09.05.1984
Neðri deild: 83. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5590 í B-deild Alþingistíðinda. (4871)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Við 2. umr. hér í gærkvöld komu fram ýmsar fullyrðingar. Það er aðeins einn þáttur sem ég vildi gera hér að umræðuefni í örstuttu máli.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson taldi að samþykkt þessa frv. þýddi það í reynd að fjölga yrði starfsmönnum um a. m. k. 50, sem hlyti að leiða af sér verulega kostnaðaraukningu. Hv. þm. Stefán Guðmundsson, formaður sjútvn., upplýsti í umr. að skv. umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunar mundi hér vera um að ræða sparnað frá því sem nú er yrði frv. samþykkt. (Forseti: Ég vil spyrja hv. þm. hvort hann verði lengi með ræðu sína.) Nei. Ég segi bara örfá orð og er reyndar að ljúka.

Þarna greinir menn á um hvað þetta kann að þýða. Ég vildi því spyrja hæstv. sjútvrh. hvaða skoðun hann hefði á því, hvort samþykkt frv. hefði í för með sér verulega kostnaðaraukningu eða hvort hér væri um að ræða breytingu sem leiddi af sér sparnað frá því sem verið hefur. Væri vel þegið ef hæstv. sjútvrh. gæti svarað þessu nú við 3. umr.