30.04.1984
Efri deild: 85. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 4972 í B-deild Alþingistíðinda. (4374)

24. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Virðulegi forseti. Þetta mál er búið að vera alllengi fyrir þessari hv. deild. Hér er um að ræða staðfestingu brbl. frá í fyrrasumar, en þar segir að í stjórnarsáttmála ríkisstj. séu ákveðnar víðtækar efnahagsráðstafanir og brýna nauðsyn beri til að hrinda þeim í framkvæmd og þar á meðal séu ráðstafanir til að lækka tolla og þar með verðlag á ýmsum nauðsynjavörum heimilanna.

Um þetta mál hefur hv. fjh.- og viðskn. mjög mikið fjallað á liðnum vetri, bæði í sambandi við þetta sérstaka þingmál og tolla- og skattamál í heild, enda hefur hæstv. fjmrh. marglýst því yfir að hann vinni að því eða hans starfsmenn að gera uppskurð, skulum við segja, á þessum tollum og neyslusköttum, sem eru í mörgum tilfellum gífurlega háir eins og menn vita.

Nefndin hefur sem sagt aflað sér mjög mikilla upplýsinga um þetta mál og það er enn þá til meðferðar. En allir nm. eru sammála um að mæla með samþykkt þessa frv., en áskilja sér rétt til að flytja brtt. eða styðja. Hv. þm. Stefán Benediktsson sat fundi nefndarinnar þegar fjallað var um málið og var samþykkur afgreiðslu þess.

Eins og menn sjá er nál. dags. 21. mars 1984 og hefur þess vegna alllengi staðið á því að ég flytti hér framsögu af nefndarinnar hálfu, en það hefur verið án gagnrýni af öðrum nefndarmönnum, og skýringin er ósköp einfaldlega sú, að mikið hefur verið um það rætt að undanförnu að hugsanlega yrðu lagðir á einhverjir nýir neysluskattar í sambandi við gatið margfræga og mér fannst ekki við hæfi að afgreiða þetta mál út úr nefndinni fyrr en það lægi fyrir að ekki yrði dengt á einhverjum nýjum neyslusköttum því að þá hefði vissulega verið ástæða til að huga að brtt. við þetta frv., ákveða miklu meiri lækkun skattanna en er í frv. og jafnvel marga flokka aðra. En við höfum nú fengið af því fréttir góðu heilli að horfið hafi verið frá nýjum neyslusköttum og þess vegna get ég með ánægju lagt til að frv. verði samþykkt óbreytt.