessarar umr. sem fram kom í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v., Páls Péturssonar, þegar hann talaði um að menn væru hér að reyna að koma höggi á Mjólkursamsöluna. Það nefndi hann fyrst og síðan að verið væri að reyna að koma höggi á bændastéttina.

Það er undarleg árátta þeirra manna sem telja sig helstu talsmenn bænda hér á þingi, að alla gagnrýni á stefnu í landbúnaði, verðlagningarstefnu eins og hér er verið að tala um, leggja þeir þannig út að það sé verið að koma höggi á bændastéttina. Þetta eru auðvitað útúrsnúningar sem eru engu lagi líkir. Þó að stefnan sé gagnrýnd og það hvernig forustusauðirnir fara þar fyrir, þá er ekkert verið að höggva á íslenska bændur þar með. Það er allt annar handleggur.

Ég held hins vegar að þessi umr. sýni næsta vel og enn einu sinni að allt það kerfi sem hér er við lýði í landbúnaðarmálum er löngu ónýtt og gengið sér til húðar. Hvernig má það vera, eins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir, 10. landsk. þm., rakti hér áðan, að Mjólkursamsalan í Reykjavík byggir milljarða höll og þarf ekki að fá nokkurn skapaðan hlut að láni þó að búið sé að leggja 130 millj. í framkvæmdina? Hvernig má það vera að þetta kerfi sem skilar Mjólkursamsölunni 130 millj. hreinum í vasann, skilar bændum stöðugt lægri og lægri tekjum og neytendum stöðugt hærra vöruverði? Hvernig má það vera að þetta geti verið gott kerfi? Er þetta ekki enn ein sönnun þess að þetta kerfi er gjörsamlega ónýtt? Það hentar ekki lengur, það þarf að söðla um og breyta til. Og það er næsta undarlegt hvernig Sjálfstfl. lætur varðhunda þessa úrelta kerfis draga sig á asnaeyrunum í þeirri ríkisstj. sem nú situr. Það er næsta undarlegt.

Ég hygg að mikill hluti, ekki aðeins þm. heldur stuðningsmanna Sjálfstfl., geri sér ljóst að þetta kerfi er ónýtt, er búið að vera og er ekki nothæft lengur. Enn eina sönnun og enn eitt dæmi um það hvernig þetta kerfi starfar var að finna í leiðara Morgunblaðsins í dag. Þetta er stuttur kafli og það er veruleg ástæða til þess að vitna í þennan leiðara og að lesa þennan stúf. Þar segir svo með leyfi forseta:

„Það verður að telja eðlilegt að nokkur umframframleiðsla kindakjöts eigi sér stað í góðærum, ef við eigum að vera sjálfum okkur nógir um þessa vöru þegar verr árar.

Það er hins vegar ekki eðlilegt að sláturkostnaður né geymslukostnaður kjöts sé jafnhár og raun ber vitni. Því var haldið fram af fleirum en einum þm., er geymsla og sala kindakjöts úr landi kom til umræðu á Alþingi á dögunum, að „það sé meiri gróðavegur að geyma kjöt en selja það á Íslandi.“

Það er heldur ekki rétt að búvörudeild SÍS, sem er nær eini útflytjandi kjöts af landinu, taki söluþóknun af mun hærra „verði“ en fyrir það fæst á erlendum mörkuðum. Söluverð útflutts dilkakjöts var frá 28 til 73 kr. á kg á s. l. ári eftir löndum og vinnslu vörunnar. Engu að síður fékk SÍS sölulaun af reiknuðu verði kr. 75.62 fram til 1. okt. s. l. og kr. 129.32 eftir það. Það er ekki verjandi að reikna þann veg söluþóknun af útflutningsbótum sem sóttar eru í vasa skattgreiðenda.

Það skapar ekki sterkan hvata til að ná hærra söluverði ef söluþóknun miðast ekki við raunverð heldur tilbúna reiknitölu. Það ýtir heldur ekki undir þá þróun í vinnslu vörunnar á erlendan markað sem æskileg er. Það þjónar hvorki hagsmunum bænda, sem framleiðenda, né skattgreiðenda, sem útflutningsbæturnar borga, að hokra í sama SÍS-farinu í þessu efni.“

Nú spyr ég talsmenn Sjálfstfl.: Hversu lengi ætla þeir að láta þessa vitleysu viðgangast? Eru menn virkilega ekki sammála um það að þetta kerfi sé orðið ónýtt og það meira að segja fyrir löngu? En til eru aðilar sem hafa hag af því að standa vörð um það að engu sé breytt og ekki sé hróflað við núverandi kerfi. Það er hagur hinna fáu. Hagur hinna mörgu er auðvitað að þessu kerfi verði breytt. Hve lengi á að láta það viðgangast að greidd séu mörg hundruð millj. kr. á ári með mat, sem fluttur er úr landi, seldur er úr landi fyrir sáralítið verð? Það hefur viðgengist og það hefur verið skellt skollaeyrum við öllum tillögum um að feta sig út úr þessu ófremdarfyrirkomulagi. Tillögur um það hafa verið fluttar hér á Alþingi ár eftir ár, en þeir sem hafa hag af því að þetta kerfi haldi áfram óbreytt hafa séð um það að þessar tillögur hafa aldrei náð fram að ganga.

Það er ýmislegt fleira sem til mætti taka í þessu sambandi. Ég beini því til forustumanna Sjálfstfl. hér: hve lengi ætlar sá flokkur sem kennir sig við frjálsan markað og frelsi í viðskiptum og eðlilega viðskiptahætti að láta þessi ósköp halda áfram? Ég skora á forustumenn Sjálfstfl. að koma í þennan ræðustól og svara. Hér er ekki um það að ræða að verið sé að koma höggi á íslenska bændur. Það er allt annað sem hér er um að ræða. Og ég veit að hv. þm. Páli Péturssyni er það mætavel ljóst. Honum er það manna ljósast, hygg ég, sem þekkir vel til kjara bænda, að eins og nú háttar eru þeir ekki ofsælir af sínum kjörum. Raunar hygg ég að eins og horfir nú stefni hjá mörgum bændum í stórvandræði, þegar höfð eru í huga áburðarkaup á þessu vori og þær tekjur sem bændur hafa haft. En á sama tíma leggur Mjólkursamsalan fram 130 millj. án þess að taka einn eyri að láni. Hverjir hafa borgað þessar 130 millj.? Það hafa auðvitað allir gert sem hafa keypt mjólk og mjólkurvörur. Og það hafa bændur gert líka með lægra skilaverði. Þetta gefur auga leið. Annars staðar eru þessir peningar ekki teknir.

Það eru auðvitað ýmsar fleiri hliðar á þessum málum, sem ekki er ástæða til að ræða í löngu máli undir þessum lið, sem er umr. utan dagskrár. En spurningin er: Halda menn í alvöru að það sé hægt að halda áfram á sömu braut? Hvernig hugsar hæstv. landbrh. sér að staðan verði hér í kjötbirgðamálum á komandi hausti ef svo heldur fram sem horfir? Því heyrist fleygt að draga eigi úr niðurgreiðslum um 150–200 millj. kr. Nú hefur ekkert verið sagt um það á hvaða afurðum niðurgreiðslur verði lækkaðar.

Kannske verður það kjöt og kannske ekki. Það er eitt af leyndarmálum stjórnarheimilisins þessa dagana og hins blíða samkomulags sem þar ríkir um þessar mundir. En núna þegar lambakjöt og svínakjöt er jafndýrt, a. m. k. sumar tegundir, og fólk neytir svínakjöts tilbreytninnar vegna, ekki vegna þess að íslenskt lambakjöt sé neitt lakari matur en annað kjöt, miklu betra að mörgu leyti, en tilbreytninnar vegna er áreiðanlega stóraukin svínakjötssala a. m. k. hér á höfuðborgarsvæðinu, þetta hygg ég að menn geti fengið staðfest með einföldum samtölum við kjötkaupmenn, ef á svo að hækka lambakjötið enn þá meira hve mikill verður þá sá vandi sem við blasir í haust? Ég er hræddur um að þá verði kjötbirgðamagnið í landinu töluvert meira en menn hafa áætlað núna og þá verði útflutningsbótaþörfin kannske verulega miklu meiri en nú er. Nú er það líka vitað að ekki var nema takmarkað magn af kjöti verkað til útflutnings. Hvernig ætla menn þá að leysa þennan vanda?

Herra forseti. Ég ætla ekki að svo stöddu að hafa þessi orð fleiri. Tilefnið gefst áreiðanlega til að ræða þessi mál ítarlegar í umr. um dagskrárliði, en ekki hér í þessum umr. utan dagskrár.