07.05.1984
Neðri deild: 81. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5493 í B-deild Alþingistíðinda. (4754)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Síðasti ræðumaður talaði um frelsið. Ég hugga hv. þm. með því að á meðan a. m. k. einn úr flokknum hefur sjálfstæða skoðun er von fyrir frelsið í Sjálfstfl. Hann þarf því ekki að hafa áhyggjur út af því, þó að einhverjir þm. Sjálfstfl. slysist á að samþykkja þetta frv., að við hinir stöndum ekki vörð um frelsið.

Í sambandi við þær umr. sem hér hafa farið fram fannst mér þess gæta fyrst hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að hann ætlaði að reiðast yfir því að menn skyldu leyfa sér að koma fram á síðustu stundu og hafa aðrar skoðanir en meiri hl. sjútvn. Sem betur fer var það ekki í reynd, en það leit þannig út í upphafi hans ræðu. Það er náttúrlega alveg grundvallaratriði að menn sýni hver öðrum umburðarlyndi þegar þeir eru að fjalla um mál á hv. Alþingi Íslendinga. Menn verða að þora að taka sjálfstæða afstöðu þó að flokkar séu í stjórnarsamstarfi. Það að vera í stjórnarsamstarfi felur ekki í sér að menn hafi undirgengist að skrifa á hvað sem er og segja einmitt það sem hentar í það og það sinnið í viðkomandi stjórnarsamstarfi. Það er hluti af frelsinu og lýðræðinu að bæði hv. þm. og aðrir haldi sínum skoðunum innan þings sem utan.

Mér finnst vanta inn í þessa umr. að rætt sé nánar hvaðan sú ósk eða krafa kom að gera þær grundvallarbreytingar sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég hef ekki orðið var við þá miklu umræðu um þetta mál hjá þeim aðilum, sem starfa í sjávarútvegi og fiskiðnaði, sem réttlætir að berja fram á þessu þingi samþykki fyrir þessu frv.

Hæstv. ráðh. Halldór Ásgrímsson rakti mjög ítarlega fyrir okkur hvað þetta hefur átt sér langan aðdraganda, allt frá árinu 1979 og allar götur síðan. Ég held að upphaf þessa máls sé ekki að leita hjá þeim aðilum sem starfa í atvinnugreininni. Það frumkvæði kemur annars staðar frá. Og þá er spursmálið: Hvers vegna? Ég kann ekki svar við því, a. m. k. vil ég ekki ræða um það á þessu stigi hver sé mín skoðun á því. En aðilar óskuðu ekki eftir þeim grundvallarbreytingum sem frv. gerir ráð fyrir. Það finnst mér vera kjarni málsins. Og þeir óska enn ekki eftir þeim breytingum. Ég tel að þær umsagnir sem var vísað til áðan sanni glögglega að það eru fyrst og fremst þeir sem eru hluti af kerfinu sem við búum við sem leggja áherslu á breytingar, en aftur á móti óska framleiðendur, útvegsmenn, sjómenn og fólk í fiskiðnaði ekki eftir breytingum. Hins vegar hefur á þessum fimm árum greinilega tekist að nudda því í gegn í einstaka félögum og samtökum að taka afstöðu til einstakra greina frv., en samt ekki af mikilli sannfæringu.

Ég vil leiðrétta það, og þess vegna kom ég hingað, að ég ræddi ekki um Samband ísl. samvinnufélaga í minni ræðu. Það mun annar hv. þm. hafa gert. Ég vil leiðrétta það. Hins vegar kom það fram hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að einn af aðalframleiðendum sjávarafurða á Íslandi, þ. e. sjávarafurðadeild SÍS ef ég tók rétt eftir, tekur fram í sinni umsögn að það sé þörf fyrir breytingu á starfsháttum Framleiðslueftirlits sjávarafurða eins og það er nú en ekki á lögunum. Ég tel þetta mjög veigamikla umsögn. Sá sem mun hafa skrifað undir þessa umsögn er Arni Benediktsson. Er það ekki rétt? Árni Benediktsson hefur mjög mikla og góða þekkingu á sjávarútvegs- og fiskiðnaðarmálum.

Þá vík ég að öðru, sem hlýtur að skipta einhverju máli í þessu sambandi, og það er að ekki mun hafa komið fram skriflegt álit frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Mér er kunnugt um að á sínum tíma fór fram nokkur umræða um þær hugmyndir sem hér lágu fyrir fyrir einu til tveimur árum, þegar þetta var fyrst til umræðu, og fengu þær ekki góðar undirtektir í þeim félagsskap. Nú hefur ekki komið skrifleg umsögn frá SH. Ef maður leggur saman sjávarafurðadeild SÍS annars vegar og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hins vegar kemur í ljós að þeir aðilar, sem fjalla um ca. 70% af framleiðslu frystra sjávarafurða á Íslandi, leggja ekki mikla áherslu á þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir. Annar aðilinn er greinilega á móti, sjávarafurðadeildin, en hún verslar með ca. 30% af öllum frystum sjávarafurðum auk annarra afurða, eins og skreiðar, saltfisks o. fl., og sölumiðstöðin með u. þ. b. 70%. Það má því segja að ef litið er á þetta í heild flytji sjávarafurðadeild SÍS og SH út ca. 95% af öllum frystum sjávarafurðum, enda hafa þessi samtök með frjálsum hætti komið sér upp mjög góðu eftirlitskerfi og fullnægja mjög þeim kröfum sem við erum að ræða um, þ. e. kröfunum um að gæði séu mikil á þeirri vöru sem þeir aðilar framleiða sem eru innan vébanda þessara samtaka. Það mun vera nokkuð vel tryggt. Með því fyrirkomulagi sem við höfum haft, því óháða mati sem Framleiðslueftirlitið hefur haft á hendi, hefur eftirlitið eiginlega verið tvítryggt. Þetta hefur verið 100% í lagi, ef það mætti orða það þannig, en auðvitað hafa verið einhver frávik þarna eins og ætíð vilja eiga sér stað.

Það er hins vegar greinilegt að þeir sem framleiða skreið og saltfisk og aðrar sjávarafurðir geta hugsað sér þær breytingar eða eitthvað í þá átt sem koma fram í frv. Af þeim umsögnum sem hér voru kynntar frá þessum aðilum fyrir utan þessar kerfisstofnanir sem létu álit sitt í ljós, er greinilegt að t. d. skreiðarmenn geta hugsað sér fyrirkomulag líkt því sem frv. gerir ráð fyrir. Ég tel að hægt hefði verið að fullnægja því sjónarmiði með minni háttar breytingum á núgildandi lögum um Framleiðslueftirlit sjávarafurða.

Hæstv. ráðh. kom inn á stöðu fiskmatsráðs skv. 3. gr. Það er mat hæstv. ráðh. að þessi lagagrein og staða fiskmatsráðs skv. frv. sé þess eðlis að þessi stofnun verði óháð í framtíðinni þrátt fyrir ákvæði 3. gr. Ég er ekki á sömu skoðun og hæstv. ráðh. í þeim efnum. Ég fel að fiskmatsráð muni koma þannig inn í þessi mál að framkvæmd þessara mála verði ekki eins óháð og verið hefur til þessa og endurtek að ég tel að hagsmunaaðilar eigi ekki að vera þarna í stjórn Ég er einnig þeirrar skoðunar að stjórnmálavaldið fái þarna of mikil áhrif þegar ráðh. fær vald til að ákveða hverjir skipi fiskmatsráð á hverjum tíma. Þetta er mitt mat. Það verður hver að meta það eins og hann skilur og vill túlka þessar lagagreinar.

Þar er ég ekki sammála hæstv. ráðh. þegar hann segir að hann telji að það sé undirstaða lýðræðiskerfisins að stjórnmálamenn hafi afskipti af málefnum þegnanna með þeim hætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég tel að stjórnmálamenn eigi ekki að hafa mikil afskipti af athöfnum manna í hinu daglega starfi úti í atvinnulífinu. Ég tel að þetta frv. geti boðið upp á þá möguleika að stjórnmálavaldið hafi of mikil áhrif á dagleg störf manna í atvinnulífinu. Það mundi gerast með bæði beinum og óbeinum hætti. En þar með er ég ekki að segja að hæstv. núverandi ráðh., Halldór Ásgrímsson, mundi nota þessi lög með þeim hætti sem ég tel að þau megi nota.

Það þarf því ekki að hljóma neitt einkennilega þótt þm. ræði hér um hver séu takmörkin fyrir því hvert afskipti stjórnmálamanna eigi að ná af athöfnum borgaranna í hinu daglega starfi.

Ég var hins vegar sammála ráðh. þegar hann ræddi um það atriði að styrkja þyrfti hinn faglega grundvöll í sambandi við þessi mál. Ég er sammála því að hann verður að treysta. Og þá er spursmálið: Hvernig á að treysta hinn faglega grundvöll? Það gerist auðvitað í framkvæmd en svo er einnig nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hvað er faglegur grundvöllur. Hver er hinn faglegi grundvöllur sem við erum að tala um í sambandi við sjávarútveg og fiskiðnað? Fyrst skulum við skilgreina það. Þá vitum við hvað við ætlum að framkvæma á eftir.

Það er greinilega þörf á að skilgreina hvaða rekstrarkröfur eigi að gera til þeirra sem starfa í sjávarútvegi og fiskiðnaði. Í þeim efnum er mörgu mjög ábótavant, þ. e. um það hvaða kröfur menn geri til þeirra aðila sem fá og eiga að fást við útveg. Ég er fullkomlega sammála ráðh. um að auðvitað verður að grípa í taumana í sambandi við þá neikvæðu þróun sem hefur verið að eiga sér stað undanfarið. Það virðast eiginlega allir geta farið út í nokkurs konar bílskúrarekstur í frystingu matvæla. Þar er um að ræða svokallaða hægfrystingu sem er stórhættuleg varðandi gæði vörunnar. Nauðsynlegt er að stemma stigu við því og gera það með þeim hætti sem við á til að tryggja að ekki verði stórslys á hinum erlendu mörkuðum. I því efni er ég fullkomlega sammála ráðh. að ganga þarf frá málum þannig að óvandaðir aðilar fari ekki út í fiskvinnslu og útflutning með þeim hætti sem nú virðist hafa tíðkast. Þar er þörf á að setja almennar reglur. Ég tel að ráðh. geti það skv. gildandi lögum um Framleiðslueftirlit sjávarafurða og með útgáfu reglugerðar.

Um það atriði að nær allir hagsmunaaðilar mæli með því að þetta mál nái fram að ganga, þar sem vísað er sérstaklega til Sambands fiskvinnslustöðva m. a., vil ég segja að Samband fiskvinnslustöðva er blandaður félagsskapur. Ég held að ekki sé rétt að blanda saman Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna annars vegar og Sambandi fiskvinnslustöðva hins vegar. Það hefur nú verið þannig hingað til að sölumiðstöðin hefur getað svarað fyrir sig. Ég vil segja það, án þess að ég tali fyrir hönd þess félagsskapar á þessu augnabliki, að ég held að umræðunni sé ekki lokið í því félagi um afstöðu manna til þess frv. sem er til umræðu nú.