07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5440 í B-deild Alþingistíðinda. (4721)

277. mál, sala kristfjárjarðarinnar Ytra-Vallholts

Flm. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna umr. sem hér hefur farið fram.

Ég vil segja það út af orðum hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar að frv. þetta er ekki flutt sem skiptimynt í einhverjum kaupskap heldur er þetta frv. flutt vegna þess að við flm. teljum að rétt og eðlilegt sé að það nái fram að ganga.

Annað sem hv. þm. sagði — og skal ég þá ekki fara fleiri orðum um ræðu hans — var að þessi mál þyrftu athugunar við í það heila tekið. Ég tek undir það og ég hygg að slík athugun sé í gangi og til hennar hafi verið stofnað af fyrrv. dóms- og kirkjumrh. Friðjóni Þórðarsyni.

En það voru nokkur atriði sem hv. 3. þm. Reykv. nefndi í sinni ræðu sem skipta máli í sambandi við mál af þessu tagi.

Það er hárrétt, sem hann sagði, að sala kristfjárjarða er í rauninni allt annað mál en sala venjulegra ríkisjarða. Kristfjárjarðir eru yfirleitt gefnar með gjafabréfi. En í máli hans komu fram efasemdir um hver hefði heimildir til að selja slíkar jarðir. Í grg. þessa frv. er einungis vitnað til tveggja fordæma úr sögu Alþingis, frá 6. og 7. áratugnum, þar sem Alþingi hefur talið sig hafa heimildir til að leyfa sölu á slíkum jörðum. Með lögum er þá verið að upphefja ákvæði gjafabréfs. Áður en Ísland varð lýðveldi kom það margsinnis fyrir að leitað var til konungs um slík leyfi sem fengust mjög mörg, að því að ég hef séð í rituðum heimildum.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði einnig að sala ríkisjarða þyrfti athugunar við þar sem þar væri verið að selja eignir ríkisins. Ég tel að slík athugun fari fram hverju sinni, en það má benda á að ég hygg að ríkisjarðir séu einhvers staðar nálægt 800 talsins og að hagsmunir ríkisins muni vera sæmilega tryggðir þó svo að seldar séu nokkrar jarðir á hverju ári. Ríkið eignast annað veifið aðrar jarðir í staðinn.

Varðandi meðferð þessa máls að öðru leyti hefur þetta frv. að verulegu leyti verið undirbúið af lögfræðingum úr stjórnarráðinu og allir þættir þess athugaðir gaumgæfilega. Ég tel að eðlilegt sé að ef heimildin verður notuð fari sala fram undir forsjá dóms- og kirkjumrn. og, eins og segir í frv. sjálfu í lagatexta, að andvirði jarðarinnar verði ráðstafað að höfðu samráði við biskup í samræmi við ákvæði gjafabréfsins. Ég hef rætt þetta mál við biskup og sömuleiðis hefur ráðuneytisstjóri dóms- og kirkjumrn. rætt það við biskup. Ég hygg að það sé enginn vafi á að þannig verði staðið að framkvæmd málsins.

Ég hlýt að minna þá hv. þm. sem hér hafa tekið til máls á að frá 1693, þegar þetta gjafabréf er gefið út, hafa orðið gífurlegar þjóðlífsbyltingar á Íslandi og það sem þá var gert er ekki endilega víst að standa skuli um aldur og ævi, svo miklar breytingar hafa gerst á Íslandi á nærri því þremur öldum. Og það er nokkurn veginn vissa fyrir því að fátækar ekkjur og munaðarlaus börn í Hegranesþingi muni ekki bera skarðan hlut þó að þessi sala fari fram vegna þess að það verður ábyggilega tryggilega frá því gengið að ráðstafa andvirði þessarar jarðar í samræmi við gjafabréfið eins og mögulegt er og fært þykir.

Ég held að ekki sé ástæða til að fara um þetta efni fleiri orðum. Aðeins ítreka það, sem fram kom í máli frsm. nefndarinnar, að það er auðvitað mjög sterkt innlegg í þetta mál að fyrrverandi prófastur í Skagafjarðarsýslu, sem fer með yfirumsjón á þessari kristfjárjörð í umboði biskups og hefur gert um áratugi, séra Gunnar Gíslason, fyrrv. alþm., undirritar meðmæti hreppsnefndar og jarðanefndar, en séra Gunnar Gíslason á sæti í báðum þessum nefndum. Um leið og hið veraldlega vald mælir með því að Alþingi heimili slíka sölu mælir einnig fulltrúi hins geistlega valds, heima í héraði, með málinu.