09.05.1984
Neðri deild: 83. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 5596 í B-deild Alþingistíðinda. (4890)

341. mál, Íslensk málnefnd

Bjarni Guðnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns að ég fagna því að hæstv. menntmrh. hefur haft frumkvæðið um að auka veg málnefndar, málræktar og málverndunar með lagasetningu. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. því að ég sit í þeirri nefnd sem mun fjalla um þetta í Nd., en þó vil ég aðeins vekja máls á einu eða tveimur . atriðum sem mér þykir rétt að komi fram.

Í fyrsta lagi er það dálítið athyglisvert að sú nefnd sem vann þetta frv. var svo skjótvirk og fljótvirk að hún sat rúma viku yfir frumvarpsdrögunum. Þetta hefur leitt til þess að sums staðar þykir mér örlítil missmíði á þessu frv. Þau eru þó ekki þannig að ekki megi um þau bæta í nefnd.

Ég vil aðeins víkja að því að hér er fjallað um málnefndina sem hefur starfað í 20 ár með þjóðinni, oftast búið við mikið fjársvelti en hún hefur þó sinnt sínum störfum eftir mætti. En þá bregður undarlega við þegar sett eru lög, sem heita Íslensk málnefnd, að ekki er leitað álits málnefndarinnar um þessa nýju lagasetningu.

Þá er vert að athuga það að ýmsar aðrar stofnanir í okkar menningarmálum fást við málrækt, málrannsóknir og málvernd. Þar má nefna málvísindastofnun heimspekideildar, Orðabók Háskóla Íslands og heimspekideild en það hefur ekki gefist tími til að leita álits og samstarfs við þessa aðila. Þetta hefur leitt til þess að sums staðar í þessu frv. er mjög óljós verkaskipting milli þessara stofnana og sumu er þannig háttað að ég held að það hefði verið mikil bót ef þessar stofnanir, sem hér um ræðir, hefðu átt einhvern hlut að máli í sambandi við gerð þessa frv. Ég ætla ekki að rekja þetta nánar en þetta mun vafalaust koma til umr. í n.

Annað atriði vil ég svo minnast á. Það er að mér þykir hugtökin „málnefnd“ og svo „Íslensk málstöð“ vera dálítið óljós hugtök því að í 3. gr. segir að íslensk málstöð sé skrifstofa Íslenskrar málnefndar og samt er gert ráð fyrir því að fjárveiting fari til þessarar málstöðvar. Málnefndin, sem á að vera starfandi áfram þannig fær í sjálfu sér enga fjárveitingu ef ég skil rétt. Hún er eiginlega svipt fjárveitingum úr ríkissjóði, en málstöðin verður fjárráðandi. Það virðist þá í raun og veru vera forstöðumaðurinn væntanlegur sem fer með öll fjárráð, en sjálf málnefndin hefur engin fjárráð. Ég hygg að það þyrfti að huga dálítið að þessu og hvort málnefndarmenn, sem allir eru þjóðkunnir menn, hefðu ekki hug á því að hafa einhverja íhlutun í sambandi við ráðstöfun fjár til þessara hluta. Ekki fleiri orð um þetta.

En að lokum, ég hef orðið var við það og þekki það frá gamalli tíð að Íslendingar virðast stundum eiga erfitt með lagasetningar að því leyti að þeir ryðja inn í lagagerð og lagasetningu margvíslegum smáatriðum sem eiga heima í reglugerð. Ég vil benda á það að sumt af þessu sem hér er í frv. til l. á naumast alls ekki heima í lagagerð eða lögum, en margt af þessu er svipaðs efnis og er í reglugerðum annarra stofnana. Ég held að það væri mjög athugandi, ekki síst í menntmrn., að reyna að gera sér einhverja grein fyrir því hvað á heima í lögum og hvað á heima í reglugerð. Ég get sagt til skemmtunar að grunnskólalögin norsku eru í um 20 örstuttum greinum, en þessari lagasetningu fylgdi svo rækileg grg. Ég hygg að það væri mjög heppilegt ef reynt væri að hafa einhverja fastari og ákveðnari stefnu um það hvað á að vera í lögum og hvað á að vera í reglugerð. Þessi óvissa og ég vil segja oft ringulreið veldur því að lög verða oft úrelt, erfitt að breyta þeim og þá er miklu handhægara að hafa alla þessa smáhluti í reglugerðum sem kostar sáralítið erfiði að breyta.