04.05.1984
Efri deild: 90. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5353 í B-deild Alþingistíðinda. (4622)

310. mál, menntaskólar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég mun ekki styðja þá brtt. sem hér er til umr. Ég mun sitja hjá þegar hún kemur til atkv. og til þess liggja ýmsar ástæður. Ég held að af hálfu flm. till. hafi þetta mál kannske ekki verið hugsað til hinnar ýtrustu hlítar svo sem rétt væri.

Hér er um að ræða starfsemi sem komið var á fót fyrir allmörgum árum og hefur gefist mjög vel. Þetta er starfsemi fyrir fólk sem margt hvert er í vinnu og hefur laun og er því betur til þess fært að greiða nokkurt gjald fyrir þessa kennslu en ýmsir aðrir. Auðvitað er líka fólk sem ekki hefur tekjur sem er í þessu námi. Rétt er að það komi fram. En ég minnist þess ekki að hafa heyrt kvartað sérstaklega undan því að þessi gjöld væri mönnum óbærileg. Þau eru einhverjum sjálfsagt erfið, þess finnast áreiðanlega dæmi. En ég get tekið undir margt af því sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan. Auðvitað verður að krefjast þess að fólk skili árangri. Reyndin er sú, að það hefja mjög margir þetta nám á haustin sem heltast úr lestinni, sem sjá að þetta er erfið vinna og mikið álag. Ég held líka að það sé til þess fallið að fólk meti þetta meira og ræki þetta betur ef þarna kemur nokkurt gjald fyrir.

Hins vegar er svo það, að mikilvægi fræðslu af þessu tagi á eftir að fara mjög vaxandi, eins og fleiri hv. ræðumenn hafa um getið, og raunar eru þessi mál hér enn lítt skipulögð. Þáttur þeirra í fræðslukerfinu á eftir að vaxa stórum. Sú tíð er liðin að menn geti í eitt skipti fyrir öll menntað sig til starfs og stundað það síðan án frekara náms til æviloka. Það er naumast lengur fyrir hendi. Hitt verður æ algengara, að menn þurfi einu sinni, tvisvar eða jafnvel oftar á ævinni á endurmenntun að halda.

Ég minnist þess ekki að hafa heyrt neina gagnrýni á þessi gjöld. Hins vegar er auðvitað alltaf vel fallið til vinsælda að leggja til að gjöldum verði aflétt. Það er það auðveldasta sem til er að gera tillögur um að fella niður gjöld. En málið vandast stundum þegar á að gera tillögur um hvaðan taka skuli það fé sem þarna þarf óhjákvæmilega á að halda. Og skilji ég allt rétt, þá er það ekki háttur hinnar hagsýnu húsmóður að fara þannig að, að stofna til útgjalda án þess að séð verði hvernig skuli mæta þeim. Vera má að í ræðu hv. þm. hafi verið ítarlegar tillögur um hvernig skuli mæta þessum kostnaði, en ég sé ekki í till. að um það sé fjallað. Væri það góður siður ef menn hefðu það jafnframt í huga hvernig skyldi mæta kostnaði sem gerðar eru tillögur um. Það held ég að sé háttur hinnar hagsýnu húsmóður og ekki vanþörf á á sama tíma og hér er verið að leggja fram á hinu háa Alþingi tillögur um að fresta því enn einu sinni að grunnskólalögin komi að fullu til framkvæmda, á sama tíma og verið er að gera alls konar tillögur um niðurskurð í skólakerfinu — og þá er ég að tala um niðurskurð sem kemur niður á þeim nemendum sem ekki hafa tekjur, á hinum yngstu sem stunda hér nám, á þeim sem stunda nám á öllum stigum — meðan á að skera niður á þessum vettvangi. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt tillögur frá hv. þm. Kvennalistans um þessi efni.

Og svo er þetta náttúrlega gert að jafnréttismáli líka. Sjálfsagt er það það að einhverju leyti. En það er eins og kjarni allra mála hjá hv. þm. Kvennalistans verði jafnrétti, það er alveg sama um hvað er talað. Jafnrétti er ekki umdeilt og það er jafnrétti til náms á Íslandi. En við getum aldrei sett lög um að fólk hafi jafna hæfileika til náms, aldrei. Það er ekki til umr. (Gripið fram í.) Ég veit að ýmsir hv. þm. vilja það sjálfsagt og líta þannig á málið. En hvernig er nú jafnréttið í skólakerfinu? Þar er það kannske annað kynið sem nýtur ýmissa forréttinda. Eigum við að líta á kennslu í leikfimi í grunnskólum? Þar hef ég komist að hinum undarlegustu hlutum.

Í 9. bekk grunnskóla er það hluti af leikfimiprófi að hlaupa 800 metra. Stúlka sem hleypur 800 metra á 2 mín. 55 sek. eða skemmri tíma fær 10. Piltur sem hleypur þessa sömu vegalengd á sama tíma fær 7 eða 8.

Hann þarf að hlaupa þessa sömu vegalengd á 2 mín. 25 sek. til að fá sömu einkunn og stúlkan. Þetta sama gildir í hástökki. Þetta sama gildir í langstökki. Hv. þm. Kvennalista, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, hristir höfuðið. (SDK: Mér finnst þetta vera hlægilegt.) Já, henni finnst þetta hlægilegt. Mér finnst þetta ekkert hlægilegt. Mér finnst þetta vera misrétti. En skv. upplýsingum námsstjóra í íþróttafræðum við grunnskóla hafa þessar reglur verið settar vegna þess að stúlkur eru öðruvísi gerðar en piltar og þess vegna er þeim hér mismunað. Þær hafa ekki sama þrek, þær hafa ekki sama þol og úthald. Ég verð nú að segja alveg eins og er að mér finnst þetta vera ranglátar reglur. Það skyldi þó ekki vera eitthvað fleira í skólakerfinu sem er á þann veg að kynjunum sé mismunað með þessum hætti?

Þetta er nú svo sem ekkert meginatriði í umr. um þetta mál, en af því að hv. þm. Samtaka um kvennalista koma aldrei öðruvísi í ræðustól hér en að tala um jafnréttismál og það eru raunar einu málin sem þær hafa á sinni stefnuskrá, einu málin sem þær tala um í ræðustól á Alþingi eru jafnréttismál út frá ýmsu sjónarmiði og oft á misskilningi byggt, því miður, þá sá ég mig knúinn til að vekja athygli á þessu misrétti sem líðst í skólakerfinu. Það er ýmislegt annað misrétti sem viðgengst í skólakerfinu. Ég held að það sé misráðið að þvinga það fram t. d. að drengir og stúlkur á erfiðum breytingaaldri séu neydd til að vera saman í leikfimitímum. Ég held að þarna sé þessari svokölluðu jafnréttishugsjón, sem ég leyfi mér að kalla svo þegar henni er beitt svona, sé beitt til ills fyrir marga nemendur. Og ég held að það séu ýmis fleiri dæmi sem mætti nefna á þessum vettvangi.

Herra forseti. Meðan verið er að gera tillögur hér á Alþingi, sem munu ná fram að ganga, um að fresta því enn einu sinni að grunnskólalögin komi að fullu til framkvæmda, meðan verið er að skera niður hingað og þangað í skólakerfinu það sem snýr að börnum, þá verð ég að segja alveg eins og er að ég vorkenni ekki fullorðnu fólki, sem stundar flest vinnu, að greiða hluta umrædds gjalds. Eins og raunar kom hér fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds er heimild til að lækka þetta frekar. Þar sem ég lít svo á að öll þessi fullorðinsfræðslu- og eftirmenntunarmál séu í endurskoðun og mótun treysti ég mér ekki til að greiða þessari till. atkv. né heldur hinni annarri samkynja sem fylgir hér frv. um fjölbrautaskóla.